Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. nóvember. 2005 12:24

Björgunarsveitarformaður fagnar umræðu um öryggi vegfarenda

Ásgeir Örn Kristinsson, bóndi á Leirá og formaður Björgunarfélags Akraness fagnar þeim viðræðum sem nú eiga sér stað milli lögreglunnar í Borgarnesi og Vegagerðarinnar um bætt öryggi vegfarenda sem leið eiga um þjóðvegi þegar veður breytist skyndilega til hins verra. Hann telur þó engar einfaldar lausnir á málinu og bendir á nauðsyn þess að ávallt séu til staðar vel búnar björgunarsveitir.

 

Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í síðustu viku fara um þessar mundir fram viðræður á milli lögreglunnar og Vegagerðarinnar í Borgarnesi um með hvaða hætti tryggja megi betur öryggi vegfarenda sem leið eiga um þjóðvegi þegar ofsaveður skellur á. Þessir aðilar hafa rætt málin um nokkurn tíma en sagt var frá hugmyndunum í kjölfar óhapps sem varð fyrir skömmu í Leirársveit þegar flutningabíll fauk ofan á fólksbíl og ökumaðurinn slapp á undraverðan hátt án skaða. Meðal hugmynda sem ræddar hafa verið er að fjölga upplýsingaskiltum og einnig hefur sú hugmynd verið rædd að setja upp lokunarbúnað á nokkra vegarkafla þar sem veður geta orðið verst eins og meðal annars undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

 

Ásgeir Örn segir umræðu þessa af hinu góða. Hann segir rétt að með bættum vegum og stækkun vinnustaða í Hvalfirði hafi umferð aukist mjög mikið og vanbúnum vegfarendum hafi í kjölfarið fjölgað. Þá hafi sú staðreynd að fólk viti að það geti nú látið vita af neyð sinni, með bættum fjarskiptum, valdið því að það leggi frekar af stað í tvísýnu. Hann telur því vel athugandi að settur verði upp lokunarbúnaður á ákveðna vegarkafla. “Með því er ég ekki að mæla með lokun vega, því það held ég að samfélagið þoli ekki, heldur sé ég með því möguleika á að fylgjast betur með umferð á þeim svæðum sem skyndilega hætta skapast á. Það gefur líka möguleika á því að snúa þeim við sem ekki eru búnir til ferðalaga,” segir Ásgeir.

 

Meðal þess sem rætt hefur verið er að með því að færa veginn í Leirársveit til megi komast hjá verstu veðrunum. Ásgeir Örn varar við svo mikilli einföldun. Með tilfærslu vegarins megi að einhverju leyti bæta ástandið en það hverfi ekki. Því verði áfram nauðsynlegt að hafa þá aðila sem koma að öryggismálum vel búna. Þar á hann við lögreglu, Vegagerð og ekki hvað síst björgunarsveitir. “Björgunarfélag Akraness er mjög vel búið til þess að bregðast við þegar svona hættuástand skapast. Hér var staðsett sérútbúin bifreið beinlínis vegna þess að hér í nágrenninu getur skapast slíkt hættuástand. Við verðum með góðu samstarfi allra aðila að tryggja að samgöngur geti gengið hér hnökralaust fyrir sig. Mannlíf og atvinnulíf hefur breyst það mikið á undanförnum árum að samgöngur verða að ganga sem best. Síðan megum við ekki gleyma einu atriði í þessari umræðu. Gestrisni á íslenskum sveitabæjum er ennþá hin sama og áður. Því er ekki úr vegi að fólk leiti þar aðstoðar frekar en að leggja í tvísýnu,” segir Ásgeir Örn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is