Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. maí. 2006 08:30

Framkvæmdastjóri Skagavers óhress með ummæli bæjarstjóra

Sveinn Arnar Knútsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Skagavers á Akranesi segir Guðmund Pál Jónsson, bæjarstjóra hafa farið með órökstuddar dylgjur í garð fyrirtækisins í frétt Skessuhorns um kaup á húsnæði fyrir bókasafn. Eins og fram kom í fréttinni var ein tillaga starfshóps um framtíðarstefnu í húsnæðismálum bókasafnsins sú að kannaður yrði vilji eigenda Skagavers um hugsanleg kaup bæjarins á húsnæði verslunarinnar. Aðspurður sagði Guðmundur Páll að ekki hefði verið leitað eftir kaupum á húsnæði Skagavers. Í samtali við Skesshorn í síðustu viku sagði hann ástæðuna þá að vegna fyrri viðskipta bæjarins við eiganda Skagavers hafi ekki verið talið líklegt að viðræður skiluðu ásættanlegri niðurstöðu.

 

Sveinn Arnar segist forviða á ummælum Guðmundar Páls og ekki hafa hugmynd um hvað bæjarstjórinn eigi við. „Ég veit ekki hvaða viðskipti bæjarstjórinn á við því þótt ótrúlegt megi virðast hafa þessir aðilar átt sáralítil viðskipti þá fjóra áratugi sem verslunin hefur starfað í bæjarfélaginu. Það er auðvitað rannsóknarefni í sjálfu sér hvernig á því stendur,“ segir Sveinn Arnar.  

 

Hann telur framgöngu bæjaryfirvalda í húsakaupamálum bókasafnsins ráðast af því að kosningar séu í nánd og því sé stjórnmálamönnum ekkert heilagt. „Bæjarstjóranum má vera það fullljóst að eigendur Skagavers eru ekki í framboði til bæjarstjórnarkosninga á Akranesi og af þeim sökum frábiðjum við okkur að vera bendluð við embættisfærslur bæjarstjórans og vandræðagang hans við réttlætingu á leynilegum viðskiptasamningum við utanaðkomandi fyrirtækjasamsteypur þar sem bæjarstjórinn virðir að vettugi góða stjórnsýsluhætti að mati löglega kjörinna bæjarfulltrúa,“ segir Sveinn Arnar.

Aðspurður segir Sveinn Arnar aldrei hafa verið leitað eftir hugsanlegum kaupum á húsnæði Skagavers þrátt fyrir að faglegur starfshópur hafi komist að þeirri niðurstöðu að húsnæðið gæti vel hentað fyrir bókasafn. „Það er bæjarstjóranum til minnkunar þegar hann reynir að réttlæta löngu gerða viðskiptasamninga sína, sem hann hefur leynt bæjarstjórn og bæjarbúa mánuðum saman, með órökstuddum dylgjum um meint fyrri viðskipti. Verslunin Skagaver hefur starfað í fjóra áratugi á Akranesi. Bæjarfélagið er einn stærsti viðskiptavinur verslana í bæjarfélaginu en þrátt fyrir það hafa viðskipti á milli Skagavers og bæjarins aldrei verið mikil enda hafa einhver önnur sjónarmið ráðið ferðinni í innkaupastefnu bæjarins en hagkvæmnissjónarmið.“

 

Sveinn Arnar segir samskipti bæjarins og Skagavers hins vegar hafa verið nokkur í gegnum tíðina sérstaklega í skipulagsmálum. “Þá sögu væri áhugavert að rifja upp en hún er bæjaryfirvöldum ekki til framdráttar.

Bæjarstjóranum væri nær að segja satt og rétt frá þannig að öll sagan verði sögð, hvort hann sé með risavöxnum fjárskuldbindingum bæjarfélagsins á Skagaverstúninu að hugsa um sérhagsmuni samstarfsaðila sinna eða almannahagsmuni. Fram hafa komið miklar efasemdir frá bæjarfulltrúum um að samningurinn um kaup á húsnæði undir bókasafn sé hagkvæmur bæjarfélaginu“.

 

Sveinn Arnar segir Skagaver ekkert hafa að fela í samskiptum sínum við bæjarfélagið. „Ég skora á bæjarstjórann að upplýsa um þessi viðskipti sem hann vísar til. Við þurfum enga leynd eins og ríkt hefur í húsnæðismálum bókasafnsins. Svo mikil var leyndin að löglega kjörnir bæjarfulltrúar kaupstaðarins höfðu enga hugmynd um að verið væri að skuldbinda bæjarsjóð fyrir mörg hundruð milljónir króna inn í framtíðina á einum dýrasta stað í bæjarfélaginu. Slíkt og annað eins á sér vonandi ekki hliðstæðu í nútíma samfélagi þar sem reiknað er með að leikreglur lýðræðisins séu virtar. Það er ekki stórmannlegt að bjarga sér úr vandræðum með því að skrökva,“ segir Sveinn Arnar að lokum. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Dalabyggð

Framtíð Breiðafjarðar

Framleiðnisjóður Landbúnaðarins

Fram á völlinn

Grundarfjarðarbær

Fundaröð um vegamál á Vesturlandi

Grundarfjarðarbær

Bæjarstjórnarfundur

Dalabyggð

Sveitarstjórn Dalabyggðar - 181. fundur

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is