Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Laugardagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. október. 2005 05:21

Óli stormur sestur í helgan stein

Ólafur Ólafsson lögreglumaður í Stykkishólmi hefur látið af störfum eftir áratuga þjónustu við Snæfellinga. Ólafur, sem er betur þekktur undir nafninu Óli stormur, hóf fyrst störf í lögreglunni árið 1972 en lauk námi í Lögregluskólanum árið 1974. Um síðustu mánaðamót lét hann af störfum vegna aldurs og af því tilefni var honum haldið hóf í veitingahúsinu Krákunni í Grundarfirði. 

 

Ólafur segir feril sinn í lögreglunni hafa í raun hafist árið 1960 þegar Lúther Salómonsson kallaði hann sér til aðstoðar vegna fjöldaslagsmála. Voru þar skildir að tugir manna sem voru í blóðugum slagsmálum. Í þá daga var Ólafur sjómaður og í framhaldinu aðstoðaði hann lögregluna um árabil í landlegum. Hann segir verbúðalíf hafa verið um árabil mjög skrautlegt á Snæfellsnesi og þar hafi oft komið til ryskinga þegar menn gerðu sér glaðan dag. Löngum hafi lögreglumenn á Snæfellsnesi verið einir að störfum og því hafi hlutskipti þeirra verið erfitt því ekki hafi verið gott að standa einn andspænis tugum eða hundruðum manna sem voru að skemmta sér. Því hafi oft reynt á langlundargeð og samningalipurð lögreglumanna. Lítill neisti hafi getað kveikt mikið ófriðarbál sem oft hafi verið erfitt að slökkva.

 

Batnandi bæjarbragur

 

Ólsarar og Sandarar áttu sjaldnast skap saman þegar Bakkus var meðreiðarsveinn þeirra. Ekki veit Ólafur hvers vegna svo var en staðfestir að sjaldnast hafi íbúar þessara staða getað skemmt sér undir sama þaki án þess að fjöldaslagsmál fylgdu í kjölfarið. Aðspurður hvort hann hafi aldrei slasast við störf sín segir Ólafur svo ekki vera. Þar hafi líkamlegt atgerfi hans trúlega hjálpað til og útsjónarsemi. Það gat líka verið tímafrekt að stilla til friðar. Ólafur rifjar upp að einu sinni hafi hann við annan mann þurft að fjarlægja á annað hundrað manns úr verbúð í Ólafsvík. Það hafi tekið rúma tvo tíma en það hafi gengið slysalaust fyrir sig í það skiptið. Nokkrum dögum síðar hafi sú verbúð hinvegar verið lögð í rúst en þá hafi lögreglan ekki verið til staðar.

Ólafur segir bæjarbrag hafa breyst mjög til batnaðar hin seinni ár á Snæfellsnesi og nú heyri fjöldaslagsmál og sukksamt verbúðarlíf sögunni til. Hann segir enga eftirsjá í því. Ekki sé ástæða til þess að sjá eftir rugli og vitleysu í mannlegum samskiptum og fráleitt að fólk fari að sjá blóðug slagsmál án nokkurs tilefnis í rósrauðum bjarma endurminninga.

 

Storms viðurnefnið

 

Eins og áður sagði var Ólafur á yngri árum sjómaður og síðan hann hóf störf í lögreglunni fyrir rúmum þrjátíu árum hefur sjórinn togað hann til sín. Hann lagði lögreglubúninginn um tíma á hilluna og gerðist skipstjóri að nýju um stund. Fæstir þekkja Ólaf undir skírnarnafni sínu því sjaldan er hann nefndur öðruvísi en sem Óli stormur. Þetta viðurnefni hefur fylgt honum frá unga aldri og tengist sjósókn hans. Hann segir nafnið hafa komið í kjölfar róðurs sem hann fór á báti sínum Kristleifi, sem var 9 tonn að stærð. Eitt sinn í mikilli brælu hafi hann haldið í róður og skömmu síðar hafi allur flotinn fylgt á eftir. Hann hafi náð að draga sín net en flestir aðrir skipstjórar hafi lent í miklum vandræðum. Síðan hafi hann ávallt verið kenndur við storminn og sér hafi alla tíð líkað það vel.

 

Samningaleiðin best

 

Ólafur hefur nú látið af störfum og segist hafa áhuga á að leggja land undir fót og skoða sig um í heiminum á næstu árum. Hann eigi víða inni heimboð sem hann vilji nú sinna. Hvort að hann haldi til hafs á ný vill hann engu um spá og útilokar ekki að til þess kunni að koma.  

Aðspurður segir hann engan einn atburð standa uppúr sínum langa ferli sem lögreglumaður. Hann hafi oft komist í hann krappann þegar skilja hafi þurft stóra hópa fólks. Þar hafi henn hins vegar notið kennslu Lúthers sem áður var nefndur sem kenndi honum þolinmæði og því hafi hann aldrei mætt mönnum öðruvísi en með berar hendur. Aldrei hafi komið til greina af sinni hálfu að nota kylfur eða önnur hjálpartæki. Það hafi einungis verið ávísun á harðari deilur og slagsmál. Samningaleiðin hafi að sjálfsögðu verið tímafrekari en þegar upp hafi verið staðið hafi hún ávallt verið öllum fyrir bestu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is