Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. febrúar. 2006 03:35

Vesturland morgundagsins - allt á fleygiferð!

Fjölmenn ráðstefna um framtíð Vesturlands, undir yfirskriftinni “Á fleygiferð – Vesturland morgundagsins,” var haldin á Bifröst 27. janúar sl. Það voru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Viðskiptaháskólinn á Bifröst sem stóðu fyrir ráðstefnunni og var hún vel sótt. Niðurstöður þingsins hafa vakið nokkra athygli fjölmiðla og hefur þess verið farið á leit við Skessuhorn að umfjöllun sú sem birt var í blaðinu sl. miðvikudag um það sem þar fór fram, verði einnig birt hér á vefnum í heild sinni. Við því er sjálfsagt að verða.

 

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna:

Norðan Hvalfjarðar eru allir vegir færir - segir hafnarstjóri

 

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna sagði í erindi sínu á Bifröst að aldrei fyrr hafi jafn mörg tækifæri blasað við þeim sem fást við byggðaþróun og sveitarstjórnarmál norðan Hvalfjarðar. Það eigi reyndar einnig við um fleiri svæði umhverfis höfuðborgina en aldrei fyrr hafi sjónir manna beinst að þessu svæði í jafn ríkum mæli og nú eigi íbúar svæðisins val og möguleika á að stýra þróun með aðgerðum. Þá reyni á framsýni fólks, hugrekki og trú á að það sem gert er leiði til jákvæðra breytinga. Ýmsar ákvarðanir hafi verið teknar sem séu grundvöllur þess sem nú gerist á svæðinu og nefndi Gísli ákvörðun um gerð Hvalfjarðarganga, sameiningu orkufyrirtækja og hafnarsjóða og einnig nefndi hann ferðir Strætó. Með frekari aðgerðum megi ná enn sterkari stöðu og benti þar á gerð Sundabrautar sem hann sagði líflínu í framtíðaruppbyggingu Faxaflóahafna og þeirrar starfsemi sem þær draga að sér.

Gísli nefni dæmi um nokkur atriði sem unnið er að við Reykjavíkurhöfn og sagði í því sambandi að verið væri að skoða möguleika á því að flytja innflutning á plássfrekri vöru út fyrir borgarmörkin eins og til dæmis timbur og bíla. Hann sagði að á höfuðborgarsvæðinu ættu sér stað hraðar og miklar breytingar sem hefðu það í för með sér að horfa verði til aðliggjandi landssvæða. Þar kæmi svæðið norðan Hvalfjarðar til sögunnar “sem gríðarlega mikilvægur valkostur til lengri framtíðar,” eins og Gísli komst að orði.

 

Án skipulags

“Sá valkostur mun hins vegar ekki nýtast sem skyldi og ekki á þeim tíma sem nauðsynlegt er nema að til komi mjög verulegar samgöngubætur frá Sæbraut í suðri að Grundartanga í norðri, en verkefnið hefur gengið undir nafninu Sundabraut,” sagði Gísli. Hann ræddi kosti þá sem Grundartangasvæðið hefur upp á að bjóða svo sem möguleika til stækkunar og traust aðveitukerfi rafmagns. Á svæðinu væri nú þegar starfsemi sem veittu 5-600 manns atvinnu sem að stærstum hluta er sinnt af íbúum á svæðinu norðan Hvalfjarðar.  En Grundartangasvæðið glímir líka við veikleika að sögn Gísla og það sé skipulag svæðisins sem sé “í heild enn ómótað þó svo að fyrir liggi landnotkun í aðalskipulagi, vatnsöflun til framtíðarstarfsemi á svæðinu er skammt á veg komin og samgöngur við höfuðborgarsvæðið þurfa að vera betri til þess að Grundartangi verði að því aðdráttarafli sem vonir standa til að það verði í framtíðinni,” sagði Gísli.

Þrátt fyrir að skipulag svæðisins sé skammt á veg komið eru fyrirtæki þegar farin að sýna áhuga á að setja niður starfsemi sína þar. Nefndi Gísli í því sambandi fyrirtæki í innflutningi á korni og áburði auk þess sem viðræður séu í gangi um möguleika þess að sköpuð verði aðstaða á Grundartanga til að taka við þeirri þjónustu sem veitt er skipum á Mýrargötusvæðinu, en slippstarfsemi þar verður í áföngum hætt innan tíðar. 

