Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. nóvember. 2005 01:21

"Gef kost á mér til starfa á meðan ég tel mig hafa verk að vinna"

segir Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra sem varð sextugur í gær.

 

Í Skessuhorni í dag er ítarlegt viðtal við Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra sem hélt upp á 60 ára afmæli sitt um liðna helgi. Sjálfan afmælisdaginn dvaldi Sturla hinsvegar í Kína í opinberri heimsókn þar sem hann er m.a. viðstaddur ferðakaupstefnu. Í spjalli við Halldór Jónsson, blaðamann Skessuhorns, upplýsir Sturla m.a. að hann muni áfram gefa kost á sér til starfa á hinu pólitíska sviði meðan hann telji sig hafa verk að vinna.

Viðtalið við Sturlu er hér að neðan í heild sinni:

 

Saga stjórnmála er eðli málsins samkvæmt saga baráttu. Baráttu um hylli kjósenda sem velja þá stjórnmálastefnu sem þeim hugnast best og ekki síður val á þeim stjórnmálamönnum sem þeir treysta best til þess að koma hlutum til betri vegar. Baráttunni um hylli kjósenda fylgja sigrar. En þegar einn sigrar, bíður annar ósigur. Stjórnmálasaga okkar geymir nöfn margra sigurvegara. Þar eru sjálfstæðismenn í Reykjavík fyrirferðamiklir með sína áratuga stjórnarsetu á árum áður og einnig muna allir eftir áratuga samfelldri setu sósísalista við stjórnvölinn í Neskaupstað.

Vestur í Stykkishólmi hefur um langt árabil setið meirihluti undir forystu sjálfstæðismanna. Ekki hafa sigrar þeirra verið fyrirferðamiklir í stjórnmálaumræðu landsmanna. Kannski vegna þess að þar á bæ hafa menn einbeitt sér að því að láta verkin tala. Talið sviðsljós fjölmiðla óþarft.  Einn af þessum sigursælu sjálfstæðismönnum er Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra sem í dag fagnar sextugsafmæli sínu. Hann er 1. þingmaður hins víðfema Norðvesturkjördæmis. Á þessum tímamótum í lífi Sturlu var því ekki úr vegi að setjast niður með honum stund úr degi og ræða um þennan mann sem þekkir lítið annað en pólitíska sigra í kosningum en upplifði um tíma í starfi sínu meira mótlæti og mótbyr en flestir ráðherrar á seinni árum. Hann stóð þann mótbyr af sér og hefur sem stjórnmálamaður sjaldan staðið styrkari fótum en einmitt nú. En þrátt fyrir langa búsetu og störf í Stykkishólmi er hann ekki þaðan heldur er hann fæddur í Ólafsvík.

 

Af pólitísku heimili

 

„Já ég er fæddur í Ólafsvík og ólst því upp við sjávarsíðuna. Ég er hreinræktaður Snæfellingur og er stoltur af því. Móðir mín, Elínborg Ágústsdóttir, var frá Mávahlíð í Fróðárhreppi og faðir minn, Böðvar Bjarnason, var frá Böðvarsholti í Staðarsveit. Ég ólst því upp í sjávarþorpi. Faðir minn var byggingameistari og byggði sem slíkur margar byggingar og má þar nefna kirkjuna í Ólafsvík. Hann var í áratugi byggingafulltrúi í Ólafsvík og lengi í sveitarstjórn og móðir mín starfaði mjög mikið að félagsmálum. Ég er ekki frá því að ég hafi fengið félagsmálaáhugann að mestu leyti frá henni. Hún var ræðuskörungur og mjög viljug til verka í þágu samfélagsins“

En voru stjórnmál mikið rædd á heimilinu? “Já, báðir foreldrar mínir voru mjög pólitískir. Þau voru bæði sjálfstæðismenn, trúðu á frelsi einstaklingsins og snemma komst ég einnig á þá skoðun að best færi á því að einstaklingurinn fengi að njóta sín í samræmi við sjálfstæðisstefnuna. Á þeim árum sem ég er að alast upp í Ólafsvík voru þar mjög hatrömm pólitísk átök. Menn skiptust í fylkingar og sem dæmi má nefna voru rekin tvö kaupfélög sem áttu sína viðskiptavini. Flestir versluðu á þeim árum aðeins í öðru félaganna.”

