Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. febrúar. 2006 07:57

Framkvæmdir stöðvaðar við tengibyggingu Landnámsseturs

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir tengibyggingu milli húsanna Brákarbrautar 13 og 15, þ.e. Gamla pakkhússins og Búðarkletts í Borgarnesi. Forsaga málsins var sú að Ingimundar Grétarssonar, eigandi og ábúandi hússins við Brákarbraut 11 kærði þá ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar þar sem hún veitir samþykki sitt fyrir gildistöku deiliskipulags um „gamla miðbæinn í Borgarnesi“. Kærandi krafðist þess í fyrsta lagi að deiliskipulagið verði ógilt og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa skipulagið að nýju og til vara að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15. Þá er þess krafist að engar framkvæmdir sem byggja á hinu samþykkta deiliskipulagi verði leyfðar fyrr en bætt hafi verið úr og að þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á grundvelli þess verði ógiltar.

 

Úrskurðarnefndin komst í síðustu viku að þeirri niðurstöðu að fella beri byggingarleyfið fyrir áðurnefndri tengibyggingu úr gildi og fram fari grenndarkynning þar sem byggingarreitur hins væntanlega húss verði settur inn á skipulagið. Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er því hafnað að öðru leyti en því að felld er úr gildi heimild fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 sem gert er ráð fyrir í auglýstu skipulagi. Kröfu kæranda um að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15 er vísað frá. 

Óneitanlega þýðir þessi úrskurður nefndarinnar að framgangur framkvæmda við tengibygginguna er í nokkurri óvissu og þar af leiðandi óvíst hvort hægt verði að hefja starfsemi Landnámsseturs í húsunum á tilsettum tíma. Umhverfis og skipulagsnefnd Borgarbyggðar kom saman til aukafundar þann 10. janúar þar sem samþykkt var að setja af stað vinnu við grenndarkynningu á væntanlegum byggingarreit milli húsanna. Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun nefndarinnar á fundi sínum 12. janúar.

 

Langur úrskurðartími

En mun þessi stöðvun framkvæmda ekki hafa áhrif á fyrirhugaða starfsemi Landsnámsseturs sem ráðgert er að hefja í vor? Páll S Brynjarsson, bæjarstjóri er fyrir svörum: “Vinnu við grenndarkynningu á að ljúka 10. febrúar nk. Athugasemdir sem berast munu verða teknar fyrir hjá bæjaryfirvöldum og sendar Skipulagsstofnun sem tekur ákvörðun í framhaldinu. Ef stofnunin tekur undir rökstuðning bæjarstjórnar geri ég ráð fyrir að byggingarleyfið verði veitt strax eða um miðjan febrúar og framkvæmdir geta þá hafist á ný. Ef hinsvegar verður tekið undir athugasemdir kæranda verður ferlið lengra og þ.a.l. mun fyrirhuguð opnun Landnámsseturs þann 13. maí í vor líklega dragast af þessum sökum,” sagði Páll S Brynjarsson, bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Páll kveðst ósáttur við hve langan tíma úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók sér við að úrskurða í málinu. “Kæran barst nefndinni í maí 2005, en úrskurðar ekki fyrr en í janúar 2006. Alla jafnan á slíkur úrskurður að berast innan þriggja mánaða frá því kæra berst, en nefndin hefur tekið sér á 8. mánuð til verksins. Slíkt er afar bagalegt,” sagði Páll. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir orðrétt: “Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is