Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. apríl. 2006 05:42

Bókasafn fyrir tæpan kvartmilljarð króna - utan fjárhagsáætlunar

Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að ganga frá kaupum á húsnæði undir Bókasafn Akraness fyrir um 240 milljónir króna þrátt fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir kaupunum í fjárhagsáætlun. Bæjarráðsmaður minnihlutans sakar meirihlutann um baktjaldamakk og telur óeðlilegt að málefni Bókasafns fari í forgang á meðan önnur brýnni verkefni bíða.

 

Að undanförnu hafa nokkrar umræður farið fram um húsnæðismál Bókasafns Akraness. Núverandi safnahús var byggt árið 1965 og er 1.057 fermetrar að stærð. Húsið er að brunabótamati tæpar 105 milljónir króna og tæpar 51 milljón króna að fasteignamati. Bókasafnið tók til starfa í þessu húsnæði þann 26. febrúar 1972. Þrátt fyrir að 34 ára sé ekki langur tími er núverandi húsnæði talið talsvert illa farið og samkvæmt bókun meirihluta bæjarráðs er talið að kostnaður við viðgerð á því nemi „tugum milljóna króna,“ svo vitnað sé í bókun meirihlutans.

 

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns hefur með nýju deiliskipulagi verið gert ráð fyrir því að núverandi húsnæði bókasafnsins verði endurinnréttað með íbúðum fyrir eldri borgara og segir í bókun meirihlutans að það verði gert í tengslum við nýja byggingu með þjónustuíbúðum fyrir aldraða á svæðinu.

 

Eins og áður sagði samþykkti bæjarráð á fundi í síðustu viku, að tillögu Kristjáns Sveinssonar og Magnúsar Guðmundssonar, að staðfesta kaupsamning við Smáragarð ehf. í Kópavogi um kaup á um 1.300 fermetra húsnæði í fasteign þeirri er nú rís við Dalbraut 1. Fyrir það húsnæði greiðir bærinn rúmar 240 milljónir króna. Helmingur þeirrar upphæðar greiðist er húsnæðið verður fokhelt og hinn helmingur upphæðarinnar verður greiddur við afhendingu þann 1. október. Í bókun meirihluta bæjarráðs segir að nýja húsnæðið verði hluti af uppbyggingu miðbæjarsvæðisins á Akranesi.

Að sögn Jóns Pálma Pálssonar, bæjarritara verður nýja húnæðið afhent fullbúið, það erallir milliveggir og gólfefni verða frágengin og sömu sögu er að segja af loftræsingu og rafmagns-, vatns og tölvulagnir. Hann segir starfsfólkið því einungis þurfa að flytja með sér skápa, bækur og búnað sem notaður er á bókasafninu í dag.

 

Þrátt fyrir að þarna sé um mjög mikla fjárfestingu að ræða, og aðeins séu liðnir tæpir fjórir mánuðir af gildistíma núverandi fjárhagsáætlunar, var ekki gert ráð fyrir þessum kaupum í áætluninni. Samþykkti meirihluti bæjarráðs því að vísa fjármögnun til endurskoðunar fjárhagsáætlunarinnar.

Guðrún Elsa Gunnarsdóttir bæjarráðsmaður minnihlutans lagði til að málinu yrði frestað til næsta fundar bæjarráðs en því var hafnað. Í bókun sem hún lagði fram mótmælir hún harðlega vinnubrögðum meirihlutans og segir minnihlutann ítrekað hafa óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir hvað ætti að gera við bókasafnshúsið ef breytingar yrðu gerðar á skipulagi svæðisins. “Fulltrúar meirihlutans hafa ekki haft manndóm í sér að horfa í augun á okkur og segja okkur sannleikann. Þeir hafa kosið að láta sem ekkert væri að gerast í þeim efnum og fullyrt í beinni útsendingu að það væri ekki verið að vinna bak við tjöldin. Annað er nú að koma í ljós og ljóst er að búið er að gera samning bak við tjöldin.” Og bæjarráðsmaður minnihlutans gagnrýnir ekki aðeins vinnubrögðin sjálf heldur gerir athugasemdir við að málefni bókasafns skuli með þessum hætti sett í forgang á meðan önnur brýnni verkefni bíða að hennar mati.  “Má þar nefna bæði leikskólabyggingu og tónlistarskóla svo nokkuð sé nefnt,“ segir í bókun minnihlutans. “Ég get ekki með nokkru móti sætt mig við slík vinnubrögð og hefði óskað að meirihlutinn hefði kynnt málið fyrir bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Það hefði verið algjör lágmarkskurteisi“ segir Guðrún Elsa að lokum í bókun sinni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is