27. nóvember. 2005 03:37
Skuldir bænda hafa aukist meira en tekjur. Ástæðan er fyrst og fremst kaup á kvóta og tækjum. Samkvæmt skýrslu Hagþjónustu landbúnaðarins voru búgreinatekjur meðalbús í fyrra 10,8 miljónir króna, en árið á undan rétt um 10 miljónir. Hér er átt við hefðbundnar búgreinar, það er sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Afkoman í fyrra, fyrir launagreiðslur var svipuð eða 1,6 miljónir króna.
Eignir búanna jukust á síðasta ári um liðlega 7%, voru um áramótin 18,6 miljónir en voru ári áður 17,3 millónir. Skuldirnar jukust líka og bókhaldslega séð var eiginfjárstaðan orðin neikvæð um síðustu áramót. Meðalbúið skuldaði þá um 19 miljónir en árið á undan skuldaði meðalbúið 17,2 miljónir.
Sérfræðingur í bókhaldi bænda segir að afkoma mjólkurframleiðenda hafi almennt verið betri en hjá sauðfjárbændum. Búast megi við að afkoman á þessu ári verði betri í sauðfjárræktinni en í fyrra, þrátt fyrir að sumarið hafi ekki verið gott til heyskapar.