Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
23. febrúar. 2006 08:40

Þjóðvarða reist í Brákarey?

Nýverið afhentu þau Ólöf Davíðsdóttir, listakona í Borgarnesi og Sverrir Björnsson vinur hennar og framkvæmdastjóri Hvíta hússins, Páli S Brynjarssyni bæjarstjóra í Borgarbyggð hugmynd þeirra um byggingu svokallaðrar Þjóðarvörðu í Brákarey. Hugmyndin snýst um gerð listaverks á sunnanverðri Brákarey og nýtingu gamals vatnstanks sem þar stendur sem undirstöðu fyrir verkið. Vatnstankurinn, sem er nokkuð stórt steinsteypt mannvirki og komið til ára sinna, yrði notaður sem uppistaða í listaverki sem allir gestir Borgarness geti í framtíðinni sett á eiginhandaráritanir sínar, en rithönd gesta yrði brennd á litla ferninga úr gleri sem raðað yrði saman eins og mosaik á tankinn og smám saman myndu þessar eiginhandaráritanir fylla allar hliðar hans. Verkið yrði þá í senn myndlistarverk og gjörningur sem þúsundir manna, og jafnvel hundruð þúsunda, tækju þátt í að skapa.

 

Þjóðvarðan verður upplýst og því mjög áberandi af þjóðveginum þegar ekið er að sunnan áleiðis í Borgarnes. “Við sjáum fyrir okkur að listaverk sem þetta yrði einstakt, ekki einungis hér á landi, heldur á heimsvísu. Þetta yrði áberandi verk sem mikill menningarauki yrði af, við myndum draga hingað mikinn fjölda ferðamanna og skapa bænum sérstæða og vonandi mjög jákvæða ímynd. Verkið yrði lýst upp og sökum staðsetningar sinnar mjög áberandi og með tímanum tákn Borgarness. Staðsetningin er auk þess tilvalin í ljósi þess að hugmyndir eru uppi um að Brákarey verði í framtíðinni menningarsvæði Borgnesinga,” sagði Ólöf Davíðsdóttir í samtali við Skessuhorn. Ólöf er eini íbúinn í Brákarey, vinnur við glerlist og rekur vinnustofu sína í eyjunni.

Hugmyndina segjast þau Ólöf og Sverrir hafa fengið fyrir um tveimur árum síðan, en hún var í fyrsta skipti kynnt sveitarfélaginu sl. föstudag. Óskaði Páll S Brynjarsson, bæjarstjóri eftir því við það tilefni að hugmyndasmiðirnir kynntu málið ítarlega fyrir menningarmálanefnd sveitarfélagsins því þannig fengi hugmyndin rétta málsmeðferð. “Við fyrstu sýn finnst mér hugmynd um Þjóðvörðu mjög áhugaverð bæði út frá staðsetningu og ekki síður hversu mikla sérstöðu þetta listaverk myndi fá í huga landsmanna ef vel tækist til,” sagði Páll.

 

Samkvæmt hugmyndum þeirra Ólafar og Sverris þá er fyrirhugað að fá styrktaraðila að verkinu sem greiddi/u ákveðna upphæð fyrir hvern þátttakanda í verkinu. Það framlag stæði undir kostnaði við rekstur verksins, þátttökuseðla þar sem fólk skrifaði nafn sitt, gerð flísanna, uppsetningu þeirra o.s.fv. Jafnframt er það þeirra hugmynd að sveitarfélagið kosti undirbúning verksins, klæði vatnstankinn, sjái um stígagerð og standi straum að öðrum undirbúningskostnaði.

Hugmyndin um Þjóðarvörðuna verður lagt fyrir menningarmálanefnd Borgarbyggðar á fundi þann 1. mars nk.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is