Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. apríl. 2006 12:35

Formaður VLFA gagnrýnir stjórnvöld og forystu ASÍ

Í pistli sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness skrifar á heimasíðu félagsins, átelur hann harðlega íslensk stjórnvöld fyrir frumvarp til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins. Þá setur Vilhjálmur fram gagnrýni á forystumenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem hann segist fullviss um að hafi verið hafðir með í ráðum í aðdraganda þessarar lagasetningar. Telur Vilhjálmur gríðarmikla gjá hafa skapast milli ASÍ og grasrótarinnar í landinu vegna þessa máls.

 

Afgreiða mál án samráðs við félögin

Um lagasetninguna í síðustu viku segir Vilhjálmur m.a: “Það var svartur dagur fyrir íslenska launþega að Alþingi hafi sett þessi lög. Ég fór og fylgdist með annarri og þriðju umræðu um umrædd lög og þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fór í kjölfarið. Fram kom í máli þingmanna sem tóku til máls að umrædd lög hefðu verið gerð í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Það er mat mitt sem formanns Verkalýðsfélags Akraness að myndast hafi gríðarleg gjá á milli Alþýðusambands Íslands og aðildarfélaga þess, sé tekið mið af þeim umsögnum sem fjöldi stéttarfélaga skilaði inn til félagsmálanefndar Alþingis.  Það er orðið með öllu óþolandi hvernig ASÍ afgreiðir stór mál nánast einhliða og án þess að kanna hver sé afstaða stéttarfélaganna vítt og breitt um landið.  Nægir þar að nefna mál eins og endurskoðun á kjarasamningum sem fram fór í desember 2005, starfsmannaleigufrumvarpið og nú síðast málefni um frjálst flæði launafólks frá aðildarríkum ESS.  Eitt er víst að ekki var haft samband við Verkalýðsfélag Akraness hvað varðar þessi veigamiklu mál, hvorki af ASÍ eða Starfsgreinasambandi Íslands.”

 

Gagnrýnir ASÍ harðlega

Síðar í pistli sínum segir Vilhjálmur: “Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að sá gríðarlegi áhugi einstakra forystumanna ASÍ á inngöngu í Evrópusambandið hafi valdið því að ASÍ var fylgjandi þessu frumvarpi, því frjálst flæði launafólks er í samræmi við inngöngu í Evrópusambandið.  Það er ótrúlegt að ASÍ hafi ekki beitt sér að fullu afli gegn þessu frumvarpi í ljósi þess að stéttarfélög telja frumvarpið ganga á hagsmuni íslenskra launþega.  Það er einnig mat formanns félagsins að ef ASÍ hefði beitt sér að fullu afli fyrir því að fá stjórnvöld til að framlengja takmörkunum á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum ESS þá er allt eins líklegt að íslensk stjórnvöld hefðu gert það.”

Vilhjálmur segir að fjöldi þingmanna hafi við afgreiðslu frumvarpsins vitnað í umsagnir stéttarfélaga vítt og breitt um landið og voru þær umsagnir í algjöru ósamræmi við forystu Alþýðusambands Íslands. Segir hann að í umsögnum sem félagsmálanefnd Alþingis barst frá stéttarfélögum hafi komið fram að þau legðust gegn því að takmörkunum yrði aflétt og hér sé um töluverðan fjölda stéttarfélaga að ræða eins og t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Afl - Starfsgreinafélag Austurlands og Samiðn. “Einnig vitnuðu þingmenn í andstöðu við fyrirliggjandi frumvarp frá Eflingu og einnig hinar ýmsu ályktanir frá stéttarfélögum. Þess vegna er það formanni Verkalýðsfélags Akraness með öllu óskiljanlegt þegar talað er um að sátt ríki á meðal aðila vinnumarkaðarins,” segir Vilhjálmur.

 

Þrýstir á lækkun launa

Síðar í pistli sínum segir Vilhjálmur m.a: “Það sem aðallega kom fram í þessum umsögnum var að stéttarfélögin telja íslenskan vinnumarkað og íslensk stjórnvöld ekki tilbúin til að taka við því aukna flæði erlends vinnuafls frá hinum nýju aðildarríkjum EES. Það kom líka fram í umsögnunum að því markaðslaunakerfi sem væri búið að vera við lýði á undanförnum árum og áratugum væri ógnað með opnun íslensks vinnumarkaðar á þennan hátt. Til dæmis kom fram í umsögn Verkalýðsfélags Húsavíkur að félagið hefði heimildir fyrir því að pólskir verkamenn væru tilbúnir að koma og vinna í ferðaþjónustu fyrir einungis 300 kr. á tímann. Skemmst er að minnast þess þegar Verkalýðsfélag Akraness leiðrétti launakjör pólskra verkamanna sem störfuðu hjá Spútnik bátum. Voru þeir einungis með 350 kr. á tímann og unnu allt upp í 270 tíma á mánuði. Þetta er meðal þeirra atriða sem stéttarfélögin hafa verið að benda á. Með frumvarpi sem samþykkt var frá Alþingi í síðustu viku er einnig verið að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaga stórlega. Fram hefur komið í máli varaformanns Eflingar, Guðmundar Þ. Jónsson að tímakaup byggingarverkamanna hefur lækkað á síðasta ári um allt að 20% vegna aðkomu erlends vinnuafls inn á íslenskan vinnumarkað. Með öðrum orðum þá er það nákvæmlega þetta sem Verkalýðsfélag Akraness hræðist stórlega, þ.e. að íslenskir launþegar muni verða fyrir skerðingu á sínum launum vegna undirboða sem munu fylgja stórauknu framboði erlends vinnuafls frá láglaunasvæðum eins og Póllandi, Litháen, Slóvakíu og hinum aðildarríkjum EES. Stéttarfélögin sem veittu umsögn til félagsmálanefndar vildu að íslensk stjórnvöld nýttu sér þær heimildir sem þau höfðu til að framlengja takmarkanir á frjálsu flæði, sum til eins árs og önnur allt til ársins 2011 eins og heimilt var að gera. Vildu félögin að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins myndu nýta þann tíma til að búa til það regluverk sem til þarf vegna aðkomu erlends vinnuafls að íslenskum vinnumarkaði.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is