Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. apríl. 2006 02:13

Lionsklúbbur Akraness fimmtíu ára

Lionsklúbbur Akraness fagnaði 50 ára afmæli sínu með hátíðarfundi í sal Tónlistarskóla Akraness sl. laugardag. Þar fór Jósef Þorgeirsson, formaður klúbbsins yfir sögu hans frá upphafi til dagsins í dag. Þjóðlagasveit Tónlistarskólans flutti nokkur lög og Guðmundur Freyr Hallgrímsson lék einleik á píanó.  Lionsklúbburinn færði nokkrum aðilum gjafir af þessu tilefni og nokkrir félagar í klúbbnum voru heiðraðir. Einnig fluttu ávörp Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri og Sigrún Björnsdóttir sem færði klúbbnum gjafir frá Lionsklúbbnum Eðnu á Akranesi.

 

Þeir aðilar sem Lionsklúbbur Akraness styrkti að þessu sinni voru Sjúkrahús Akraness sem fékk fjögur tæki að gjöf; sjúkralyftu á E – deild, stuttbylgjutæki, hljóðbylgjutæki og blóðhitara. Verðmæti þessara tækja var um 1300 þús. kr. Auk þess fengu fjórir aðilar peningastyrki. Það voru Dvalarheimilið Höfði, Tónlistarskóli Akraness, Björgunarfélag Akraness og Íþróttafélagið Þjótur, alls styrkir að fjárhæð 700 þúsund krónur.

 

Áhaldakaupasjóður stofnaður

Skessuhorn tók Jósef Þorgeirsson tali og bað hann að rekja í stuttu máli sögu og helstu verkefni klúbbsins. “Lionsklúbbur Akraness var stofnaður árið 1956. Stofnfélagar voru 15 og var fyrsti formaður Ólafur E Sigurðsson, útgerðarmaður. Gjaldkeri var Elías Guðjónsson, kaupmaður og ritari Jón Ben Ásmundsson, skrifst.maður. Einn stofnfélagi er enn starfandi í klúbbnum og er það Ármann Ármannsson, rafvirkjameistari. Verkefni klúbbsins hafa frá upphafi verið margvísleg, en 31. október árið 1958 var stofnaður svokallaður Áhaldakaupasjóður fyrir Sjúkrahús Akraness með það fyrir augum að styrkja sjúkrahúsið með gjöfum, tækjum og áhöldum. Það hlutverk hefur haldið alla tíð síðan og mikill fjöldi tækja sem klúbburinn hefur fært SHA. Til gamans má geta þess að fyrsta tækið sem klúbburinn gaf sjúkrahúsinu í desember 1958 var tæki til rannsókna á blóði og kostaði rúmar 7 þúsund krónur.” Lionsklúbbur Akraness hefur einnig um árabil verið styrktaraðili Íþróttafélagsins Þjóts og haldið m.a. eitt bocciamót á ári. “Samstarf við Þjót hefur verið mjög ánægjulegt og gefandi fyrir félagsmenn,” segir Jósef.

 

Mannúðarmál númer eitt

 

Hann segir að fjáraflanir klúbbsins hafi frá upphafi verið með ýmsu móti en árið 1964 fór klúbburinn að selja ljósaperur á haustin og varð sú sala um árabil aðal tekjulind klúbbsins en var hætt fyrir nokkrum árum síðan. “Nú er aðaltekjulindin leiga á ljósakrossum í kirkjugarðinum á aðventu og yfir hátíðirnar. Af öðrum tekjuöflunarleiðum má nefna sjóróðra, dansleiki, skemmtanir, happdrætti og sölu á jóladagatölum.”

Jósef segir klúbbinn tvívegis hafa staðið fyrir umdæmisþingum. Í fyrsta skipti árið 1960 og svo aftur 1996. Þriðja umdæmisþingið verður síðan haldið á Akranesi í júní á þessu ári og er búist við á þriðja hundruð gestum í bæinn af því tilefni.

“Klúbburinn beitti sér fyrir stofnun Lionessuklúbbs Akraness árið 1981 en þar með hófst farsælt starf kvenna að Lionsmálum á Akranesi. Lionessuklúbburinn varð síðan að Lionsklúbbnum Eðnu sem stofnaður var 20. maí 1997.”

Lionshreyfingin í heiminum hefur beitt sér fyrir ýmsum verkefnum: Hún hefur m.a. komið á fót sérstökum hjálparsjóði sem er mjög öflugur og hefur m.a. veitt framlag til Íslands þegar náttúruhamfarir hafa orðið. Einnig hefur Lionshreyfingin beitt sér fyrir verkefninu Loins Quest sem kennt er í skólum og miðar að því að hljálpa fólki til að segja NEI þó hópurinn vilji að það segi JÁ. Hefur þetta verkefni reynst vel í baráttunni gegn eiturlyfjum. Alþjóðlegt verkefni hreyfingarinnar er einnig sjónverndarverkefni sem nefnist Sight First, þangað sem safnað hefur verið milljónum dollara til að veita blindu fólki í þróunarlöndunum hjálp við að öðlast sjón á ný.

 

Þakklátir stuðningnum

“Kjörorð Lionshreifingarinnar er “Við leggjum lið” og þar reyna Lionsmenn fyrst og fremst að gera gagn í sínu nærumhverfi. En þetta starf verður marklítið og kæmi að litlum notum ef ekki nyti við öflugs stuðnings alls almennings, sem hefur tekið öllum fjáröflunum Lionsklúbbsins á Akranesi af mikilli rausn og á ég þá bæði við bæjarbúa og nágranna í næstu sveitum. Fyrir þetta erum við afar þakklátir,” sagði Jósef Þorgeirsson, formaður Lionsklúbbs Akraness að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is