Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. nóvember. 2005 03:34

Búskapur og velferð á Vesturlandi

Fimmtudaginn 17. nóvember sl. var haldin fjölmenn ráðstefna á Hvanneyri um landbúnað undir heitinu: “Búskapur og velferð á Vesturlandi.” Það voru Búnaðarsamtök Vesturlands og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sem stóðu að ráðstefnunni sem m.a. er haldin í tilefni þess að Búnaðarsamtökin eru 20 ára um þessar mundir. Helga Halldórsdóttir, formaður stjórnar SSV sagðist í samtali við Skessuhorn vonast til að ráðstefnan markaði ákveðið upphaf að nánara samtarfi BV og SSV, enda margt sem þessi félög eiga sameiginlegt svo sem í ráðgjafarþjónustu fyrir bændur, ferðaþjónustuaðila og almennt fyrir atvinnulífið á Vesturlandi.

 

Mörg áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni um stöðu búgreina í landshlutanum, afkomu bænda, einstakra búgreina og hlunnindi á bújörðum. Þá kynntu fjórar bankastofnanir starfsemi sína, einkum er snýr að lánveitingum til bænda. En eins og kunnugt er var Lánasjóður landbúnaðarins seldur hæstbjóðanda fyrir skömmu og er ljóst að samkeppni lánastofnana hefur í kjölfarið aukist mjög um lánafyrirgreiðslu til stéttarinnar. Veðrými landeigenda hefur einnig hækkað til muna samhliða hækkandi jarðaverði og því eru lánastofnanir viljugri en áður að leggja fé inn í greinina.

 

Stofnun í mótun

 

Í upphafi ráðstefnunnar kynnti Ágúst Sigurðsson, rektor LBHÍ starfsemi stofnunarinnar sem varð til um síðustu áramót með sameiningu skóla og stofnana á landbúnaðarsviði. Landbúnaðarháskóli Ísland er stofnun sem er í mikilli þróun en meginviðfangsefni hans eru rannsóknir, kennsla og endurmenntun. Búnaðarfræðsla tekur breytingum og skilgreining orðsins landbúnaðar væri víðari en fyrr. Rannsóknir í starfsemi LBHÍ vega um 60% og kennsla 40%. Markmið LBHÍ er að auka menntunarstigið í landbúnaði með því að efla kennslu og rannsóknir, hafa stöðugt allt nám í endurskoðun, fjölga nemendum og efla mannauð auk þess að byggja upp hentuga aðstöðu fyrir starfsemina. Á næsta ári er útlit fyrir að skólinn útskrifi 120 nemendur og sagði Ágúst það ljóst vera að huga þurfi að uppbygginu hentugs húsnæðis sem rúmaði t.d. útskriftarathafnir og aðra fjölmenna mannfagnaði. Sagði hann að í framtíðinni væri stefnt að því að um 500 nemendur geti stundað þar nám samtímis og þýðir það verulegan vöxt LBHÍ.

 

Snæfellingar framar öðrum

 

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ flutti áhugavert erindi um stöðu búgreina á Vesturlandi og lagði út frá spurningunni “Hvar stendur landbúnaður á Vesturlandin í samanburði við aðra landshluta?” Sagði hún að dregið hefði úr framleiðslu á Vesturlandi miðað við aðra landshluta þegar miðað er við greiðslur búnaðargjalds, en þær voru 10,7% af heildargreiðslum á landinu árið 2004 en voru 11,6% árið 1998. Á Vesturlandi er framleitt 12,57% af greiðslumarki í mjólk og hefur það minnkað frá því að vera 13,4% árið 1998. Einnig hefur hlutur landshlutans í greiðslumarki í sauðfé farið úr 15,45% í 14,62% á sama tíma. 16% fækkun hefur orðið á þessum árum á þeim búum á Vesturlandi sem færa búreikninga. Sagði Erna að miðað við niðurstöður búreikninga væru bændur á Snæfellsnesi að skila mestum afurðum bæði í mjólk og kindakjöti miðað við skýrsluhald en búpeningur Snæfellinga skilar töluvert meiri afurðum og frjósemi er búpeningur Borgfirðinga og Dalamanna.

