Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Þórsdagur í Haustmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. janúar. 2006 08:55

Tilboð um bankaviðskipti bæjarstarfsmanna vekja spurningar

KB-banki, Íslandsbanki og bæjarfulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn Akraness hafa óskað eftir skýringum frá Akraneskaupstað vegna dreifibréfs frá Landsbanka Íslands sem sent var öllum starfsmönnum sveitarfélagsins að frumkvæði þess í upphafi ársins. Þar er starfsmönnum boðið að bankinn geri sérstaklega vel við starfsmenn sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúi minnihlutans telur hugsanlegt að upplýsingar sem gefnar hafa verið Landsbankanum brjóti gegn ákvæðum laga um persónuvernd. Bæjarstjóri segir að aldrei megi taka frumkvæði af starfsmönnum bæjarins en telur rétt að skerpa á reglum um innkaup.

 

Þegar starfsmenn Akraneskaupstaðar fengu launaseðla sína senda í pósti í upphafi árs var auk launaseðilsins kort frá Landsbanka Íslands á Akranesi. Í kortinu sem undirritað er af Sturlaugi Sturlaugssyni útibússtjóra, fyrir hönd starfsfólks Landsbankans á Akranesi, segir orðrétt: “Á grundvelli þess að Landsbankinn á Akranesi hefur um árabil verið viðskiptabanki Akraneskaupstaðar mun Landsbankinn, að frumkvæði Akraneskaupstaðar, nú markvisst leitast við að gera sérstaklega við starfsmenn bæjarins í öllum þeirra bankaviðskiptum og kjörum.” Þá segir í bréfinu að í upphafi árs muni Landsbankinn hafa samband við starfsmenn sveitarfélagsins og bjóða þeim fund hjá ráðgjafa þar sem farið verði yfir mál hvers og eins.

Á fundi bæjarráðs Akraness í síðustu viku var lagt fram bréf frá útibússtjóra KB banka á Akranesi. Í fyrirsögn bréfsins er spurt hvort eðlileg vinnubrögð séu á samkeppnismarkaði. Ljóst er að útibússtjóranum er ekki skemmt. Kemur fram að með dreifibréfi Landsbankans sé öllum starfsmönnum bæjarins beint að einni bankastofnun í bænum en ekki óskað tilboða frá öðrum bönkum. Með því sé verið að hygla einu fyrirtæki. Óskað er eftir skýringum á þessari afgreiðslu mála, eins og segir í bréfinu. Þá bendir útibússtjórinn á að KB banki bjóði meðal annars lægstu vexti af íbúðalánum. Þá er spurt hvort eðlilegt þætti að bæjarfélagið beindi starfsmönnum sínum til einnar matvöruverslunar, eins símafyrirtækis eða flutningsfyrirtækis.

Á umræddum bæjarráðsfundi var einnig lögð fram fyrirspurn frá Guðrúnu Elsu Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þar er óskað svara við því hvort bréf Landsbankans hafi verið sent að frumkvæði bæjarráðs eða einhverra starfsmanna bæjarins. Þá er spurt hvort bæjarráð telji það í sínum verkahring að aðstoða fyrirtæki í samkeppnisumhverfi með þessum hætti. Þá spyr bæjarfulltrúinn hvort bæjarfélagið hafi greitt póstburðargjöld vegna sendingarinnar og hvaða heimildir það hafi til þess að senda einu fyrirtæki upplýsingar um launþega sína og hvaða upplýsingar hafi verið gefnar bankanum. Þá segir bæjarfulltrúinn að hugsanlega brjóti þessi gjörningur gegn ákvæðum laga um persónuvernd og sé svo er spurt hver muni bera ábyrgð á því.

Á fundi bæjarráðs var bæjarritara falið að svara bréfum þessum. Þá samþykkti ráðið að fela starfshópi um innkaupamál að skoða hvort hægt sé að setja reglur um afsláttarkjör fyrirtækja í viðskiptum við Akraneskaupstað fyrir starfsmenn kaupstaðarins og fjallað verði um málið í samráði við fulltrúa starfsmanna.

Gunnar Sigurðsson bæjarráðsmaður Sjálfstæðisflokksins lét bóka á fundinum að hann telji óeðlilega að málinu staðið en hann muni bíða með frekari bókun þar til bæjarritari hafi svarað fyrirspurnunum með formlegum hætti. Gunnar telur einnig eðlilegt að bankaþjónusta og tryggingar á vegum bæjarins séu boðnar út með reglulegu millibili.

Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri segir að Jón Pálmi Pálsson bæjarritari hafi haft frumkvæði að tilboði Landsbankans til starfsmanna bæjarins. Hann segir að athugasemdir hafi einnig borist frá Íslandsbanka sem svarað verði á sama hátt og aðrar athugasemdir sem borist hafa vegna málsins.

Aðspurður hvort ekki sé óeðlilegt að bæjarfélagið hafi frumkvæði að slíku tilboði frá einu fyrirtæki umfram önnur segir Guðmundur Páll að svo þurfi ekki að vera. “Það eru fordæmi fyrir því að leitað hafi verið eftir tilboðum fyrir starfsmenn sem hóps m.a. vegna tölvukaupa án þess að það hafi verið gert með almennu útboði. Bæjarritari var í góðri trú við þetta frumkvæði sitt en það kemur í framhaldi meðal annars af samkomulagi Landsbankans við Verkalýðsfélag Akraness og félagsmenn þess. Mín skoðun er sú að frumkvæðið verður aldrei tekið úr höndum starfsmannanna sjálfra en að sjálfsögðu munum við skoða hvort nauðsynlegt sé að setja reglur um framkvæmdina sem slíka til að tryggja að sem best sátt geti ríkt um þessa hluti þegar að þeir koma upp,” segir Guðmundur Páll.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is