25. apríl. 2006 08:10
Í Stykkishólmi hafa um nokkurt skeið verið aldar landnámshænur í litlum pútnakofa í austurbænum. Eldið hefur fram til þessa gengið vel og það fór vel um hænsnin lengst af. En í ljósi aukinnar útbreiðslu fuglaflensu af skæðara tagi og aukins viðbúnaðarstigs dýralæknisembætta töldu ræktendur sér ekki lengur stætt á að ala hinn frjálsa stofn eingöngu í samræmi við þarfir hverrar hænu. Ræktendurnir, þær Sigurlína Sigurbjörnsdóttir og Anna S. Gunnarsdóttir, gripu þá til þeirra ráða að svifta púturnar frelsinu þar til flensan er gengin yfir. Aðbúnaður hænsnanna á þessu litla búi var hinsvegar hannaður með frelsi landnámshænunnar að leiðarljósi og stóð aldrei til að nýta hann sem sóttkví til lengri eða skemmri tíma. Það varð því úr að senda hænurnar sjö með flóabátnum Baldri yfir fjörð því samningar tókust við ábúandann á Brjánslæk, Ragnar Guðmundsson bónda og hafnarjarl, um að taka hænurnar í vistun þar til hættan verður gengin yfir.
Forystuhænan Borghildur og hinar sex tóku sér því far með nýja Baldri þriðjudaginn eftir páska og dvelja nú, eftir því sem næst verður komist, í góðu yfirlæti, innandyra á Brjánslæk.