 

Lag að blása til sóknar

Þá hafi einnig verið fært í tal við skipafélögin að áhugavert væri að draga úr þungaumferð inn í höfuðborgina með því að flytja út fisk frá Grundartanga og safna þar saman þeim fiski sem fluttur er af Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi til útflutnings.  “Það verkefni er afar spennandi en slíkt myndi einnig auka vægi Akraneshafnar sem fiskihafnar, en það er m.a. eitt af makmiðunum með stofnun Faxaflóahafna sf. Það er því verk að vinna að koma skipulagi svæðisins í það horf að þar megi auglýsa lóðir í landi Klafastaða auk þess sem Katanes er einnig áhugavert land til þróunar.”   

Í niðurlagi erindis síns sagði Gísli: “Okkur norðan Hvalfjarðar eru allir vegir færir og aldrei hafa jafn mörg tækifæri blasað við okkur og um þessar mundir byggist gæfa okkar í þeim efnum sam aldrei fyrr á eigin afli.  Það eru breyttir tímar frá þeirri tíð þar sem samdráttur réði ferðinni og viðspyrna sveitastjórna og atvinnulífs einkenndi allar aðgerðir.  Það er því lag að grípa daginn og blása til þeirrar sóknar sem mun reynast okkur happadrjúg til lengri tíma litið.”

 

Grétar Þór Eyþórssson:

Vill skilgreina Vesturland upp á nýtt

 

Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar Viðskiptaháskólans á Bifröst gekk það langt í ræðu sinni á ráðstefnunni að segja að Akranes teljist ekki lengur til hinnar hefðbundnu landsbyggðar, eins og hún hefur jafnan verið skilgreind, eftir tilkomu Hvalfjarðarganganna. Hálftíma akstursleið frá Reykjavík geti með engu móti talist lengur til landsbyggðar, sérstaklega í ljósi þess að núorðið er hægt að ferðast með strætó milli Reykjavíkur og Akraness. 

Grétar leggur til að skipta landsvæðinu upp í Vesturland nær og fjær svo betra verði að vinna að sameiginlegum hagsmunum beggja landshlutanna. Ólíkir hagsmunir svæðanna draga úr styrk þeirra og því verði erfiðara að vinna að hagsmunum alls svæðisins sem heildar. Grétar vitnaði í rannsókn Vífils Karlssonar um áhrif Hvalfjarðarganganna og má þar bersýnilega sjá að ávinningur ganganna fellur fyrst og fremst í skaut suðursvæðis Vesturlands. Vífill sýni fram á að göngin hafa leitt til hærri atvinnutekna og fjölbreyttari starfa hjá fólki á suðursvæðinu þar sem enn fleiri velja sér að sækja vinnu til höfuðborgarinnar.

Grétar áætlar að með lagningu Sundabrautar munu Borgfirðingar standa uppi sem sigurvegarar þeirrar framkvæmdar og muni fólki sem ferðast í og úr vinnu þaðan fjölga verulega. Að þessu gefnu ættu Akranes, Borgarnes og nágrenni, þ.m.t. Hvanneyri að teljast til Vesturlands nær, en Snæfellsnes og Dalir eru og munu áfram verða landsbyggðin í hefðbundinni skilgreiningu þess orðs. Að mati Grétars þurfa Vestlendingar höfuðborgarsvæðisins ekki lengur á landsbyggðarpólitík að halda heldur hagvaxtarpólitík og eiga að hætta “að togast á við Borgfirðinga um nokkrar lögregluhúfur,”eins og Grétar komst skemmtilega að orði.

 

Guðmundur Smári Guðmundsson:

Fyrirtæki sitja ekki við sama borð við innflutning erlends vinnuafls

 

Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði sagði í erindi sínu á ráðstefnu um framtíð Vesturlands að fyrirtæki sætu ekki við sama borð gagnvart eftirlitsstofnunum við innflutning erlends vinnuafls.