 

Fjölskyldumaður

 

Þú lærðir smíðar hjá föður þínum. Sjórinn togar nú í marga sem alast upp við sjávarsíðuna. Þú hefur ekki átt þér þann draum að verða skipstjóri? “Nei, það kom nú ekki til þess af þeirri einföldu ástæðu að ég var alltaf svo sjóveikur. Ég prófaði að fara á sjó en það bara gekk ekki. Ég fylgdi föður mínum við smíðarnar og mömmu við búskapinn en þau áttu bæði kindur og kýr í þorpinu. Mitt fysta launaða starf var hins vegar í fiskvinnslu hjá Hróa hf. hjá heiðursmanninum Víglundi Jónssyni sem þar réði ríkjum. En svo fór að ég lærði húsasmíði hjá föður mínum og fór síðar í framhaldsnám í Tækniskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem byggingatæknifræðingur.“

Nú ert þú af svokallaðri 68 kynslóð. Sjálfstæðismenn áttu nú heldur í vök að verjast á þeim árum í skólakerfinu. Öll sú umræða sem fram fór á þeim árum hefur ekki breytt þínum skoðunum? “Nei hún gerði það ekki. Það er rétt að eins og í mörgum framhaldsskólum og háskólum á þessum árum voru sjálfstæðismennirnir í Tækniskólanum ekki áberandi. Í það minnsta ekki þeir sem gáfu upp stjórnmálaskoðanir sínar. Ég hef hins vegar sjaldnast látið stjórnast af umræðunni í kringum mig. Ég hef alla tíð verið frekar stefnufastur maður enda er það best fallið til þess að maður nái árangri.”

En það var fleira en stjórnmálaskoðanirnar sem þú gerðir öðruvísi en gert var á þeim árum. Þú stofnar ungur fjölskyldu á þeim tíma sem umræðan var nú frekar andsnúin hjónabandinu og auk þess eignist þið hjónin fljótt ykkar fyrstu börn. “Já, við Hallgerður stofnuðum ung fjölskyldu og eigum fimm börn. Ég var nú ekki að láta aðra hafa áhrif á mínar skoðanir á gildi fjölskyldulífs. Ég hef alla tíð talið mikilvægt að fjölskyldan haldi saman og tel það til kosta að eiga stóra fjölskyldu.”

 

Úr verkfræðinni í bæjarstjórann

 

Þú sagðir að foreldrar þínir hafi verið ákveðnir sjálfstæðismenn. Ekki verður það sagt um tengdaföður þinn Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli? “Nei enda höfðu menn á orði þegar við Hallgerður vorum að byrja að vera saman að Gunnar á Hjarðarfelli yrði nú fljótur að breyta skoðunum þessa unga sjálfstæðismanns. Hann var mjög ákveðinn framsóknarmaður og mikill baráttumaður fyrir Stéttarsamband bænda. Fyrst og síðast var hann hins vegar landsbyggðarmaður og vildi veg hennar sem mestan. Þar fóru skoðanir okkar algjörlega saman enda urðum við Gunnar miklir vinir og bárum virðingu fyrir skoðunum hvors annars.”

En hvernig kom það til að þú tæknifræðingurinn og Ólsarinn verður bæjarstjóri í Stykkishólmi. Nú hefur verið rígur á milli sveitarfélaga á Nesinu. Ekki hefur það verið sjálfsagt að sækja mann í Ólafsvík í þá stöðu? “Eins og ég áður sagði er ég Snæfellingur og á mikinn frændgarð á Nesinu. Hólmarar sóttu því Snæfelling til Reykjavíkur. Aðdragandinn að því að ég tók við starfi sveitarstjóra og síðar bæjarstjóra var nú sá að snemma árs 1974 hitti ég gamlan vin minn Ellert Kristinsson sem þá var nýfluttur aftur í Hólminn eftir viðskiptafræðinám. Við höfðum kynnst á vettvangi íþróttanna. Vorum saman í héraðsliði Snæfellinga í knattspyrnu. Ellert sagði mér frá því að í komandi kosningum þá um vorið myndu sjálfstæðismenn freista þess að ná hreinum meirihluta í Stykkishólmi. Hann sagði að ef það myndi takast yrði ég að flytja vestur aftur og taka að mér starf sveitarstjóra. Á þessum tíma var ég kominn í starf hjá Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen og líkaði það afskaplega vel. Það var því ekkert fararsnið á mér úr borginni en hafði hinsvegar alltaf ætlað mér að flytja aftur heim á Snæfellsnes. Ég hugsaði því ekki meira um þessi orð Ellerts. Nú, um vorið er kosið og sjálfstæðismenn og óháðir náðu hreinum meirihluta. Um sumarið, þar sem ég sit við borð mitt á verkfræðistofunni, er bankað á öxlina á mér. Þar var Ellert kominn við annan mann. Kominn í meirihluta og vantaði sveitarstjóra. Ég lét til leiðast og hóf störf og fjölskyldan flutti síðan vestur í upphafi árs 1975. Hallgerður stundaði þá nám við Menntaskólann í Hamrahlíð og stefndi að stúdentsprófi samhliða því að sinna börnunum okkar sem þá voru þrjú.”

