04. apríl. 2006 04:13
Siglingastofnun lét í byrjun mars koma fyrir öldudufli við vestanvert Snæfellsnes eða um 14,5 sjómílur frá Öndverðarnesvita. Það var lengi baráttumál Snæfells – félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi að slíku dufli yrði komið upp.
Á félagsfundi í Snæfelli fyrir nokkru samþykkti fundurinn að þakka Siglingastofnun sérstaklega fyrir fagleg og vönduð vinnubrögð við staðsetningu duflsins og gott samstarf við félaga í Snæfelli. Segir í ályktun fundarins að duflið sé mikið öryggistæki fyrir þá sem róa á Breiðafirði. Staðsetning þess tengi vel saman duflin við Garðskaga og Blakksnes og auki þannig öryggi sjófarenda þar á milli.