Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Þórsdagur í Haustmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
17. janúar. 2006 07:29

Afar vel heppnað íbúaþing sunnan Skarðsheiðar

Íbúar fjögurra sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar, sem sameinast í vor, komu saman á íbúaþingi á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd á laugardag þar sem rædd var sýn þeirra á framtíðina. Íbúaþingið var undir yfirskriftinni – Framtíð í þínum höndum, hvert skal stefna-. Óhætt er að segja að íbúar hins nýja sveitarfélags séu áhugasamir um framtíðina því um 90 manns tóku þátt í þinghaldinu. Ekki er loku fyrir það skotið að þarna sé um hlutfallslegt met að ræða í fjölda því íbúar væntanlegs sveitarfélags eru rúmlega 600.

 

Það var fyrirtækið Stjórnsýsluráðgjöf ehf sem sá um undirbúning og framkvæmd þessa íbúaþings, en fyrirtækið sérhæfir sig í ráðgjöf fyrir sveitarfélög, opinberar stofnanir og alþjóðastofnanir.  Á íbúaþinginu störfuðu þrír vinnuhópar þar sem tekin voru fyrir ákveðnir málaflokkar. Að loknum störfum vinnuhópa var kynnt samantekt af umræðum en í gærkvöldi voru helstu niðurstöður þingsins kynntar íbúum. Vinna þingsins mun síðan nýtast núverandi sveitarstjórnum og fyrstu sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags.

Hér að neðan verður greint frá helstu umræðum í vinnuhópum þingsins. Þessi samantekt er alls ekki tæmandi, heldur bregður aðeins ljósi á þau fjölmörgu viðfangsefni sem komu til umræðu.

 

Skólamál

 

Rætt var um ástand núverandi skólahúsnæðis í Heiðarskóla. Í máli fólks kom fram að húsnæðið sé orðið mjög viðhaldsfrekt og þröngt sé bæði um nemendur og starfsfólk. Lítil sem engin aðstaða sé fyrir tómstundir, tónlistarnám, íþróttir eða aðra sérhæfingu. Þá kom fram að ekkert aðgengi er fyrir fatlaða. Vilji kom fram um að byggja nýjan skóla með myndarlegum hætti. Í því sambandi var nefnt að hægt væri að nýta núverandi skóla fyrir félagsstarf, tónlistarkennslu og fleira óháð því hvar nýr skóli risi af grunni.

Flestir sem ræddu skólamálin voru sammála um að “sveitaskólastefnan,” sem einkennir Heiðarskóla, væri að virka mjög vel og henni þyrfti að viðhalda áfram. Rætt var um að nýtt sveitarfélag þyrfti að móta heildstæða skólastefnu frá leikskóla og upp úr. Þar yrði tekið mið af aðstæðum og búsetuformi í sveitarfélaginu.

Staðsetning skóla var mjög fyrirferðarmikil í umræðu skólahópsins. Kynntar voru fjórar leiðir til umræðu í upphafi. Í fyrsta lagi að byggja við hlið núverandi skóla. Í öðru lagi að byggja nýjan í Melahverfi. Í þriðja lagi að byggja nýjan skóla í Krosslandi og í fjórða lagi að semja við Akraneskaupstað um kennslu. Flestir sem tóku þátt í umræðunni mæltu með því að nýr skóli yrði byggður í Melahverfi t.d. við hlið núverandi leikskóla. Einnig mætti nýta húsnæðið undir aðra starfsemi eins og stjórnsýslu, tónlistarskóla og félagsstarf aldraðra. Einnig komu fram raddir um nýja skólabyggingu að Leirá og eldra skólahúsnæði yrði nýtt til tónlistarkennslu og aðra starfsemi sveitarfélagsins. Einnig mæltu nokkrir með byggingu skóla í Krosslandi því þá væri styttra í ýmsa þjónustu sem nú væri sótt í dag á Akranes eins og tónlistarskóla og íþróttastarf.

Flestir töldu að ekki kæmi til greina að semja við Akranes um skólahald. Skólastarf væri hjarta hvers sveitarfélags og án skóla væri alveg eins hægt að leggja sveitarfélagið niður og sameinast öðrum.

 

Skipulags-, samgöngu- og umhverfismál

 

Í þessum hópi kom hugsanleg uppbygging og staðsetning nýs skóla einnig til umræðu og var umræðan keimlík þeirri sem fram fór í hópnum sem ræddi skólamál. Nokkrar umræður sköpuðust um fyrirhugaða uppbygginu íbúðarhúsnæðis í Krosslandi. Raddir komu fram um að ef byggð þar yrði vinsæl myndi íbúafjöldi þar vaxa hratt og á skömmum tíma gætu íbúar þar orðið ráðandi afl í hinu nýja sveitarfélagi. Bent var á að tilkoma Sundabrautar gæti hraðað mjög uppbyggingu þar. Nefnt var hvort ekki væri eðlilegra að Krosslandið sameinaðist Akranesi vegna nálægðar áður en íbúar hverfisins drægju sveitarfélagið í heild inn í sameiningu við Akranes.
Fram kom vilji til þess að unnið verði að umhverfismálum í samræmi við Staðardagskrá 21. Einnig kom fram að ekki sé æskilegt að byggja á bökkum laxveiðiáa af verndunarsjónarmiðum og að slíkt hefti aðgang almennings að árbökkum og vötnum.