 

Framkvæmdatímar

 

Þú tekur við starfi sveitarstjóra þegar hafið er eitt mesta uppbyggingarskeið landsbyggðarinnar. Það hlýtur að hafa verið gaman að stjórna sveitarfélagi á þessum árum sem í hönd fóru? “Já, en um leið mjög krefjandi. Við megum ekki gleyma því að á þessum tíma hafði landsbyggðin orðið mjög á eftir og mörg byggðarlög höfðu gengið í gegnum mjög erfiða og allt að því niðurlægjandi tíma verðbólgu og erfiðleika vinstri stjórnar. Það var margt sem gera þurfti. Í Stykkishólmi var margt sem betur mátti fara á þessum tíma og það var vissulega verk að vinna. Gatnakerfið var mjög bágborið eins og var víðast og fráveitukerfið lélegt. Vatn var af skornum skammti og sem dæmi má nefna að oft á tíðum voru bæjarbúar vatnslausir seinni hluta dags. Það ástand var auðvitað stórvandamál gagnvart vinnslustöðvum í sjávarútvegi. Skólahúsnæði var ófullnægjandi, engin viðunandi heilsugæsla, ekkert elliheimili, hótelbygging stóð fokheld og engin viðunandi félagsheimilisaðstaða. Þar voru því mörg verkefni sem biðu okkar og í þau fórum við. Eitt af því sem við urðum að gera var að forgangsraða og þar tókum við mjög erfiða ákvörðun. Við frestuðum skólabyggingu en sömdum um uppbyggingu hótelsins og byggðum félagsheimilið við hótelið á níu mánuðum. Um leið gerðum við samning um afnot skólans af hluta hótelsins og þar var hann til húsa um nokkurra ára skeið. Við stórbættum hafnaraðstöðuna, lukum við að leggja vatnsveituna og sköpuðum ný skilyrði fyrir skipasmíðastöðina með nýrri höfn og bættum upptökubúnaði. Við byggðum við sjúkrahúsið í samstarfi St.Fransickussystra og ríkisins. Meirihlutinn vann mjög vel saman og varð farsæll í sínum störfum. Samstaða var raunar innan sveitarstjórnar um öll mál. Íbúum Stykkishólms líkaði vel við störf okkar og við unnum hvern kosningasigurinn á fætur öðrum. Því er ekki að neita að stundum þótti andstæðingum okkar við fara full geyst og oft teflt á tæpasta vað. En við sáum að uppbyggingin var nauðsynleg og við tókum tillit til þess að breytingar voru í vændum um stuðning ríkisins við byggingu skóla, íþróttamannvirkja o.fl. og lögðum því mikið undir við að ná samningum sem voru hagstæðir sveitarfélaginu og nutum stuðnings og trausts viðskiptabanka bæjarfélgsins við það. Í þessu ati öllu lögðum við allt undir. Í kosningunum 1990 lögðum við verk okkar í dóm kjósenda eftir mikið framkvæmdatímabil þegar íþróttahúsið hafði verið byggt, íbúðir fyrir aldraða og fleira og fleira. Ég skipaði fyrsta sætið og Ellert Kristinsson var í fjórða sæti listans sem var baráttusætið en við vorum þeir einu sem höfðum starfað í bæjarmálunum allt frá 1974. Dæmið gekk upp og við unnum sigur. Hlutum 70% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa af sjö. Því verður ekki sagt annað en að íbúar hafi verið ánægðir með okkar störf og við vorum satt að segja klökk yfir þessum úrslitum. Þetta var dómur kjósenda yfir okkur sem stjórnuðum og þeim sem unnu undir okkar stjórn á vegum bæjarins.”