Í upphafi erindis síns ræddi hann um að fjölmargar ónýttar auðlindir væru í hafinu. Í því sambandi nefndi hann að skera mætti hundruð þúsunda tonna af þangi og þara við Vesturland. Í dag væri heimsaflinn af þangi milli 8,5-10 milljónir tonna og af þeim afla væri yfir 90% ráðstafað til manneldis. Þá taldi hann að auka þyrfti stórlega hafrannsóknir og breyta einnig áherslum í rannsóknum. Sem dæmi nefndi hann að á síðasta ári hefði verðmæti landaðs flatfisks verið á sjötta milljarð króna eða meira en loðnuaflans og um 10% af verðmæti sjávarafla landsmanna. Þrátt fyrir þessa staðreynd væru rannsóknir á flatfiski ekki í neinu samræmi við þau verðmæti sem hann skapar.  Hann taldi nauðsynlegt að byggja upp rannsóknarsetur við sjávarsíðuna og að sjávarútvegurinn þyrfti að hafa afkomu til þess að greiða að einhverju leyti sjálfur fyrir uppbyggingu slíkra setra.

 

Taka lán til að greiða skatta

Guðmundur telur styrk íslensku krónunnar með ólíkindum en sjávarútvegurinn hefði aðlagað sig að henni sem sýndi best hver aðlögunarhæfni atvinnugreinarinnar væri. Það sæist best á því að tekjur greinarinnar árið 2005 hefðu verið þær sömu og árið á undan. “Mikil og góð eftirspurn hefur verið á öllum helstu fisktegundum okkar og sala hefur haldist í sama takti og framleiðsla, þannig að ekki hefur verið birðasöfnun og staðan í dag er þannig að ekki er hægt að anna eftirspurn í fjölmörgum vöruflokkum,” sagði hann.

“Megin þorri sjávarútvegsfyrirtækjanna gerir árið 2005 upp með verulegum hagnaði. Hagnaði sem að stærstum hluta kemur frá reiknuðum tekjum af lækkun skulda í krónum. Dæmi hafa verið sett upp að skattgreiðslur geti verið hærri en framlegð fyrirtækjanna af reglulegri starfsemi. Sem gæti þýtt að fyrirtæki þurfi að taka lán til greiðslu tekjuskatts,” sagði hann orðrétt.

 

Of miklu ekið burt óunnu

Guðmundur sagði sjávarútveg á Vesturlandi í vörn meðal annars vegna samdráttar í hörpudisk- og rækjuveiðum. Einnig hefði orðið samdráttur í lönduðum afla á svæðinu meðal annars vegna breytts eignarhalds á stærsta sjávarútvegsfyrirtæki í landshlutanum.

Þá sagði hann stóran hluta afla ekið burt frá Vesturlandi. Sem dæmi væri 70% landaðs þorksafla ekið burt til vinnslu, 75% af ýsuafla og 76% af ufsaafla en um 70% af karfaafla væri þó unninn á Vesturlandi. Hann sagði nálægð vinnsluhúsa á höfuðborgarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll oft nefnda sem skýringu hvers vegan afla væri ekið þangað til vinnslu. Það væri ekki rétt skýring. Hennar væri að leyta í öðrum þáttum svo sem breytingum í vinnslunum sjálfum, fyrirtæki á Akranesi hefðu verið sameinuð, fólki hefði fækkað á Snæfellsnesi þar sem ýmsa grunninnviði hefði vantað í byggðina. Þá fullyrti Guðmundur að fyrirtæki í fiskvinnslu á landsbyggðinni sætu ekki við sama borð hvað innflutningi erlends vinnuafls varðaði og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og á stóriðjusvæðunum.  Þá nefndi hann að skortur væri á frumkvöðlum í greininni því ungafólkið kæmi ekki til baka að loknu námi.

 

Einkafyrirtæki stöðugust

Alls eru 17 fyrirtæki með leyfi til ferskfiskvinnslu, frystingar og söltunar á Vesturlandi en á landinu öllu eru fyrirtækin á þriðja hundrað talsins.Á landinu öllu eru á þriðja hundrað sambærileg leyfi í gangi. Hefur fyrirtækjum nokkuð fækkað á Vesturlandi á undanförnum árum. Sagði Guðmundur að fyrirtæki með sameignarform og opin hlutafélög hefðu týnt tölunni en fyrirtæki í einkaeign hefðu haldið sinni stöðu.

