Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. júní. 2006 07:52

Sjómannadagshátíðarhöld á Vesturlandi

Hátíðarhöld munu verða í allflestum sjávarplássum á Vesturlandi í tilefni Sjómannadagsins eins og venja er, en þó mismikil.  Í Stykkishólmi hefur verið ákveðið að þetta árið verði ekki hefðbundin hátíðarhöld í bænum, en að venju verður blómsveigur lagður að minnisvarða um látna sjómenn í kirkjugarðinum og sjómannamessa verður í Stykkishólmskirkju. Björgunarsveitin Berserkir verður með kaffisölu og stendur hún fram eftir degi. Nýja Breiðafjarðarferjan Baldur verður formlega vígð og er bæjarbúum boðið í siglingu með Baldri. Á Fimm fiskum verður sjómannadagsmatseðill og lifandi músik á laugardagskvöldið.

Sjá Grundarfjörð, Snæfellsbæ og Akranes hér að neðan.

 

Grundarfjörður

Í Grundarfirði hefst sjómannadagsdagskrá á laugardeginum með messu í Grundarfjarðarkirkju og lagður verður blómsveigur að minnisvarða látinna sjómanna. Frá kirkju verður farið í skrúðgöngu með Lúðrasveit Verkalýðsins í fararbroddi til hafnarsvæðisins. Þar mun heljarinnar hefðbundin skemmtidagskrá fara fram, þar sem meðal annars verður att kappi í þrautabraut, koddaslag og stakkasundi.

Fótboltaleikur milli G. Run manna, áhafna Hrings og Helga á móti Sæbóli ehf. mun fara fram á laugardaginn. Um kvöldið verða svo sjómannaskemmtanir á Kaffi 59 og Krákunni. Grundfirðingar hefja sunnudaginn á skemmtisiglingu og er í land verður komið hefst fjölskylduskemmtun við sundlaugina og þar sem stólað er inn á skemmtun fyrir yngri kynslóðina. Sjómannadagshátíðarhátíðarhöld í Grundarfirði eru skipulögð í samvinnu Sjómannadagsráðs og Björgunarsveitarinnar Klakks.

 

Snæfellsbær

Í Ólafsvík hefst sjómannadagshelgin með opnun málverkasýningar Sesselju Tómasdóttur sem heimamenn þekkja vel sem innfæddan Ólsara. Laugardagurinn hefst með umræðufundi um sjávarútveg og mun Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra mæta á fundinn, en hann verður haldinn á Hótel Ólafsvík. Við höfnina í Ólafsvík á laugardag veður boðið upp á skemmtun af ýmsum toga, kappróður, reiptog, brettahlaup og margt fleira. Sjómannahóf verður á hótelinu um kvöldið. Á sunnudag verður blómsveigur lagður við minnisvarða látinna sjómanna í Sjómannagarði, sjómenn heiðraðir og verður ræðumaður dagsins Páll Ingólfsson. Ef veður leyfir mun sjómannamessa fara fram í Sjómannagarði en ef ekki viðrar til þess verður gengið úr garðinum til kirkju. Kaffisala verður hjá Slyslavarnarkonum og haldið verður í skemmtisiglingu seinnipart sunnudags. Að skemmtisiglingu lokinni verður öllum bæjarbúum og gestum boðið í grill við Þorgrímspall.

Í Rifi og á Hellissandi verður Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur eins og venja er. Á laugardag fara keppnisgreinar fram á Rifi. Dagskrá sunnudagsins hefst með sjómannamessu að Ingjaldshóli og þar verður lagður blómsveigur til minningar látinna sjómanna. Hátíðarhöld verða í Sjómannagarðinum á sunnudag þar sem heiðraður verður aldraður sjómaður, verðlaunaafhending mun fara fram og fleira. Árleg kaffisala Slysavarnarfélagsins Bjargar verður í Röstinni að dagskrá lokinni. Í félagsheimilinu Röst verður svo sjómannadansleikur ásamt fjölda skemmtiatriða.

 

Akranes

Á Akranesi mun hátíðin Hátíð hafsins verða haldin á laugardag. Markaðsstemning verður á hafnarsvæðinu þar sem meðal annars verður til sölu fiskur í soðið. Gamla Akraborgin, sem nú ber nafnið Sæbjörg, mun koma frá Reykjavík og leggja að við höfn á Akranesi. Tekið verður á móti þessari gömlu vinkonu allra Skagamanna með lúðrablæstri Skólahlómsveitar Akraness, er hún siglir inn hafnarmunnann og leggur að. Meðan hún staldrar við gefst gestum og gangandi tækifæri á að skoða hana og rifja upp allar þær minningar um hana sem í hjörtum fólks eru. Margvísleg tónlistar-, söng- og leikatriði verða í boði fyrir unga sem aldna. Keppni í kappróðri, kraftakeppni og fiskisúpu keppni verða attar við bryggjuna. Björgunarfélag Akraness býður upp á sjómannaþrautir í og við höfnina, kaffisala Slysavarnarkvenna verður í Jónssbúð og Sjómannadagsráð býður upp á grill og annað góðgæti við höfnina. Fiskar og furðudýr verða til sýnis á hafnarsvæðinu, hoppukastalar, sprell-tívolí, trampólín og margt annað skemmtilegt verður í boði fyrir börnin. Einnig munu félagar í smábílaklúbbnum sýna listir sína með fjarstýrða bíla og dorgveiði verður á bryggjunni. Að kvöldi laugardags verður Fiskiveislan vinsæla haldin á Safnasvæðinu á Görðum. Messað verður að vanda í Akraneskirkju á Sjómannadag, þar sem sjómenn verða heiðraðir og að messuhaldi loknu mun verða gengið að minnisvarða sjómanna á Akratorgi og þar lagður blómsveigur til heiðurs látinn sjómanna. Hátíð Hafsins er skipulögð af Markaðsskrifstofu Akraneskaupstaðar í samstarfi við Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð Akraness, Sjómannadagsráð Reykjavíkur og Höfuðborgarstofu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is