 

 

Studdum Friðjón persónulega

 

Þú varst bæjarstjóri í Stykkishólmi í 17 ár. Það er afar sjaldgæft að menn séu svo lengi við stjórnvölinn hjá sama sveitarfélaginu. Nú hljóta að hafa komið óskir um að þú tækir að þér störf í öðrum sveitarfélögum á þessum árum? “Ég ljáði aldrei máls á því. Það kom einfaldlega aldrei til greina af minni hálfu. Stykkishólmur var minn staður. Þar fékk ég mín tækifæri sem stjórnandi sveitarfélagsins einungis tuttugu og átta ára gamall og þar var verk að vinna. Þar leið fjölskyldunni afar vel og þar vildi ég starfa.” En síðar kom að því að þú tekur sæti á Alþingi. Það átti sér nokkurn aðdraganda? “Já ég tók fyrst sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi við þingkosningarnar 1983. Þá var ég í þriðja sæti og varð varaþingmaður. Í kosningunum árið 1987 var fast á mig sótt að ég tæki sæti ofar á listanum í svokallað öruggt sæti. Ég vildi það ekki. Mér fannst ég ennþá eiga margt ógert í Stykkishólmi og því gaf ég ekki færi á mér ofar á listann. Ýmsir góðir stuðningsmenn mínir gerðu athugasemdir við þessa afstöðu mína en því var ekki haggað af minni hálfu.” Nú var framboðið 1983 um margt sérstakt. Á listanum var Friðjón Þórðarson sem hafði verið ráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen í andstöðu við forystu flokksins. Þau ár sem Friðjón sat í ríkisstjórn hljóta að hafa verið erfið flokknum á Vesturlandi? “Já því er ekki að neita að þetta var mjög snúin staða. Gunnar Thoroddsen var þingmaður Snæfellinga á sínum tíma og naut bæði virðingar og trausts hér og átti marga vini hér innan flokksins. Það voru margir veikir fyrir því að styðja hann og um leið Friðjón við þessar aðstæður. Það var ákvörðun Friðjóns taka sæti í ríkisstjórn Gunnars. Við því var ekkert að gera. Fyrir þeirri ákvörðun hans lágu engar samþykktir flokksfélaga á Vesturlandi. Við hugsuðum því um að halda flokknum saman þessi ár. Beittum honum ekki gegn Friðjóni í kjördæminu enda hefði það engum tilgangi þjónað og hann lagði sig mjög fram um að halda sínu liði saman og við studdum hann persónulega í þessum ólgusjó.” Það hýtur að hafa verið þrýstingur í þá átt að Friðjón yrði ekki í framboði 1983? “Já því er ekki að neita. Ákveðið var að halda prófkjör og þar tókust menn á. Ég stefndi á þriðja sætið og lýsti yfir stuðningi við Friðjón í fyrsta sætið og við Valdimar Indriðason í annað sætið. Ég taldi það mundi verða farsælast fyrir flokkinn til lengri tíma að ná þannig saman liðinu að nýju. Þetta varð niðurstaðan og í kosningunum unnum við góðan sigur. Valdimar hafði mikið persónufylgi um allt kjördæmi og var mikill fengur að honum í þingmennsku fyrir kjördæmið með Friðjóni sem var hagvanur og naut stuðnings út fyrir raðir flokksins eftir að hafa gegnt ráðherradómi. Okkur tókst sem sagt að halda flokknum saman á Vesturlandi þrátt fyrir mikil átök og efla hann.”

 

Allir njóti sannmælis

 

En þú verður síðan 1. þingmaður Vesturlandskjördæmis eftir kosningarnar 1991? Já í sveitarstjórnarkosningunum árið 1990 fengum við sjálfstæðismenn yfir 70% fylgi í Stykkishólmi eins og framan er getið og þá fannst mér kominn tími til þess að skipta um stjórnmálavettvang. Í undirbúningi kosninganna 1991 sóttist ég eftir 1. sæti lista sjálfstæðismanna og náði því eftir kosningu meðal aðal- og varamanna í kjördæmisráði.”