 

Norðan stóriðju

Þrátt fyrir ýmislegt mótlæti var Guðmundur bjartsýnn á framtíð sjávarútvegs á Vesturlandi. Í því sambandi nefndi hann að fjölmargir innviðir samfélaganna hefðu batnað á liðnum arum meðal annars væri stórfelld uppbygging í skólakerfinu og fagnaði hann sérstaklega hinum nýja framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Þá nefndi hann að vegakerfið hefði tekið stórstígum framförum og bankakerfið væri komið inn í nútímann eins og hann orðaði það. Þá hefði útgerð þróast mjög hratt á liðnum árum með breytingum í skipastól. Fiskvinnslan hefði einnig þróast og miklar væntingar væru um frekari framfarir í þróun tæknibúnaðar við vinnsluna. Þá væri vaxandi krafa um sjálfbærni auðlinda og verndun sérstakrar náttúru og þeim kröfum hefði verið mætt á Snæfellsnesi og í Breiðafirði. “Útgerðarmenn og sjómenn hafa í áratugi lagt sjálfviljugir á sig bann við flestum veiðum á Breiðafirði. Þeir voru frumkvöðlar í verndun hrygningarstöðva þorsksins fyrir nærri 40 árum,” sagði hann og bætti við að Vesturland norðan stóriðju gæti og ætti að gera út á sína sérstöðu.

 

Guðný H Jakobsdóttir:

Dreifbýlið má ekki allt verða nýlenda fjármagnseigenda

 

Guðný H. Jakobsdóttir, formaður Búnaðarsamtaka Vesturland hélt athyglisvert erindi á ráðstefnunni. Þar kom fram að hinn hefðbundni landbúnaður á Vesturlandi samanstendur af um 8.000 nautgripum, 80.000 kindum, 8.000 hrossum, 80 geitum, 3.000 svínum, 70.000 hænum, 200 aliendum og -gæsum, 230.000 rúlluböggum og 500-600 bjartsýnum bændum. “Landbúnaðurinn er mikilvægur fyrir svæðið sem hefur nægilegt land, mikla þekkingu og ekki síst nálægð við markað,” sagði Guðný. Hún lagði áherslu á að til að tryggja framtíð landbúnaðarins þurfi byggð að geta haldist í sveitunum og megin forsendan fyrir því væru góðir grunnskólar. Henni sárnaði sú sparnaðarstefna sveitarfélaga sem hefði í för með sér að fámennum sveitaskólum væri lokað og þar sem börn þyrftu að sækja lengra í skóla, taldi hún líklegt að foreldrar barna flyttu á eftir þeim og vísaði hún til reynslu íbúa við Ísafjarðardjúp í því samhengi.

Guðný sagði mikilvægt að styðja við bændur og frumkvöðla í landbúnaði og sá stuðningur væri ekki aðeins fólginn í fjárframlögum heldur einnig í viðurkenningu á starfinu og mikilvægi þess fyrir þjóðfélagið. “Okkur þarf einnig að haldast á auðlindunum okkar , þ.e. ræktar- og beitilandi sem eru viðkvæm og nýting þess krefst staðbundinnar þekkingar og skilnings á eðli náttúru og náttúrulífs á norðlægum slóðum,” sagði Guðný.

Það var skoðun Guðnýjar að forða þurfi dreifbýlinu frá því að verða að eins konar nýlendu fjármagnseigenda og ef fólk vildi sjá blómlegt mannlíf í sveitum þá væri staðbundið eignarhald nauðsynlegt og best til þess fallið að tryggja landbúnaði og byggð í dreifbýli sæmilega umgjörð. Hún líkti bújörðum við málverk, þ.e.a.s dýr en örugg fjárfesting, nema hvað þar væri lítil hætta á fölsunum. “Einnig þurfum við að nýta okkur þá þekkingu sem til staðar er varðandi tækni, kynbætur og ræktun.” Í því sambandi benti hún á að sauðfjárbændur á starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands kaupa árlega á sjötta þúsund sæðisskammta til kynbóta á hjörðum sínum og kúabændur kaupi um 6 þúsund sæðingar á kúm árlega. Guðný sagði að með samstarfi samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi við háskólana í héraðinu og samtök bænda, geti landbúnaður á Vesturlandi átt mikla vaxtarmöguleika og mun því verða eðlilegur hluti af íslensku samfélagi um ókomna tíð. “Vesturland verður í farabroddi og landbúnaður þar mun blómstra. Vilji er allt sem þarf,” sagði hún að lokum.

