25. apríl. 2006 08:02
Á aukafundi sem haldinn var í sveitarstjórn Dalabyggðar í síðustu viku var samþykkt samhljóða að veita 15 milljóna króna styrk til byggingar reiðhallar í Búðardal og einnig að veita 400 þúsund króna árlegan styrk til rekstrar reiðhallarinnar í fimm ár. Það er Hestamannafélagið Glaður sem standa mun fyrir byggingunni og mun sækja um 30 milljóna króna styrk til landbúnaðarráðuneytisins. Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns ákvað ríkisstjórnin fyrir nokkru að styrkja gerð reiðhalla og reiðskemma í öllum landshlutum. Í kjölfarið hefur hafist mikið kapphlaup milli hestamannafélaga og sveitarfélaga um byggingu slíkra húsa.
Á fundi sveitarstjórnar kom fram að nú þegar liggi fyrir viljayfirlýsingar frá Grunnskólanum í Búðardal, Ungmenna- og tómstundabúðum á Laugum og Hjúkrunarheimilinu Fellsenda um notkun á húsinu. Jafnframt var lögð fram yfirlýsing frá Saurbæjarhreppi þar sem fram kemur að sveitarstjórn hreppsins er meðmælt því að sveitarstjórn Dalabyggðar samþykki styrkveitinguna og að einnig verði veittur árlegur rekstrarstyrkur frá sveitarfélaginu en sem kunnugt er hefur sameining Saurbæjarhrepps og Dalabyggðar verið ákveðin.
Styrkveiting Dalabyggðar er háð því skilyrði að styrkveiting ríkissjóðs fáist.