Nú kemur þú inná þing sem afar reyndur og sigursæll sveitarstjórnarmaður. Sumum fannst þú þurfa að bíða lengi eftir áhrifum? “Já mörgum finnst þingmenn ekki hafa áhrif nema að þeir gegni starfi ráðherra. Þetta er mikill misskilningur. Í það minnsta í mínu tilfelli. Strax í upphafi þingferilsins varð ég talsmaður flokksins í fjárlaganefnd Alþingis, sem varaformaður nefndarinnar í rúm sjö ár. Því starfi fylgdu mikil áhrif á framgang ríkisfjármála. Mér tókst í það minnsta að hafa töluverð áhrif á þessum vettvangi. Mér var sagt að sumum samstarfsmanna minna í fjárlaganefndinni hafi þótt ég full áhrifamikill þannig að eitthvað hefur mér orðið ágegnt.”

Þar komum við að þeirri ímynd sem þú hefur skapað þér sem stjórnmálamaður. Nú verður seint sagt að þú sogist að sviðsljósunum. Mér virðist sem þú viljir helst vera án þeirra. Síðan eru aðrir sem hafa sagt í mín eyru að bak við þessa ímynd sé mikill málafylgjumaður og sumir nota orðið frekja. Er þetta rétt lýsing? “Það er ekki mitt að dæma um. Það er hinsvegar rétt sem þú nefnir að ég hef ekki sóst eftir athygli í mínum störfum. Ég hef hins vegar skýr markmið í mínum störfum og vinn fast að þeim málum. Ég hef alla tíð litið á það sem minn helsta styrk að eiga auðvelt með að vinna með fólki og laðað það besta fram úr hverjum samstarfsmanni. Til að slíkt megi takast verða eðlilega allir að njóta árangursins og athyglinnar fyrir vel unnin störf. Ég hef því lagt áherslu á að fólk njóti sannmælis fyrir þau störf sem hver og einn hefur unnið í stað þess að njóta allrar athyglinnar einn. Hins vegar verða stjórnmálamenn að koma því til kjósenda hvað unnist hefur og það verðum við að gera til þess að geta haldið störfum okkar áfram. Það kann að vera að ég komi ekki nægjanlega vel á framfæri því sem ég hef verið að gera á vettvangi stjórnmálanna.”

 

Erfið mál

 

Nú lentir þú í mjög erfiðum málum á fyrstu árum þínum sem ráðherra. Sem áhorfanda að þeirri atburðarrás hafði maður á tilfinningu að ekki væri allt með felldu við framgang fjölmiðla og andstöðuna við þig. Þeirri hugsun skaut upp hjá áhugamönnum í stjórnmálum að beinlínis væri skipulega verið að skaða þig sem stjórnmálamann? “Já það er rétt. Það var unnið skipulega gegn mér. Ég lenti í mjög miklum andróðri í nokkrum málum. Í fyrsta lagi var það hið hörmulega flugslys í Skerjafirði þar sem rannsókn málsins var mjög gagnrýnd. Ég lagði mikið á mig til þess að rannsókn málsins yrði í samræmi við lög og reglur. Fyrir það hlaut ég mjög óvægna gagnrýni í fjölmiðlum og það mál allt var keyrt áfram af fjölmiðlamönnum sem kynntu sér lítt málavexti. Annað mál var þegar trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar svipti flugstjóra hjá Flugleiðum réttindum sínum vegna veikinda flugstjórans. Í ljós kom að brotið hafði verið gróflega á réttindum flugstjórans og við það gat ég ekki sætt mig að bera ábyrgð á slíkum vinnubrögðum og tók á því eins og síðar kom í ljós að var í alla staði eðlilegt og rétt. Um það var fjallað af sérstakri nefnd sem rannsakaði meðferð málsins. Þriðja stóra málið var sala Símans. Forveri minn í stóli ráðherra hafði undirbúið breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins meðal annars með því að undirbúa ráðningu á nýjum forstjóra og við þá ákvörðun hans stóð ég og axlaði þá ábyrgð sem fylgdi því. Ætlunin var síðan sú að selja hlut ríkisins en af ýmsum ástæðum, sem of langt yrði að telja upp hér, tókst það ekki. Markaðsaðstæður réðu þar mestu en hrun varð á fjármálamörkuðum um það leiti sem salan átti að eiga sér stað. Sú ákvörðun að fresta sölunni var mér pólitískt mjög erfið, en nú er komið á daginn að sú ákvörðun var hárrétt. Þessi þrjú mál voru mjög fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og það verður að segjast eins og er að þar var gengið fram með mjög ósanngjörnum hætti. Það var afar sérstakt að upplifa þessa umræðu. Hún reyndi ekki síst mjög mikið á mína fjölskyldu. Á hverjum morgni í langan tíma þurfti fjölskyldan að hlusta á nýjar árásir á hendur mér. Ávirðingar sem voru ómálefnalegar og áttu sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Einu mistökin í Símamálinu svokallaða sem ég get fallist á að hafa gert er að hafa fallist á ráðningarsamning forstjórans sem var til sama tíma og forstöðumenn ríkisstofnana voru ráðnir til. Starfslok hans tóku mið af þessu. Þau væru ekki talin til tíðinda í dag miðað við þá samninga um kjör forstjóra fyrirtækja sem í dag gilda. Þannig orkar allt tvímælis þá gert er.”