 

Helena Guttormsdóttir:

Þætti í nærandi samfélagi þarf að uppfylla

 

Helena Guttormsdóttir, myndlistamaður og kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri segir það mikilvægt að einstaklingurinn fái að njóta sín svo samfélagið geti notað krafta þeirra. Hún sagði að við þyrftum að vera full af krafti í samfélagi sem stöðugt kallar á þátttöku okkar.Til að svo geti orðið þarf að tengja betur þætti eins og skóla- og fræðslumál, þjónustu og verslun, menningu og afþreyingu, fagmennsku og metnað og ekki síst samskipti og samvinnu. Þetta kallaði hún “nærandi samfélag.”

Helena taldi metnaðarfullt skólastarf með góða tenginu út í samfélagið öflugustu leiðina að nærandi upplifun. “Við þurfum þó að hafa augun opin til að nýta hvert tækifæri til skapandi verkefna og vera meðvituð um það sem betur má fara.” Helena benti á að inn á heimasíða fjögurra bæja- og sveitarfélaga hafi hún hvergi fundið stefnu í menningarmálum hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ræddi hún um vitund fólks gagnvart menningu og tók sem dæmi að það væri hvergi nærri ásættanlegt að unglingar á Vesturlandi kannist ekki við Ásmund Sveinsson og Helga Þorgils Friðjónsson. “Erum við að nýta ræturnar?” spurði hún og benti á að hæg væru heimatökin. “Vestlendingar ættu að njóta þess munaðar sem umhverfi okkar býður upp á og nota sjóinn, skóginn, rokið og skjólið, hitann og gufuna sem andlega næringu.” Þá sagði hún að í kjölfar nýundirritaðs menningarsamnings leggði hún til að við settum okkur markmið og styrktum grasrótina. “Þá eigum við að sýna mun meiri djörfung í verkefnavali og reyna að vinna betur úr því sem við höfum. Síðast en ekki síst er afar mikilvægt að við virkjum unga fólkið okkar.” Ráðlagði hún ennfremur ungum sem öldnum að “vera til í dag en ekki í gær.”

 

Runólfur Ágústsson:

Íbúafjöldi Vesturlands gæti þrefaldast á næstu 10 til 15 árum

 

Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst er bjartsýnn á að Vesturland gæti orðið eitt helsta vaxtarsvæði landsins og að íbúafjöldi svæðisins geti hátt í þrefaldast á næstu 10 til 15 árum. Hann telur að þær samfélagsbreytingar sem eiga sér stað í landinu geti skapað mörg tækifæri fyrir Vesturland vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið og vegna þess að svæðið sé að stærstum hluta orðið að úthverfi Reykjavíkur vegna bættra samgangna. Þessi þróun verður ekki síður að raunveruleika með tilkomu Sundabrautar. Runólfur segir jafnframt að Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Viðskiptaháskólinn á Bifröst geymi aðgöngumiða að þekkingarsamfélagi morgundagsins og mannauðurinn sé sú auðlind sem býr í þekkingu okkar, menntun, huga og þjóð og sú auðlind sé ein af þeim fáu sem ekki klárist. Sérstaða Vesturland liggur hjá þessum skólum og sé því mikilvægt að stuðla að uppbyggingu þeirra. “Með nýjum tækifærum og nýjum störfum er hægt að umbreyta efnahags- og atvinnumálum Vesturlands,” sagði Runólfur og bætti við að það væri hans skoðun að með því að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun gæti samfélagið nýtt háskólana betur en nú væri gert.

 

