Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. nóvember. 2005 04:11

Hunangsflugur og villikettir - Leiksigur í Grundaskóla

Það er óhætt að segja að það hafi verið stór stund í sögu Grundaskóla á Akranesi í gær, laugardag þegar frumsýning á söngleiknum Hunangsflugum og villiköttum fór þar fram fyrir troðfullu húsi. Enn á ný sönnuðu nemendur og starfsfólk með ótvíræðum hætti hversu feikiöflugur skóli þetta er. Sýningin var í alla staði frábær hvort heldur sem um er að ræða handrit, tónlist, leikstjórn, leikræna tilburði eða samþættingu allra þessara þátta.

 

Söngleikurinn er í fullri lengd, miðað við sýningar áhugaleikhópa almennt, en með hléi tók hún tæpar tvær klukkustundir. Leikgleði krakkanna var mikil og á stokk stigu margir ungir og efnilegir leik- og söngvarar sem vafalaust eiga eftir að gera það gott í framtíðinni. Ekki eina sekúndu fékk áhorfandinn á tilfinninguna að eitthvað væri ekki að ganga sem skildi, þannig að úr varð ein besta áhugaleikhússýning sem undirritaður hefur séð, jafnvel án þess að horft sé til aldurs leikara.

 

Leikstjórn er í höndum Einars Viðarssonar en tónlistarstjóri er Flosi Einarsson. Þeir félagar sömdu jafnframt handrit og lög ásamt Gunnari Sturlu Hervarssyni fyrrum kennara við skólann sem á nokkur þeirra 13 laga og texta sem flutt eru. Þeir Einar og Flosi hafa lagt allt sitt í verkið og í raun miklu meira en hægt er að ætlast til að einstakir starfsmenn nokkurs skóla geri. Eiga þeir sérstakan heiður skilinn fyrir framlag sitt.

 

Söngleikurinn Hunangsflugur og villikettir fjallar um unglinga á Akranesi í kringum 1970. Í bænum eru tvö gengi sem eiga í stöðugri baráttu um völd, frægð og frama og líkt og svo oft í annan tíma er ljóst að aðfluttir einstaklingar sitja ekki við sama borð og innfæddir í þeirri baráttu. Þessi barátta er háð í götubardögum, á fótboltavellinum í gegnum félagsstarf og í skólanum. Aðalsögupersónan Elvar er nýfluttur í bæinn frá Hljómabænum Keflavík, sonur bandarísks hermanns sem féll í Víetnamstríðinu. Við komu sína í bæinn leiðir Bóbó frændi hans hann til fundar við Efri Skagaklíkuna, piltana sem eiga sér einlægan draum um frægð og frama á hljómsveitarsviðinu og stofna þeir bandið Villikettina þar sem Elvar er fljótlega skipaður söngvari. Piltarnir í Villiköttunum eiga í stöðugum erjum við Halla og fína gengið hans af Neðri Skaganum. Ekki batnar ástandið þegar Elvar hrífst af Júlíu, sætu stelpunni sem er næstum því kærasta Halla aðalgæjans í Neðri Skaga klíkunni og söngvara í hljómsveitinni Hunangsflugunum. Báðar hlómsveitirnar eiga þann draum heitastan að spila á stóra stúkuballinu enda felst í því mikil félagsleg virðing meðal unglinga í bænum. Verkið fjallar síðan um örlög krakkanna á bak við þessar hljómsveitir þar sem ástin, valdabarátta, landafundur í fjörunni við Ytri Hólm og ýmislegt annað kemur við sögu.

 

Í Hunangsflugum og villiköttum tekst höfundunum að tengja í góðu flæði söguþráð í texta og tónum. Í verkinu koma tugir nemenda af unglingastigi Grundaskóla við sögu. Það er erfitt og í raun ósanngjarnt að draga einhverja einstaka leik- og söngvara fram í dagsljósið umfram aðra því ALLIR unglingarnir í þessari sýningu sem og hún Sigurbjörg Ragna stóðu sig með mikilli prýði. Á þetta jafnt við um aðalleikarana, þau Arnþór Inga Kristinsson, Huldu Halldórsdóttur, Ólaf Helga Halldórsson og Kristinn Ágúst Þórsson og þá sem voru í öðrum hlutverkum eða í verkefnum baksviðs. Þó má segja að undirritaður verði mest spenntur þegar fram líða stundir að fylgjast með árangri Arnþórs Inga, sérstaklega á tónlistarsviðinu. Aðrir félagar í Neðri- og Efri Skagaklíkunum skiluðu sínum hlutverkum með sóma sem og þeir sem í smærri hlutverkum voru. Veikur hlekkur var þar hvergi. Aðrir þættir svo sem sviðsmynd, hljóð, lýsing og búningar, allt átti þetta sinn þátt í að skapa heildstæða sýningu og átti áhorfandinn afskaplega auðvelt með að lifa sig inn í hippatímann í dæmigerðum íslenskum útgerðarbæ þar sem stöðug barátta er um völd, frægð og frama.

 

Þess má geta að gefinn hefur verið út hljómdiskur með tónlist Hunangsfluga og villikatta og hefur hann að geyma mörg ágæt lög í anda tímabilins. Lög þessi er gaman að hlusta á aftur og aftur og leynast þar inn á milli ágætar perlur sem vonandi eiga eftir að hljóma á öldum ljósvakans næstu misserin.

Ekki er nokkur vafi að hér er á ferðinni leikverk sem á mikið erindi jafnt til fullorðinna, sem endurlifa vilja gamla hippatímann, sem yngra fólks. Ég trúi ekki öðru en bæjarbúar, margir hópar af unglingastigi grunnskólanna á Vesturlandi sem og aðrir áhugasamir um góð áhugaleikverk muni fjölmenna á sýningu nemenda Grundaskóla. Framundan er nokkuð stíft sýningarplan í nóvember og gera aðstandendur ráð fyrir því að söngleikinn sjái ekki færri en 3 þúsund manns. Enginn þeirra verður svikinn. Til hamingju Grundaskóli!

 

Magnús Magnússon.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is