27. apríl. 2006 05:43
Nemar á fyrsta ári í viðskiptalögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst hafa nýlokið skýrslu sem hluta af svokölluðu misserisverkefni sem nemendur skólans vinna í lok hvers misseris. Viðfangsefni skýrslunnar var að kanna eignarrétt landeigandans á Skipanesi í Leirár- og Melahreppi, þegar Orkuveita Reykjavíkur kemur sem þriðji aðili og leggur ljósleiðara um vegstæði Vegagerðarinnar á landi hans. Í skýrslunni segir m.a: “Landeigandinn á Skipanesi telur að Vegagerðinni sé ekki heimilt að ráðstafa landi sem hún hefur fengið veghald yfir til annarra nota en vegagerðar, nema með samkomulagi við sig.”
Landaeigandi hafði ekki búist við þessum kvöðum þegar hann samþykkti vegagerð á landinu á sínum tíma og telur því að forsendur þess samnings, sem gerður var fyrir um 70 árum þegar upphaflegi vegurinn var lagður, séu brostnar og því sé tilefni til ógildingar.
Við gerð skýrslunnar litu höfundar á íslenskt réttarfar og var eignarréttarákvæði Stjórnarskrár Íslands haft til hliðsjónar. Í 72 gr. stjskr. segir að eignarrétturinn sé friðhelgur með ákveðnum undantekningum sem eru; að almannaþörf krefji, lagaheimild þurfi til og að fullar bætur komi fyrir. Almannaþörf er grundvallaratriði til að hægt sé að skylda eiganda að láta af hendi eign sína og samkvæmt gögnum málsins telst það skilyrði ekki vera fyrir hendi í máli landeigandans á Skipanesi, þar sem annar ljósleiðarastrengur sé þar fyrir. Stjórnarskrá Íslands er æðsta réttarheimild Íslands og ákvæði hennar eru æðri almennum lögum, t.d vegalögum.
Því benda niðurstöður skýrslunnar til þess að Vegagerðin hafi ekki verið heimilt að ráðstafa landi í veghelgunarsvæði sínu til fjarskiptafyrirtækja og hefur hér augljóslega verið brotið á eignarrétti landeigandans á Skipanesi, eins og segir í skýrslunni.