Grunnskólar verða að standast samanburð

Runólfur beindi orðum sínum til sveitastjórnamanna og sagði að þeir yrðu að leggjast á eitt til að gera Vesturland að ákjósanlegum stað til búsetu og setji það sem forgangsatriði að byggja upp bestu grunnskóla landsins. Lagði hann fram nokkurs konar “tékklista” fyrir núverandi og verðandi sveitarstjórnarfólk til hliðsjónar við stefnumótun sína.  Í dag sé það raunin að grunnskólar á Vesturlandi standast engan veginn samanburð við grunnskóla Reykjavíkur og nágrennis og því þurfi að breyta. “Við þurfum að setja okkur það markmið að byggja upp bestu grunnskóla landsins en slíkt verður ekki gert nema saman fari fjármagn og faglegur metnaður,” segir Runólfur. Hann vildi einnig styrkja framhaldsskólastigið með myndarlegri aðkomu sveitarfélaga að Fjölbrautaskóla Vesturlands, Fjölbrautaskóla Snæfellsness og hinum nýja Menntaskóla Borgarfjarðar. Í öðru lagi þurfi sveitafélög á Vesturlandi að fara í framsækna skipulagsvinnu til að geta tekið á móti nýjum íbúum og þá sé mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem kunna að verða á samfélagi okkar. Hann telur það nauðsynlegt að sveitarfélög á Vesturlandi vinni að markvissri markaðssetningu svo hægt sé að kynna svæðið sem fýsilegan búsetukost fyrir nýja íbúa sem og fjárfesta.  Runólfur benti sveitarstjórnarmönnum á að hafa langtímahagsmuni umbjóðenda sinna í huga og að þeir ættu að hafa vilja og þor til breytinga og ákvarðanatöku ásamt því að veita svæðum sínum örugga og ódeiga forystu.

 

Salvör Jónsdóttir:

Sundabraut fylgja kostir og gallar

 

Salvör Jónsdóttir, forstöðumaður skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar segir að tilkomu Sundabrautar fylgi kostir og gallar fyrir byggðir sem að henni liggja. Hún telur einnig að byggða- og borgarstefna þurfi að vera samtvinnaðar. Þetta kom fram í erindi hennar á ráðstefnunni sem haldin var á Bifröst.

Í máli hennar kom fram að tilkoma Sundabrautar auðveldaði íbúum Vesturlands aðgang að menningarviðburðum, æðstu stjórnsýslu, markaði og sérhæfðri verslun og þjónustu. Sem galla nefndi hún að fyrirtæki sem erfitt ættu með að fá tilskilin leyfi fyrir starfsemi sína höfuðuborgarsvæðinu myndu sækja í jaðarbyggðirnar og það ætti einnig við um starfsemi sem gerði kröfur um ódýrt land. Þá kynni nærþjónusta á Vesturlandi að minnka með tilkomu brautarinnar.

Vegna þessara þátta væri mjög mikilvægt að horfa til stærri svæða í skipulagi og í því sambandi væri hefðbundin hreppapólitíkur á þéttbýli og dreifbýli úrelt. Hún sagði að byggðastefna og borgarstefna yrðu að vera samtvinnaðar því margir hagsmunir íbúa stærri svæða væru sameiginlegir þrátt fyrir að þeir væru kannski ekki allir hinir sömu.

Salvör taldi því mikilvægt að í skipulagi fælist skýr sýn fyrir framtíðarskipulag, stefnumörkun um framtíðarþróun væri til staðar og einnig áætlun til þess að ná settum markmiðum og einnig virkri endurskoðun markmiða.

Þá ræddi Salvör ýmsa þætti sem huga þurfi að við skipulagningu byggðar og ræddi nokkuð um það sem hún kallaði gæði byggðar. Þar á meðal nefndi hún verndun auðlinda, mengunarvarnir, samgöngur, húsnæðismál, menntunarmöguleika og fleira. Einnig ræddi hún svokallað fæðuframboðsskipulag þar sem þess er gætt að landnotkun og samgönguskipulag tryggi aðgengi að hollum og góðum mat. Þar er einnig áhersla lögð á fjölbreytileika og sjálbæra framleiðslu og áherslu dreifbýlis í fæðuframleiðslunni. Einnig að aukin séu tengsl matvælaframleiðslu og umhverfismála og bein tengsl skóla og stórra opinberra stofnana við framleiðendur.

 

Sigmundur Ernir Rúnarsson:

Borgarflóttinn hafinn

 

“Hvalfjarðargöngin eru ekki síður opinberun fyrir Reykvíkinga og hafa með sanni brúað bilið milli þéttbýlis og dreifbýlis,” sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri NFS í erindi sínu á Bifröst sem hann kaus að kalla “Borgarflóttann.” Þar fjallaði hann á skemmtilegan hátt um þá gríðarmiklu hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað hjá hinum hefðbundna þéttbýlisbúa, viðhorfi hans til landsbyggðarinnar og hvernig það hafi breyst samhliða bættum samgöngum. Hann sagði að Hvalfjarðargöngin væru mesta samgöngubylting okkar Íslendinga síðasta aldarfjórðung og á svipstundu hafi Reykvíkingar orðið að landsbyggðarmönnum þegar þeir áttuðu sig á mikilvægi þeirra.

