Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. janúar. 2006 11:04

Hugnast skuggagjaldaleið um Sundabraut og Hvalfjörð

Hafnarstjóri Faxaflóahafna sem jafnframt er formaður stjórnar Spalar ehf., telur vænlegast, verði greitt fyrir notkun Sundabrautar og hugsanlega stækkun Hvalfjarðarganga, að farin verði svokölluð skuggagjaldsleið. Hann segir hafnarstjórn Faxaflóahafna vilja ýta málinu áfram en með því sé stjórnin ekki að taka afstöðu með hvaða hætti ríkisvaldið stendur að framkvæmdunum. Hugnist fyrirtækjunum ekki hugmyndir að fjármögnun framkvæmdanna verði ekki af þátttöku þeirra.

Á fundi hafnarstjórnar Faxaflóahafna á dögunum var lýst yfir vilja til þess að stuðla að framgangi gerðar Sundabrautar og breikkun Hvalfjarðarganga. Lýsti stjórnin sig reiðubúna til viðræðna við fulltrúa ríkisins um leiðir til að fjármagna umræddar framkvæmdir. Var formanni stjórnarinnar og hafnarstjóra falið að koma þessum sjónarmiðum á framfæri og óska jafnframt eftir viðræðum við stjórnvöld um framhald málsins.

 

Reiknað með Sundabraut

Allt frá því að ríkisstjórnin ákvað að verja hluta af söluandvirði Símans til lagningar Sundabrautar og að hluti hennar verði í einkaframkvæmd hafa nokkrar umræður farið fram um hugsanlega gjaldtöku af umferð um brautina. Einnig hefur verið bent á nauðsyn þess að breikka Hvalfjarðargöng. Ekki er ofmælt þegar sagt er að töluverð andstaða sé á Vesturlandi við frekari gjaldtöku af umferðarmannvirkjum að höfuðborginni.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna er jafnframt stjórnarformaður Spalar ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Um ástæður þess að hafnarstjórn lýsir yfir vilja til þess að koma að fjármögnun framkvæmdanna segir Gísli að ein meginforsendan fyrir stofnun Faxflóahafna sf. hafi verið sú að stuðla að skynsamlegri nýtingu lands og mannvirkja á grundvelli þess að höfuðborgarsvæðið og byggðin norðan Hvalfjarðar sé orðin eitt atvinnusvæði. “Faxaflóahafnir sf. hafa af því beina og ríka hagsmuni að þannig sé haldið á framkvæmdum við Sundabraut að megin markmið eigenda fyrirtækisins verði að veruleika innan skynsamlegs tíma.” Í þessu sambandi nefnir hann að ýmsar breytingar á starfsemi fyrirtækja og skipulagsbreytingar innan höfuðborgarsvæðisins séu beinlínis grundvallaðar á þeirri forsendu að Sundabraut verði að veruleika sem fyrst.

 

Þarf að auka afkastagetu

“Hvað Spöl ehf. varðar þá eykst umferð um göngin jafnt og þétt. Af hálfu Spalar ehf. væri það ábyrgðarhluti ef ekki væri bent á nauðsyn þess að auka afkastagetu ganganna innan nokkurra ára. Óbreytt göng geta vissulega þjónað sínu hlutverki um einhvern tíma en hætt er við að vegfarendur verði ekki ánægðir ef aukin umferð verður til þess að lengja ferðatíma verulega.” Gísli bendir á að út frá öryggissjónarmiðum þurfi að grípa til aðgerða þegar umferðin er komin vel yfir 5.000 bíla að meðaltali á sólarhring en á síðasta rekstrarári hafi meðalumferð verið 4.460 bílar á sólarhring.

“Samþykkt stjórnar Faxaflóahafna sf. er fyrst og fremst gerð til þess að koma koma málinu á hreyfingu en í því felst engin afstaða til þess hvernig ríkið vill standa að framkvæmdum, sé vilji til þess að beita að hluta til aðferðum einkaframkvæmdar. Í þessu efni eru fleiri en ein leið fær og því nauðsynlegt að skoða hvort aðilar geti átt þá samleið sem tryggir framgang Sundabrautar og stækkun Hvalfjarðarganga. Hagsmunir eigenda Faxaflóhafna sf. eru þeir að framkvæmdirnar skili sem fyrst tilætluðum jákvæðum áhrifum og að samræmis verði gætt í samanburði við önnur stórverkefni.”

