Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. október. 2005 09:54

Eitt þúsund fundir á 63 árum í bæjarstjórn Akraness

Í gær, þriðjudag, var haldinn eittþúsundasti fundur bæjarstjórnar Akraness en sá fyrsti var haldinn 26. janúar árið 1942 þegar Ytri Akraneshreppur fékk kaupstaðarréttindi.

Af þessu tilefni var fundurinn með hátíðlegasta móti en auk hefðbundinna liða á slíkum fundum voru þrjár umfangsmiklar tillögur lagðar fyrir og samþykktar. 

 

Þær tillögur sem samþykktar voru fjölluðu um eftirfarandi: Tillaga starfshóps að uppbyggingu íþróttamannvirkjanna á Jaðarsbökkum og yfirbygging sundlaugarinnar var samþykkt, en í tillögunni er stefnt að því að þeim framkvæmdum ljúki á næstu fjórum til sex árum.

 

Þá var samþykkt yfirtaka á skógræktarsvæðinu við Klapparholt sem verið hefur í umsjón hjónanna Guðmundar Guðjónssonar og Rafnhildar Árnadóttur frá árinu 1988. Þar hafa þau hjón unnið ötullega að uppgræðslu og gróðursetningu en telja tíma kominn til að skila svæðinu aftur í hendur kaupstaðarins og undirritaði bæjarstjóri gjafabréf þeirra og afsal þar af lútandi.

 

Að lokum var samþykkt fjölskyldustefna fyrir Akraneskaupstað.  Stefna þessi mun þjóna sem leiðarljós í þeim markvissu aðgerðum bæjarins að auka lífsgæði þeirra sem á Akranesi búa og styrkja almennt skilyrði til búsetu í bæjarfélaginu.

 

Að fundi loknum var boðið til móttöku í Safnaskálanum að Görðum þar sem öllum núverandi og fyrrverandi bæjarstjórnarmönnum, ásamt öllum þeim sem gegnt hafa stöðu bæjarstjóra á Akranesi, var boðið. Þar bauð Guðmundur Páll Jónsson, forseti bæjarstjórnar gesti velkomna, nemar frá Tónlistarskóla Akraness léku fyrir gesti og skjöl um áðurnefndar tillögur voru undirrituð.

 

Fundur bæjarstjórnar Akraness var eins og áður segir númer eitt þúsund í röðinni. Hér á eftir fylgir lítill annáll sem fluttur var í upphafi fundar bæjarstjórnar og fjallar hann um upphafið, hverjir hafa setið lengst í bæjarstjórn og ýmislegt annað fróðlegt efni.

 

Annáll:

 

Þann 26. janúar árið 1942 hélt fyrsta bæjarstjórn Akraness fund sinn, en sveitarfélagið hafði þann 1. janúar það ár fengið kaupstaðarréttindi með lögum frá Alþingi.  Sem kunnugt er var frá landnámi eitt sveitarfélag sunnan og vestan við Akrafjall allt til ársins 1885, þegar Akraneshreppur skiptist í Innri- og Ytri-Akraneshrepp.  Ytri-Akraneshreppur óx og dafnaði þannig að árið 1942 voru þar um 2000 íbúar.  Á árunum fyrir 1942 fjölgaði íbúum og hreppurinn stóð í margs konar framkvæmdum, svo sem hafnargerð, lagningu vatnsveitu og gatnagerð, en að auki átti sér einnig stað mikil uppbygging atvinnulífsins, einkanlega á sviði útgerðar og fiskvinnslu.  Þann 7. febrúar 1941 barst hreppsnefnd Ytri- Akraneshrepps erindi um að hreppsnefndin beitti sér fyrir því að sveitarfélagið fengi kaupstaðarréttindi.  Hreppsnefndin tók erindinu vel og hélt borgarafund þar sem samþykkt var að leita eftir því að Akranes fengi bæjarréttindi.   Eftir að lög Alþingis tóku gildi var boðað til bæjarstjórnarkosninga þann 25. janúar 1942 og daginn eftir tók nýkjörin bæjarstjórn til starfa og hélt sinn fyrsta fund.

 

Í dag heldur bæjarstjórn Akraness sinn eittþúsundasta fund, en á því tímabili sem liðið er hafa 17 bæjarstjórnir setið, en ein þeirra sat aðeins um nokkurra mánaða skeið því ekki náðist niðurstaða um myndun meirihluta og var þá kosið að nýju.  Í þessum 17 bæjarstjórnum hafa 67 einstaklingar setið sem rétt kjörnir aðalmenn, en þess ber þó að geta að nokkrir einstaklingar hafa sem varamenn setið fundi bæjarstjórnar stóran hluta kjörtímabils, án þess þó að taka þar sæti sem aðalmenn.  Af þessum 67 einstaklingum eru 10 konur, en það var ekki fyrr en árið 1982 að kona var fyrst kosin í bæjarstjórn en þá tóku þrjár konur sæti í bæjarstjórn, þær Ingibjörg Pálmadóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir.

Hálfdán Sveinsson og Jón Árnason eru þeir einstaklingar sem lengst hafa setið í bæjarstjórn en báðir voru þeir bæjarfulltrúar í sjö kjörtímabil eða 28 ár.  Valdimar Indriðason sat í sex kjörtímabil eða 24 ár og þeir Daníel Ágústínusson og Guðmundur Sveinbjörnsson sátu í 5 kjörtímabil í bæjarstjórn eða um 20 ára skeið.  Bæjarstjórar þennan tíma hafa verið 10 talsins.

 

Bæjarstjórn Akraness hélt fyrstu fundi sína á nokkrum stöðum í bænum, en frá árinu 1943 hefur bæjarstjórn aðallega haldið fundi sína á fjórum stöðum í bænum.  Í svonefndu bæjarhúsi við Kirkjubraut 8, í Stúkuhúsinu við Háteig, en það hús hefur nú verið flutt á safnasvæðið að Görðum, í bæjarþingsalnum að Heiðarbraut 40 og nú í bæjarþingsalnum að Stillholti 16-18, en þangað flutti bærinn skrifstofur sínar árið 1995.

 

Öllum er ljóst að á þeim 63 árum sem liðin eru frá því að Akranes fékk kaupstaðarréttindi þá hafa öflugir einstaklingar lagt samfélaginu á Akranesi til starfskrafta sína.  Þeir hafa af fórnfýsi og einurð fylgt eftir hagsmunamálum bæjarbúa og lagt grundvöllinn að því velferðarsamfélagi sem Akranes er í dag.  Á þessum tímamótum er þeim sem setið hafa í bæjarstjórn Akraness færðar þakkir fyrir ómetanlegt framlag um leið og þeim bæjarfulltrúum sem taka munu sæti í bæjarstjórn á komandi tíð er óskað farsældar í því mikilvæga starfi.  Umfram allt er ætíð brýnast að hafa hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi og leiða mál fram af skilningi og velvilja.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is