Sigmundur sagði að á undanförnum árum væru reykvískir garðar komnir út á land, eins og hann orðaði það, þar sem sífellt fleiri veldu að eyða frítíma sínum annars staðar en á malbikinu, m.a. í sívaxandi fjölda sumar- og heilsárshúsa á landsbyggðinni. “Í dag eru allar helgar ferðahelgar, en ekki eingöngu verslunarmannahelgin eins og hefðin var fyrir og er nóg að líta til umferðarþunga inn í borgina á sunnudagskvöldum til að sannfærast um að sú sé raunin. Við ökum t.d. til Akureyrar og þurfum varla að taka pissstopp á þeirri leið, en áður fyrr tók þetta ferðalag a.m.k. hálfan daginn með viðkomu í a.m.k. þremur vegasjoppum.”

Sigmundur taldi Vesturland ákjósanlegt svæði fyrir margra hluta sakir og þar lægju vegir til allra átta, ekki væri um að ræða hefðbundið strandlengjusvæði þar sem ekið væri meðfram ströndinni og aðalleiðin væri ein. “Hér geta Borgfirðingar t.d. villst í sínu eigin héraði, því vegir liggja í allar áttir. Þetta þýðir m.a. fjölbreytileika fyrir ferðafólk sem flokka verður sem eina af auðlindum héraðsins.” Sigmundur sagði Vestlendinga vel í stakk búna til að taka á móti “þessum tómstundaóðu Reykvíkingum,” eins og hann orðaði það. “Þetta á bæði við um framboð af sumarbústaðalóðum sem og úrval og fjölbreytileika í tómstundum og afþreyingu hvort sem er fyrir hestamenn, veiðimenn, kylfinga eða aðra. Með þessari þróun getur tómstundabyggð Vesturlands vaxið hratt og örugglega og ferðaþjónustan orðið að heilsársatvinnugrein sem mun vonandi snúa íbúaþróuninni til hins betra og sporna við fólksflótta frá minni sveitarfélögum.”

 

Þorleifur Finnsson:

OR fjárfestir fyrir tæpa 6 milljarða á Vesturlandi

 

Þorleifur Finnson, sviðsstjóri Orkuveitu Reykjavíkur kynnti starfsemi fyrirtækisins á Vesturlandi, en óhætt er að segja að það komi víða við á svæðinu í uppbyggingu hvað snertir vatn, rafmagn og nú síðast ljósleiðaravæðinguna. Sagði hann að uppgangur fyrirtækisins á Vesturlandi væri mikill en Orkuveitan er í dag með starfsemi í 10 af 17 sveitafélögum Vesturlands og þjónustar um 80% íbúanna. Starfsemin á Vesturlandi er fólgin í jarðhita, köldu vatni, raforku, fráveitu og ljósleiðara.

Þorleifur sagði áætlanir Orkuveitunnar um framkvæmdir á Vesturlandi umtalsverðar og má þar einna helst nefna aðveitustöð á Akranesi, uppbyggingu fráveitu á Akranesi, Borgarfirði og í Borgarnesi og tengingu ljósleiðara á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði. Orkuveita Reykjavíkur reiknar með að ljósleiðara verði komið fyrir í öll hús á Akranesi á þessu ári og verður sveitarfélagið þá ásamt Seltjarnarnesi í fararbroddi á því sviði. Hann reiknar með að áætlaður kostnaður vegna fjárfestinga Orkuveitunnar nú og til næstu ára, verði tæplega 6 milljarðar króna, eða um 650 þúsund á hvern íbúa á Vesturlandi, en sú upphæð er að frátöldum kostnaði við útvegun raforku til stóriðju á Grundartanga. Þoreifur greindi frá hlutverki Orkuveitu Reykjavíkur á Vesturlandi sem hann telur margþætt. Má þar einna helst nefna að byggja upp og reka veitukerfi, skapa aðstæður og umhverfi á svæðinu og stuðla að nýsköpun og þróun. Síðast en ekki síst lagði hann mikla áherslu á að Orkuveitan yrði góður samfélagsþegn Vesturlands og tæki tillit til umhverfisins í allri starfseminni og yrðu virkir þáttakendur í vísinda-, lista og menningarstarfsemi.