 

Faxaflóahöfnum náskylt

Aðspurður hvort það samræmist hlutverki Faxaflóahafna að taka þátt í framkvæmdum sem þessum segir hann að í viljayfirlýsingu við stofnun Faxaflóhafna sf. hafi þess sérstaklega verið getið að sameiningu hafna væri ætlað að stuðla að lagningu Sundabrautar. “Faxaflóahafnir hafa annars vegar beina hagsmuni af lagningu Sundabrautar og það sama á við um þau sveitarfélög sem eru eigendur fyrirtækisins. Þá eru Faxaflóahafnir sf. einnig stór eigandi í Speli ehf. ásamt ríkinu þannig að málið er Faxaflóahöfnum sf. náskylt,” segir Gísli.

 

Gjaldtaka skekkir samkeppnisstöðu

En getur þessi áhugi fyrirtækjanna ýtt undir að framkvæmdirnar verði í einkaframkvæmd og þar með skattlagðar í næstu 30 ár eins og forsætisráðherra nefndi á þingi skömmu fyrir jól? Gísli segir að ef farið verður á annað borð í eitthvert form einkaframkvæmdar við Sundabraut verði að koma í ljós með hvaða hætti ríkið vill standa að slíku. “Ef hugmyndir um fjáröflun í því sambandi eru ekki að skapi eigenda Faxaflóahafna sf. eða stjórnar fyrirtækisins þá verður væntanlega ekki af þátttöku í verkefninu. Verði niðurstaðan hins vegar jákvæð og til augljósra hagsbóta fyrir alla þá eru meiri líkur til þess að áhugi Faxaflóahafna sf. verði hvati til að flýta verkefninu.”

Gísli segir fyrirtækin ekki hafa mótað formlega stefnu hvaða fjármögnunarleiðir og innheimtuleiðir þau telji best að fara og því geti hann ekki svarað því hvaða leið þau telji best í því sambandi. “Mín skoðun er hins vegar  sú að hafa verði ýmislegt í huga hvað þetta mál varðar. Í fyrsta lagi eru Hvalfjarðargögn eina vegamannvirkið þar sem lagður er sérstakur tollur á vegfarendur. Gjaldtaka þekktist að vísu með ferjunum t.d. Herjólfi, Baldri og Akraborg í gamla daga; en þá spöruðu menn akstur á móti. Gjaldtöku á vegamannvirki verður því að mínu mati að skoða í öðru ljósi. Þegar farið var af stað með Hvalfjarðargöng þá var gjaldtökuhugmyndin sett fram til að leysa verkefnið. Á þeim tíma ætlaði ríkið ekki í þær framkvæmdir. Tæknilega var það áhættusamt og fjárhagslega einnig. Nú liggja allar forsendur tæknilega og fjárhagslega fyrir varðandi göng um Hvalfjörðinn þannig að þessi sjónarmið eru ekki lengur fyrir hendi. Þar að auki er ljóst að almenn gjaldtaka á mannvirki á Vesturlandsvegi en ekki aðra vegi samrýmist ekki almennri jafnræðisreglu og mun augljóslega skekkja samkeppnisstöðu og búsetuskilyrði á Vesturlandi miðað við önnur landssvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.”

 

Unnið hratt á næstunni

Gísli segir það sína persónulegu skoðun að ef ríkið sé reiðubúið að fara í framkvæmdir við stækkun Hvalfjarðarganga og fjármögnun á hluta Sundabrautar þá sé álitlegast að beita svokölluðu skuggagjaldi þar sem ríkið greiðir framkvæmdaaðilanum í takt við þá umferð sem um vegina fer. Hann segir samgönguráðherra hafa tekið undir þessi sjónarmið. Ráðherra vonist einnig eftir greiðum framgangi framkvæmda við Sundabraut og stækkun Hvalfjarðarganga. “Það er því ástæða til ákveðinnar bjartsýni um að unnið verði að þessum málum af einurð og kappi á næstunni,” segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna og stjórnarformaður Spalar ehf.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is