28. apríl. 2006 02:49
Dalalamb ehf., sem rekið hefur sláturhúsið í Búðardal, var í fyrra rekið með tæplega 8,6 milljóna króna hagnaði að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu. Hjá félaginu var slátrað um 15.500 fjár og voru heildartekjur á árinu tæpar 107 milljónir króna. Slátrun hófst hjá félaginu síðastliðið haust en ekki fékkst heimild til slátrunar haustið 2004 þrátt fyrir að búið hafi verið að leggja í töluverðan kostnað vegna undirbúnings slátrunar. Vegna rekstrarafkomu ársins 2005 hefur félagið nú staðið að fullu í skilum með þann kostnað sem stofnað var til á árinu 2004 að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.
Þá hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um að greiða bændum 61 krónu fyrir hverja gæru vegna sláturtíðar haustið 2005. Greiðsla til bænda fer fram á næstunni. Lýkur þá fullnaðaruppgjöri við innleggjendur hjá félaginu.
Lokið er við endurbætur á húsnæði sláturhússins. Í kjölfar þess fékk það löggildingu og rekstrarleyfi sl. haust. Samkvæmt ársreikningi Sláturhússins í Búðardal ehf. 2005 og uppgjöri við verktaka nam heildarkostnaðurinn við endurbæturnar rúmum 66 milljónum króna og er fjármögnun lokið.
Fyrir sláturtíð 2005 var gerður samningur við Norðlenska um kaup á öllum afurðum Dalalambs ehf. Gekk það samstarf svo vel eftir að nú hefur verið gerður leigusamningur við Norðlenska matborðið um leigu á húsnæði sláturhússins í Búðardal til ársins 2015. Þannig mun Norðlenska taka yfir rekstur sláturhússins frá og með haustinu 2006. Mun því slátrun í haust fara fram á vegum Norðlenska matborðsins. Í tilefni af þessu bauð Norðlenska bændum í Dalasýslu í tveggja daga heimsókn til fyrirtækisins á Akureyri og Húsavík í mars sl.
Í fréttatilkynningunni segir að ætla verði að með áframhaldandi rekstri sláturhúss við hlið hins öfluga Mjólkursamlags í Búðardal sé hefðbundinn landbúnaður í Dalasýslu og nágrenni enn betur tryggður til framtíðar litið. „Ljóst er að með þessu er verið að tryggja nokkur ársstörf í Dalabyggð svo og mikla þjónustu við bændur á svæðinu,“ segir orðrétt.