Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. febrúar. 2006 07:39

Hitaveita í Grundarfirði tefst um a.m.k. ár

Orkuveita Reykjavíkur hefur neyðst til þess að seinka framkvæmdum við lagningu hitaveitu í Grundarfirði. Vonast var til þess að fyrstu hús í Grundarfirði yrðu tengd veitunni síðla árs en nú er ljóst að það verður í fyrsta lagi ári síðar. Áform Orkuveitu Reykjavíkur um að klára verkefnið hafa hins vegar ekki breyst. Undanfarna mánuði, eða frá því í september, hafa staðið yfir dælingar á heitu vatni úr borholu á Berserkseyri og eins og fram kemur í frétt í Skessuhorni í dag hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að framkvæmdin þurfi ekki að fara í umhverfismat. Þeir sem undirbúið hafa hitaveituna hafa hins vegar kallað vatnið úr henni „erfiðasta jarðhitavatn á Íslandi” því það er bæði súrt og inniheldur að auki óvenju mikið salt.

 

Sú staðreynd setur skorður við efnisval í búnaði og rörum. Leiðni vatnsins og saltinnihald fer vaxandi eftir því sem dælingartíminn lengist sem bendir til innstreymis sjávar í jarðhitakerfið og því er óráð að hefja framkvæmdir að svo komnu máli þar sem jafnvægi í efnainnihaldi hefur ekki verið náð. Dælingu verður haldið áfram og þess beðið að jafnvægi náist. Þá er hitastig vatnsins heldur lægra og magn úr holunni heldur minna en ráð var fyrir gert. Hitastigið og niðurdráttur vatnsborðs í jarðhitakerfinu hafa hins vegar haldist nokkuð stöðug.

 

Að sögn Jakobs S. Friðrikssonar, starfsmanns Orkuveitunnar er hönnun dreifikerfis hitaveitunnar innan bæjarmarkanna því sem næst lokið. Um aðveitulögnina frá Berserkseyri að bæjarmörkum gildir öðru máli og ekki er ennþá fullljóst hvort aðveitan verður lögð tvöföld með varmaskiptastöð á Berserkseyri eða einföld með varmaskiptastöð við bæjarmörkin. Frekari rannsókna er því þörf áður en hægt verður að ljúka hönnun aðveitulagnarinnar. 

Vegna þessara óvissuþátta telja sérfræðingar Orkuveitunnar ekki skynsamlegt að hefja framkvæmdir við dreifikerfið fyrr en á næsta ári, þegar ítarlegri upplýsingar liggja fyrir. 

Jakob segir að næsta skref Orkuveitunnar verði að bora nýja holu á Berserkseyri og reyna að skera ytri sprunguna sem ekki tókst við síðustu borun líkt og alkunna er.  Frekari ákvarðanir um tímasetningu framkvæmdanna bíða niðurstöðu borunarinnar og rannsókna í kjölfar hennar.  Hann segir það vilja Orkuveitunnar að hefja framkvæmdir sem fyrst og þá væntanlega á næsta ári. Til þess að það takist þurfi borun og rannsóknir að ganga vel.

 

Jakob segir þessa stöðu mála án efa verða Grundfirðingum nokkur vonbrigði því væntingar íbúa til hitaveitunnar hafi verið miklar og samstarf við íbúa hafi gengið mjög vel. Þeir muni því eflaust skilja þann ásetning Orkuveitunnar að standa eins vel að framkvæmdinni og möglulegt er.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is