Þessi mikla fjölmiðlaumræða og gagnrýni hafa verið mikil viðbrigði fyrir þig og þína? “Já þetta var óskaplega erfiður tími. Fjölskyldan stóð hins vegar mjög þétt saman og við náðum að komast í gegnum þennan ólgusjó og ég fann hversu mikilvægt það er að eiga sterkt bakland meðal flokksmanna sem voru á vaktinni og veittu mér öflugan stuðning. Vissa mín að rétt hefði verið staðið að málum í ráðuneytinu hélt mér við efnið í þessum málum.”

 

 

En nú var sótt að þér úr öllum áttum og ekki voru það bara pólitískir andstæðingar þínir sem þar voru á ferð? “Nei það voru líka nokkrir samflokksmenn mínir sem grétu þessa umræðu og aðför að mér þurrum tárum. En þannig er það stundum í stjórnmálunum. Lengi má mennina reyna. Sem betur fer naut ég stuðnings forystu flokksins og þingflokksins allan tímann sem þessi átök stóðu yfir. En þetta er liðinn tími sem er ekki að trufla mig í dag.

Niðurstaða rannsókna Skerjafjarðarmálsins liggur nú fyrir og flugstjórinn sem átti að svipta skírteini flýgur ennþá, enda heill heilsu. Það liggur fyrir að ég hef beitt mér fyrir miklum breytingum á flugöryggismálum í kjölfarið bæði varðandi löggjöf, skipulag flugslysarannsókna og framkvæmd Flugmálastjórnar. Þá blasir við að með samþykkt Alþingis á fjarskiptaáætlun og með breytingum á fjarskiptalögum lagði ég grunn að sölu Símans sem tókst svo vel og skapar okkur skilyrði til frekari uppbyggingar. Auðvitað má stöðugt bæta framkvæmd á vettvangi opinberrar stjórnsýslu og stjórnmálamenn verða að vera tilbúnir að taka gagnrýni og standa fyrir breytingum að undangenginni málefnalegri umræðu.

Niðurstaða þessara mála sýnir hversu mikilvægt það er að stjórnmálamenn íhugi mál vel, haldi ró sinni, vandi alla vinnu og haldi síðan sínu striki hvað sem tautar og raular í fjölmiðlum. Við megum ekki láta hrekja okkur af leið sem við höfum markað og erum samfærð um að er sú hin rétta.” Nú er niðurstaða þessara mála sem þú áðan nefndir ekki jafn fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og þegar ásakanir á hendur þér voru sem mestar? “Nei það er rétt. Af einhverjum ástæðum eru sumir fjölmiðlar ekki jafn áhugasamir um málin nú og þegar menn héldu að þeim væri að takast að ganga frá mínum pólitíska ferli. Það segir sína sögu.”