 

Sumarhúsa- og veiðitekjur

 

Erna kom inn á þá gríðarlegu aukningu sem orðið hefur í fjölda sumarbústaða á Vesturlandi frá því árið 1998 þegar þeir voru 1955 talsins, en þann 8. nóvember sl. voru þeir orðnir 2782 samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins. Þannig hefur aukningin á þessu tímabili verið yfir 42%. Bændur eru í mörgum tilfellum eigendur lands sem nýtt er fyrir sumarhúsabyggðir og þannig eru tekjur af landi og ýmsum hlunnindum að aukast og leysa að einhverju leyti af hólmi tekjur af hefðbundnum búgreinum sem vega nú minna sem hlutfall af landsframleiðslu. Erna benti á mikilvægi veiðitekna á Vesturlandi þar sem landshlutinn hefur algjöra sérstöðu á því sviði enda var 46% af veiði ársins 2004 á Vesturlandi. Þannig skilar veiðin hvorki meira né minna en 44% af hlutfalli hagnaðar af atvinnutekjum í landbúnaði í landshlutanum.

 

Hækkandi jarðaverð getur verið ógnun

 

Að endingu fór Erna yfir nokkur sóknarfæri sem hún telur að bændur á Vesturlandi gætu fært sér í nyt. Taldi hún fyrst að nálægð landshlutans við stærsta markaðinn væri tvímælalaust sóknarfæri sem og landfræðileg nálægð við Landbúnaðarháskólann þar sem saman væri komin mesta þekking á einum stað á sviði landbúnaðar. Þá taldi hún Vesturland standa framar flestum öðrum landssvæðum m.t.t. ferðaþjónustu og fæli það m.a. í sér tækifæri í nýtingu hlunninda svo sem skotveiði. Að endingu nefndi hún hækkandi landverð og varpaði fram þeirri spurningu hvort það væri til góðs eða ills fyrir landbúnaðinn í ljósi þess að landbúnaður þurfi fyrir bragðið að skila aukinni arðsemi til að keppa við þá sem kaupa land háu verði og nýta til annars – eða nýta það alls ekki.

Jónas Bjarnason, forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins fór yfir afkomu bænda á Vesturlandi í samanburði við önnur landssvæði. Kom m.a. fram hjá honum að kúm hafi fjölgað um 52% á sérhæfðum kúabúum í landshlutanum og innleggt þeirra aukist um 101% frá árinu 1996. Búum hefur fækkað og þau stækkað á umliðnum árum sem leitt hefur til hagræðingar og hækkunar t.d. á launagreiðslugetu á þeim búum sem eftir eru. Tekjur eftir hverja mjólkurkú á Vesturlandi voru 364 þúsund krónur árið 2004 en þar höfðu Sunnlendingar vinninginn þar sem tekjur voru 415 þús. eftir hverja kú. Tekjur eftir vetrarfóðraða kind voru að meðaltali 11.518 krónur á Vesturlandi á liðnu ári en Vestfirðingar höfðu mestar tekjur eða 12.455 krónur. Sauðfé hefur fjölgað um 38% á sérhæfðum sauðfjárbúum frá árinu 1996 og innlegg frá þeim aukist um 44%.

 

Batnandi tímar m.a. samhliða hagræðingu

 

Meðal annarra erinda sem flutt voru á ráðstefnunni má nefna erindi Sigríðar Jóhannesdóttur þar sem hún fjallaði um aukna nýtingu landeigenda af skotveiðihlunnindum, nýtt félag sem stofnað hefur verið og mun m.a. kortleggja hlunnindi. Jón Gíslason, bóndi á Lundi fjallaði um stöðu kúabænda í samfélaginu, ímynd greinarinnar og nauðsyn þess að búin geti stækkað til að auka hagkvæmni og bætt rekstrarskilyrði kúabænda. Sambærilegar upplýsingar gaf Ásmundur Daðason en hann greindi frá hagræðingu á Lambeyrarbúinu m.a. með breyttu gjafafyrirkomulagi, nýrri girðingartækni og fleiru. Bernharð Þór Bernharðsson, deildarstjóri við Viðskiptaháskólann flutti erindi sem hann nefndi “Innlend eða erlend fjármögnun”.

Ráðstefnan í heild undirstrikaði það að landbúnaður á Vesturlandi er í mikilli þróun og margvíslegar breytingar hafa átt sér stað, margar til góðs. Búum hefur fækkað en þau stækkað og hagur kúabænda sérstaklega hefur vænkast. Batnandi tímar eru einnig í sjónmáli hjá sauðfjárbændum en í þeirri grein er einkennandi að bændur þurfa sértekjur af öðru en eingöngu sauðfjárrækt. Vega tekjur af ýmsum hlunnindum, af ferðaþjónustu eða störfum á hinum almenna vinnumarkaði þar stórt og eiga batnandi samgöngur stærstan þátt í að menn geta með auðveldari hætti en áður sótt viðbótar atvinnutekjur lengra en áður var gerlegt.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is