 

Stefán Gíslason:

Nauðsynlegt að skapa Vesturlandi sérstöðu í ferðamálum

 

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur telur engan vafa leika á því að í sjálfbærri ferðaþjónustu felist mikil tækifæri fyrir Vesturland. Slík tækifæri byðust fleirum og því væri spurningin aðeins hver væri fyrstur og hver fengi bestu hugmyndirnar. “Til að nýta tækifærin þarf að taka ákvörðun. Um það snýst allt málið. Þetta er einfaldlega spurning um að hrökkva eða stökkva, eða nánar tiltekið að stökkva. Þetta snýst um að grípa færið meðan það gefst. Þetta snýst um að þora að skipa sér í hóp frumherjanna, því að hika er sama og að tapa – samkeppni,” sagði Stefán orðrétt í erindi sínu.

Stefán sagði að ferðaþjónusta væri sú atvinnugrein heimsins sem vaxið hefur mest og jafnast síðustu ár og áratugi. Þannig hafi fjölgaði komum ferðamanna í heiminum öllum um 11% milli áranna 2000 og 2004, það er að segja úr 687 milljónum í 760 milljónir. Og að ekkert bendi til annars en að þessi aukning haldi áfram. Gera megi ráð fyrir að innan 6 ára standi ferðaþjónustan undir 11% af þjóðarframleiðslu ríkja heims.

 

Háð náttúrunni

Hann segir ljóst að framtíð ferðaþjónustunnar sé afar háð umhverfislegum og félagslegum auðlindum, því það séu einmitt þær auðlindir sem ferðaþjónustan nýtir og selur aðgang að. Ef salan sé meiri en auðlindin þolir sé þess stutt að bíða að markaðurinn hrynji. “Þetta er ekki síst vert umhugsunar í landi eins og Íslandi, þar sem greinin er mjög háð sérstæðri náttúru og fámennu samfélagi,” sagði Stefán.

“Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er augljóst að ferðaþjónustan á mikla framtíð fyrir sér sem atvinnugrein. Um leið er ljóst að áhersla á sjálfbæra þróun er algjört lykilatriði hvað þetta varðar. Hér dugar ekki að einblína á stundarhaginn, heldur verður að haga málum svo, að hægt verði að halda áfram á sömu braut lengi enn. Sjálfbær atvinnurekstur er atvinnurekstur sem er gerður til að endast. Annar atvinnurekstur er einnota,” sagði hann.

 

Verður að skapa sérstöðuna

Stefán sagði Vesturlandi í raun ekki hafa neina sérstöðu þegar horft væri til tækifæra í ferðaþjónustunni. “Það er alla vega ekkert náttúrulögmál að Vesturland skari fram úr öðrum landshlutum hvað þetta varðar. Jafnvel þótt heimamenn telji sérstöðuna augljósa, er ekki hægt að gera ráð fyrir að það sama gildi um ferðamenn. Sérstaða svæðis er ekkert sem verður til sjálfkrafa. Hana þarf að búa til. Þetta gildir ekki bara um Vesturland, heldur einnig um alla aðra landshluta,” sagði hann.

Stefán lagði til að einstakar byggðir á Vesturlandi fylgi fordæmi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og leiti eftir vottun samkvæmt staðli Green Globe 21 fyrir samfélög og fyrirtæki í ferðaþjónustu á svæðinu verði hvött til að gera slíkt hið sama. Þá vill hann að upplýsingamiðstöð ferðamála gangi á undan með góðu fordæmi sem nokkurs konar andlit svæðisins. Þegar flest sveitarfélögin væru komin með vottun, verði hægt að markaðssetja svæðið í heild undir merkjum sjálfbærrar ferðaþjónustu og þannig væri hægt að búa til sérstöðu sem auðvelt væri að kynna.

“Allt þetta starf snýst um að setja sér markmið, að ákveða hvert maður vill fara – til að eiga síður á hættu að lenda einhvers staðar annars staðar, að skapa eigin framtíð í stað þess að láta framtíðina koma af sjálfsdáðum á meðan maður sýslar við eitthvað annað,” sagði Stefán og bætti við að kýrnar mjólkuðu sig ekki sjálfar. Til þess að ná árangri væri nauðsynlegt að taka til hendinni. Ekkert gerðist áreynslulaust.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is