25. apríl. 2006 07:59
Lögregluliðin á suðvesturhorninu hafa staðið að sameiginlegu átaki sem miðar af því að koma í veg fyrir umferðarlagabrot og þá hættu sem þeim fylgir. Lögreglan á Akranesi sinnti um hundrað verkefnum í liðinni viku og þar af voru 47 sem sneru að umferðareftirliti. Fjórtán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og mældist sá sem hraðast ók á 130 km/klst. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km./klst. Fjórir umráðamenn vörubifreiða voru kærðir fyrir að leggja bílum sínum inn í íbúðarhverfum sem er með öllu bannað. Þá eiga tíu ökumenn von á sektum fyrir að nota ekki öryggisbelti og aðrir fimm voru kærðir fyrir að tala í farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsan búnað eins og skylda er.
Nýlega var maður dæmdur til þrjátíu daga fangelsisvistar og til greiðslu fimmtíu þúsund króna í málskostnað vegan réttindaleysis við akstur en hann hefur ítrekað verið tekinn fyrir ölvunarakstur og sviptur ökuréttindum. Maðurinn hefur áður hlotið 60 daga fangelsisdóm vegna brota af þessu tagi og því óhætt að segja að honum virðist erfitt að læra af reynslunni.