Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. apríl. 2006 02:06

Tveimur boðuðum framboðum meinuð þátttaka í umfjöllun NFS

Frjálslyndum og óháðum og Vinstri hreyfingunni-grænu framboði hefur verið tilkynnt að fulltrúar þeirra geti ekki tekið þátt í framboðsfundi sem sjónvarpsstöðin NFS stendur fyrir í kvöld á Akranesi. Ástæðan er sú að framboðslistar flokkanna hafa ekki verið kynntir. Á föstudaginn sagði fréttastjóri NFS að fulltrúar allra þeirra flokka er boðað hafa framboð í vor fengju að taka þátt í fundinum. Þingmaður Frjálslynda flokksins sakar sjónvarpsstöðina um að ganga erinda ráðandi afla og gera tilraun til að stýra kosningum í ákveðinn farveg.

 

Eins og fram kom í frétt á skessuhorn.is á föstudaginn hefur sjónvarpsstöðin NFS undirbúið undanfarna daga beina útsendingu frá framboðsfundi sem sjónvarpsstöðin heldur á Akranesi í kvöld. Meðal annars hefur Félagsvísindastofnun unnið að skoðanakönnun um fylgi flokkanna á Akranesi. Eins og fram kom í frétt skessuhorn.is varð að endurtaka könnunina að hluta þar sem spyrlum láðist að nefna nafn Frjálslynda flokksins þegar þeir töldu upp líkleg framboð. Í samtali við skessuhorn.is á föstudaginn sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri NFS að talað yrði í þættinum við fulltrúa allra þeirra flokka er boðað hafa framboð í vor. Á föstudaginn höfðu aðeins verið birtir listar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Síðan hefur Samfylkingin birt framboðslista sinn og á sunnudag héldu Frjálslyndir og óháðir stofnfund bæjarmálafélags á Akranesi. Vinstri hreyfingin-grænt framboð tilkynnti fyrir nokkru hver myndi skipa efsta sæti framboðslista flokksins en ekki hafa nöfn fleiri frambjóðenda verið kynnt.

 

Í morgun gerist það svo að Sigmundur Ernir tilkynnir þá ákvörðun að í umfjöllun stöðvarinnar í kvöld verði aðeins rætt við fulltrúa þeirra þriggja flokka er þegar hafa tilkynnt um framboð. Aðspurður hvað hafi breyst frá því á föstudaginn segir hann að um helgina hafi starfsmenn stöðvarinnar farið yfir málin og komist að þeirri niðurstöðu að miða einungis við þau framboð sem birt hafa framboðslista sinn þann dag er umfjöllun stöðvarinnar fari fram. Þannig sé gætt jafnræðis og sú hætta ekki fyrir hendi að framboð fái umfjöllun sem síðar bjóði ekki fram. Hann segir öll stjórnmálaöfl hafa haft nægan tíma til að ganga frá sínum framboðsmálum og því sé ekki í raun verið að ganga á rétt hugsanlegra framboða.

 

Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður og stjórnarmaður í Bæjarmálafélagi Frjálslyndra og óháðra á Akranesi segist forviða á ákvörðun fréttastjóra NFS. „Sigmundur Ernir staðfesti við mig í símtali á föstudaginn að framboð okkar fengi að taka þátt í þættinum eins og önnur boðuð framboð enda rennur framboðsfrestur ekki út fyrr en 5. maí. Mér finnst allt benda til þess að NFS hafi fengið þrýsting frá ráðandi öflum á Akranesi um að vera ekki að fjalla um þau framboð sem geta ruggað bátnum hér. Sá þrýstingur kemur ekki á óvart. Við þekkjum það vel að menn vilja sitja meðan sætt er. Að stöðin láti undan slíkum þrýstingi kemur mér meira á óvart“ segir Magnús Þór.

 

Hann segir allan undirbúning NFS fyrir fundinn í kvöld afar sérkennilegan. „Fyrst tekur Félagsvísindastofnun að sér að gera könnun og gleymir að nefna til sögunnar einn flokk.“ Það eru vinnubrögð sem ég mun án efa ræða við menntamálaráðherra á Alþingi. Síðar gengur stöðin á bak orða sinna og meinar ákveðnum flokkum þátttöku í umræðu á vegum stöðvarinnar. Það eru vinnubrögð sem dæma NFS algjörlega úr leik í frjálsri umræðu í þjóðfélaginu. Þarna er verið að stýra umræðunni í ákveðinn farveg. Þeir mega svo sannarlega skammast sín fyrir þessi vinnubrögð,“ segir Magnús Þór.

 

Aðspurður hvort nokkuð sé óeðlilegt við að binda umfjöllun við þau framboð sem komið hafa fram segir Magnús Þór það fullkomlega óeðlilegt. Nær hefði verið fyrir stöðina að geyma umfjöllun af þessu tagi þar til framboðsfrestur er runninn út.

 

Magnús Þór segir það deginum ljósara að ráðandi öfl í þjóðfélaginu hræðist málflutning Frjálslynda flokksins og þessi uppákoma í kringum NFS stappi stálinu í það fólk sem vilji breytingar á Akranesi í vor.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is