Fram kom að bæta þurfi netsamband í sveitarfélaginu og ekki sé óeðlilegt að sveitarfélagið komi að því máli. Malarvegir í sveitarfélaginu voru íbúum ekki að skapi. Þrýsta þyrfti á átak í malbikun vega ásamt fleiri samgöngubótum. Fram kom sú hugmynd að boða til sérstaks íbúaþings um samgöngumál.

Skipulögð hefur verið sumarhúsabyggð meðfram nánast allri strandlengju hins nýja sveitarfélags. Þróun slíkrar byggðar var nokkuð til umræðu til dæmis hvort slík byggð þróist yfir í heilsársbúsetu. Þjónusta við íbúa þessara húsa var mjög til umræðu og hvort tekjur af fasteignagjöldum og tekjur af búsetunni standi undir henni.

Þá var einnig rædd nauðsyn þess að þriggja fasa rafmagn bjóðist í öllu sveitarfélaginu af öryggisástæðum og eins til að tryggja skilyrði smáiðnaðar.

 

Atvinnumál og stjórnsýsla

 

Í umræðum um atvinnumál kom fram að fjölga þurfi hefðbundnum kvennastörfum í sveitarfélaginu. Rætt var hvort hægt væri að bæta samgöngur við Reykjavík með strætó úr Hvalfirði í veg fyrir ferðir strætó um göngin í dag. Hafnarsvæðið við Grundartanga er talið geta orðið mjög mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu. Þar séu til dæmis möguleikar á kvennastörfum í umsýslu. Þær raddir heyrðust að störfum gæti fjölgað um hundruðir við hafnarsvæðið. Þrengsl í Reykjavík og sameining hafna á svæðinu við stofnun Faxaflóahafna þrýstu á fyrirtæki til að breyta staðsetningu sinni. Því væri nauðsynlegt að hafa tilbúið skipulag þannig að hægt væri að taka á móti fyrirtækjum sem flytja vildu starfsemi sína.

Einnig kom fram að þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu við Grundartanga mætti ekki gleyma landbúnaði. Mikil aukning hefði að undanförnu verið í mjólkur- og kjötframleiðslu. Fyrirsjáanleg væri stækkun eininga en slíkt gæti kallað á fækkun starfa. Á það var bent að í sveitarfélaginu væri nú framleitt meira af mjólk og kjöti en fyrir 15 árum.

Frekari uppbygging ferðaþjónustunnar var fólki hugleikin. Þrátt fyrir nábýli við stóriðju væru ótal tækifæri. Mikil saga væri í Hvalfirði sem hægt væri að byggja ferðamennsku á.

Staðsetning stjórnsýslu er fyrirferðamikil í þeim sveitarfélögum sem sameinast hafa á Íslandi á undanförnum árum. Slík umræða kom einnig upp á Hlöðum. Margir töldu að hún ætti að vera miðsvæðis og nefndu Hagamel í því sambandi. Aðrir töldu rétt að nota þær fasteignir sem til staðar væru í dag svo sem félagsheimilin. Einnig var rætt hvort rétt væri að stjórnsýslan þyrfti að vera á sama stað og önnur starfsemi sveitarfélagsins svo sem grunnskólinn. Margir voru því sjónarmiði sammála.

Þá kom fjöldi starfsmanna hins nýja sveitarfélags til tals á þinginu. Flestir töldu nauðsynlegt að ráðinn yrði sveitarstjóri og margir voru á því að ráða þyrfti tvo til þrjá aðra starfsmenn. Þá voru einnig ræddir möguleikar á aðkeyptri þjónustu og í því sambandi nefnd þjónusta í kringum skólastarfið og félagsþjónustuna.

Ekki eru komin nein framboð við sveitarstjórnarkosningarnar í vor í hinu nýja sveitarfélagi. Þau sem hyggja á framboð fengu þó skilaboð af íbúaþinginu í þá veru að þeir yrðu að hafa skýra stefnu í mikilvægustu málum þannig að íbúar hefðu skýra valkosti.

Eins og áður sagði er þessi samantekt alls ekki tæmandi lýsing á þeirri miklu og frjóu umræðu sem fram fór á Hlöðum. Umræðan og góð mæting á þingið bendir þó óneitanlega til þess að í nýju sveitarfélagi búi mikill styrkur sem íbúar ætli sér að virkja í framtíðinni.

HJ

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is