 

Ekki á útleið

 

Fyrir síðustu alþingiskosningar urðu breytingar á kjördæmaskipan landsins. Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra voru að mestu sameinuð í nýtt Norðvesturkjördæmi. Fyrir voru sex þingmenn Sjálfstæðisflokks og ljóst að aðeins var hægt að gera ráð fyrir þremur þingsætum til flokksins. Prófkjör var ákveðið og þegar til þess kom hafði verið sótt mjög að þér sem ráðherra. Þetta hlýtur að hafa verið mjög erfitt að leggja útí þennan slag við aðstæður sem þessar? “Já því er ekki að neita. Í þessu prófkjöri tókust á margir mjög hæfir menn sem hver og einn gerði tilkall til áframhaldandi setu á Alþingi. Þetta var erfiður slagur en bakland mitt í kjördæminu er mjög sterkt og mér tókst með vinnu stuðningsmanna að standast þessa áraun. Sigurinn í þessu prófkjöri var því mjög sætur og ekki síður sú staðreynd að niðurstaða kosninganna varð mjög góð í kjördæminu. Kosningarnar styrktu mig því mjög sem stjórnmálamann.”

Nú þykir ýmsum utan Vesturlands nóg um störf þín sem samgönguráðherra. Menn gantast með það að brátt geti varla verið eftir nein framkvæmd í samgöngumálum á Vesturlandi svo athafnasamur hafir þú verið í ráðherratíð þinni? “Ég skal fúslega játa það að á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í samgöngumálum í landinu og þá ekki síst á Vesturlandi og ég hef lagt grunninn að miklum samgöngubótum í Norðvesturkjördæmi. Við megum ekki gleyma því að framfarir hafa að sjálfsögðu orðið mestar þar sem mest þörf var á framkvæmdum. Því miður voru gríðarlega mörg verk óunnin á Vesturlandi og mörg þeirra hafa komist til framkvæmda á allra síðustu árum. Hins vegar hafa einnig orðið miklar framkvæmdir í öðrum kjördæmum. Það blasir við öllum. Í samgöngumálum er mjög mikilvægt að hafa skýra stefnu og vinna skipulega eftir henni. Ég hef lagt mig fram um að koma á fót langtíma áætlun í sem flestum þáttum samgangna. Þar má nefna samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, umferðaröryggisáætlun og stefnumörkun í ferðamálum. Þannig nýtast fjármunir best og þannig tryggjum við mestar framfarir. En þrátt fyrir að miklar framfarir hafi orðið á undanförnum árum eru mörg og stór verk óunnin ekki síst í Norðvesturkjördæmi. Að þeim málum get ég vonandi unnið áfram.”

Sturla Böðvarsson er því ekki að hætta afskiptum af stjórnmálum í bráð? “Eins og ég sagði áðan hef ég haft brennandi áhuga á stjórnmálum frá barnsaldri og sá áhugi fer síst minnkandi. Á meðan ég hef ánægju af starfinu gef ég kost á mér til verka í stjórnmálum.”

Þú munt því gefa kost á þér í næstu kosningum? “Já, ég tel mig hafa verk að vinna, en það er fólksins að velja frambjóðendur.”

 

Veldur hver á heldur

 

Aðeins að þínu stærsta pólitíska vígi, Stykkishólmi. Þar varð mikið áfall þegar hörpudiskveiðar lögðust af. Fyrirtæki styrktu sig í staðinn í rækjuveiðum sem nú hafa að mestu lagst af. Í lögum um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir að bæta slíkar skerðingar en þær bætur eru aðeins tímabundnar því löggjafinn virðist ekki hafa reiknað með að hrun í veiðum yrði nema um nokkurra ára skeið. Verður ekki að endurskoða þessi ákvæði í lögunum? “Þessi staða sem upp er komin meðal annars í Stykkishólmi er mjög sérstök. Ég minni á að þegar kvótakerfi var sett á voru bátar sem hófu skelveiðar og þróuðu þær að greiða fyrir að halda rétti til þeirra veiða með því að láta hluta þorskheimilda sinna. Við verðum að horfa til þeirrar staðreyndar þegar brugðist verður við þeim vanda sem nú er uppi í Stykkishólmi og fleiri stöðum. Við verðum að taka tillit til þessarar aðstæðna. Stykkishólmur er hins vegar mjög öflugt samfélag sem stendur á gömlum merg og íbúar þar munu eflaust takast á við þá erfiðleika sem að þeim steðja og vinna sig útúr þeim.Við þessar aðstæður skiptir svo miklu máli að innviðir samfélagsins hafi verið byggðir vel upp og þjónustan við bæjarbúa góð og hagkvæm. Þar gildir að veldur hver á heldur.”

