Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. apríl. 2006 12:20

Sinubrunar hafa bæði kosti og galla

Það eru ekki margir sem rannsakað hafa hagnýtt gildi eða skaðsemi sinubruna, þó svo sina hafi verið brennd frá upphafi Íslandsbyggðar. Árni Snæbjörnsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands vann um árabil við rannsóknir og kennslu á Hvanneyri. Lokaverkefni hans eða aðalritgerð til kandídatsprófs við framhaldsdeildina á Hvanneyri, var rannsóknarverkefnið: “Áhrif sinubruna á gróður og jarðvegshita,” og stóð það yfir frá 1965 til 1969 í Hvanneyrarlandi. Um það leyti sem síðustu glæðurnar í einum mestu sinueldum Íslandssögunnar voru að deyja vestur á Mýrum, var Árni tekinn tali þar sem hann var staddur ásamt konu sinni, Sigríði Héðinsdóttur í sumarbústað fjölskyldunnar í Hafnarskógi undir Hafnarfjalli.

 

 

Betri gróður til beitar

Árni segir svo frá: “Að brenna sinu er ævaforn siður víða um lönd, annarsvegar til að bæta land fyrir beit og rýma fyrir nýjum gróðri eða til að undirbúa jarðveg fyrir akuryrkju. Þannig var þetta hefðbundinn búskaparháttur bæði hér á Íslandi og erlendis. Tilraun mín var gerð á Hvanneyri, skipt var niður nokkrum reitum, sumir brenndir en aðrir ekki til samanburðar. Þessu fylgdu síðan margs konar mælingar. Mældur var og talinn allur gróður í reitunum fyrir brennslu, mælt hitastig og síðan endurtekið eftir bruna. Í þessari tilraun var verið að brenna land sem að mestu var vaxið hálfgrösum og heilgrösum. Þarna var ekki verið að brenna kjarr eða lyngmóa.”

Árni segir að við brennsluna hafi fjölgað heilgrösum sem eru eftirsóttari til beitar þar sem þau eru mun uppskerumeiri grös. “Þarna er e.t.v. skýringin á þessum gamla sið að brenna sinu. Á ákveðinni landgerð, meira í ætt við valllendi frekar en móa, varð gróðurinn heppilegri til beitar fyrir búfénað eftir sinubruna. Hitastig varð hærra því einangrun sinunnar á jörðu dró úr áhrifum sólar og birtunnar á vorin og svart landið sem líka varð opnara fyrir sólargeislanum, dró til sín hitann. Landið var því mun fljótara að taka við sér á vorin og varð fyrr grænt og skepnur sóttu því í það land. Köfnunarefnið í hinum brennda gróðri rauk hinsvegar í burtu, en askan sem varð til við brunann sat eftir og er jú steinefnaáburður.”

 

Freðin jörð skilyrði

Nú er það sem Árni hefur nefnt allt frekar jákvætt ef svo má segja, en er þá ekkert neikvætt við sinubruna? “Jú, vissulega. Á tilraunareitunum sem brenndir voru, var örlítið af lyngi og tveir víðirunnar, það fór hvorutveggja við tilraunina og var langan tíma að jafna sig. Það á því aldrei að brenna land þar sem er fjalldrapi, lyng einhvers konar eða runnagróður. Einnig er afar mikilvægt að jörð sé vel freðin þegar brennt er, það er í raun algjört skilyrði til að dýralíf moldarinnar skaðist sem allra minnst og moldin brenni ekki, því það er stórskaðlegt fyrir lífríkið.” Þannig segir Árni það ótvírætt að ef ekki eigi að nota land til beitar sé sinubruni óæskilegur.

“Þá er mikilvægt að hafa í huga að brenna ekki land þegar nálgast fer þann tíma að fuglar í náttúru landsins hefja undirbúning hreiðurgerðar. Bruninn þarf að vera afstaðinn og veðrun lands þarf að hafa átt sér stað eftir bruna til að fuglarnir vilji verpa þar. Sumar tegundir fugla kjósa hreiðurgerð í sinubrúskum og fara því annað ef brennt hefur verið á landinu.”

 

En hvað með loftmengunina, hversu mikil er hún og í hverju er hún fólgin? “Rannsókn á þessum þætti var ekki innifalin í rannsóknarverkefni mínu, en augljós er að gríðarleg loftmengun á sér stað við bruna af þessu tagi. En mengun af því tagi er tímabundin og því ekki varanleg og náttúran vinnur úr henni með tíð og tíma.”

Að lokum vill Árni leggja áherslu á að heimild til til að brenna sinu þarf að sækja til sýslumanns á hverju svæði.”

ÓG

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is