 

Flokkur alla flokka

 

Þú nefndir hér áður það pólitíska umhverfi sem þú varst alinn upp í og mótaði þig að nokkru leyti sem stjórnmálamann. Foreldrar þínir alast upp í mjög ólíku umhverfi en þú þegar félagsleg réttindi voru af skornum skammti. Þegar stéttabaráttan stóð sem hæst hefur eflaust reynt á staðfestu sjálfstæðismanna. Þú hefur sjálfur aldrei efast um að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur allra stétta? “Nei það hef ég aldrei gert. Auk foreldra minna get ég nefnt tvo menn sem höfðu afgerandi áhrif á mig sem stjórnmálamann. Annar þeirra var Magnús Jónsson frá Mel. Hann var lengi fjármálaráðherra og var bankastjóri Búnaðarbankans þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem sveitarstjóri. Sem ráðherra hóf hann að setja reglur um opinber innkaup og hvernig standa ætti að framkvæmdum hjá hinu opinbera. Hann var öflugur sem ráðherra og hafði skýra sýn á málefni lands og þjóðar. Til hans sótti ég mikinn styrk og fróðleik í ýmsu er snéri að rekstri sveitarfélagsins og ekki síður á hinum flokkspólitíska vettvangi. Hinn maðurinn var frændi minn dr. Þórir Kr. Þórðarson prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. Hann var um tíma borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar Bjarni Benediktsson var borgarstjóri kallaði hann Þóri til ráðuneytis þegar hið umfangsmikla félagslega kerfi Reykjavíkurborgar var skipulagt að stærstum hluta og komið á. Þórir kom oft á heimili foreldra minna og hann hafði mikil áhrif á mig. Verk hans og samstarfsmanna hans í Reykjavíkurborg sönnuðu fyrir mér svo ekki varð um villst að Sjálfstæðiflokkurinn er flokkur allra stétta. Flokkur sem leggur höfuðáherslu á frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Jafnframt er það grundvallaratriði í starfi flokksins að tryggja ákveðið félagslegt öryggisnet fyrir borgarana. Starf flokksins hefur alla tíð mótast af þessum hugsjónum og tryggt hér góð lífskjör. Slíkur flokkur hlýtur að laða fjölda fólks til starfa og ég er einn þeirra sem finnst afar gefandi að fá tækifæri til þess að starfa undir hans merkjum.”

 

Stundum er það sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni og ekkert í lífinu sé tilviljun. Um það skal ekki felldur dómur hér. Sturla nefnir hér að framan Gunnar Thoroddsen, sem fyrst var kosinn á þing fyrir Snæfellinga. Sturla nefnir einnig að þegar hann kom til starfa í Stykkishólmi hafi eitt af mest aðkallandi verkefnum sveitarfélagsins verið að bæta vatnsveitu bæjarins. Þegar Elínborg Ágústsdóttir varð léttari 23. nóvember 1945 var einmitt áðurnefndur Gunnar Thoroddsen að leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast 500 þúsund króna lán sem Stykkishólmshreppur vildi taka vil vatnsveituframkvæmda.

Um tíma voru margir á því að pólitískum ferli Sturlu Böðvarssonar væri að ljúka. Að honum var sótt úr öllum áttum. Líka úr Sjálfstæðisflokknum. Trúlega mun dómur sögunnar sýna að þar hafi ýmis öfl, þar á meðal fjölmiðlar, farið offari. Sturla hafði ekki vanist miklu mótlæti í sínum störfum. Maðurinn sem hafði látið verkin tala í Stykkishólmi var allt í einu orðinn á allra vörum og flestir höfðu á honum og verkum hans skoðun. Það eru ekki margir sem halda ró sinni í slíkum atgangi. En orrahríðinni lauk og eftir stendur án efa sterkari stjórnmálamaður. Án efa gleðjast margir unnendur bættra samgangna því að hann er enn að störfum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is