Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. júní. 2006 10:36

Grámóska á lofti og í leik

ÍA tapaði í gær enn einum leiknum í Landsbankadeildinni í knattspyrnu, nú fyrir Víkingum 1-4, og vermir enn botnsætið. Liðið hefur nú leikið níu leiki, unnið tvo og tapað sjö. Ljóst er að mikið þarf að breytast ef liðið ætlar sér ekki að falla niður í fyrstu deild. Mótið er hálfnað en það er bót í máli að ekki er mjög langt í næstu lið. Breiðablik er í næstneðsta sæti með tíu stig og þrjú lið þar fyrir ofan með ellefu.

 

Það var grámóskulegt yfir að líta þegar flautað var til leiks sl. miðvikudag. Einstaka regndropi féll af þungbúnum himni. Ekki var laust við að þessa gætti einnig í leiknum en hann einkenndist af miðjumoði. Skagamenn byrjuðu betur og strax á 5. mínútu átti Pesic þrumuskot úr aukaspyrnu langt úti á velli sem bjargað var í horn. Þremur mínútum síðar komst Hjörtur í gott færi en átti lélegt skot. Það var eins og köld vatnsgusa framan í ÍA þegar Víkingur komst yfir á 11. mínútu. Liðin skiptust á að sækja eftir markið en ÍA átti mun betri færi. Það var síðan á 38. mínútu að Jón Vilhelm jafnaði metinn fyrir ÍA eftir laglega rispu Hjartar upp hægri kantinn. Skaginn var nálægt því að komast yfir nokkrum mínútum síðar þegar Guðjón Heiðar átti gott skot sem var varið í horn og upp úr því skaut Hjörtur rétt framhjá. Í heildina litið var ÍA betra liðið í hálfeiknum og hefði átt skilið að vera yfir, en leikmenn nýttu færin sín illa og því stóð jafnt í hálfleik.

 

Enn einu sinni gerðist það að Skagamenn komu daufir í seinni hálfleik. Leikurinn var lengi í gang og einkenndist af baráttu á miðjunni. ÍA átti sína fyrstu alvöru sókn þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum og enn var það Jón Vilhelm sem átti góðan sprett. Þá færðist líf í leik Skagans, Þórður átti gott skot eftir samspil við Jón Vilhelm og Bjarni fékk upplagt skotfæri en varnarmaður komst fyrir. Skömmu síðar átti Pesic gott skot eftir góðan sprett Þórðar. Á 68. mínútu komust Víkingar hins vegar yfir og þá var eins og allur vindur væri úr liði ÍA. Ólafur Þórðarsson skipti tveimur mönnum inn á, Hafþóri Ægi Vilhjálmssyni og Andra Júlíussyni fyrir þá Hjört Hjartarson og Guðjón Heiðar Sveinsson. Það breytti engu og fjórum mínútum síðar komst Víkingur í 1-3 eftir algjöran sofandahátt hjá öftustu varnarlínunni. Bjarki Gunnlaugsson kom inn á fyrir Bjarna Guðjónsson sem var allt annað en sáttur við að vera skipt út af. Bjarki kom með örlítinn frískleika í leikinn en það breytti þó ekki miklu. Víkingur bætti síðan marki við þegar komið var tvær mínútur fram yfir venjulegan leiktíma, en þá var eins og leikmenn ÍA væru hættir í leiknum.

 

Það er ljóst að eitthvað róttækt verður að gera í herbúðum ÍA. Liðið sýndi þó á köflum ágætis samspil og menn voru mjög hreyfanlegir, sérstaklega Jón Vilhelm og Guðjón Heiðar sem skiptu reglulega um stöður. Hjörtur átti fína spretti og Pesic sýndi gott fordæmi með mikilli baráttu, nokkuð sem vantaði sárlega meira af hjá mörgum leikmönnum.

 

Þrátt fyrir grámóskulegt yfirbragð á Skaganum mátti víða sjá glytta í heiðskýran himinn og undir lok leiks mátti sjá bjart yfir í fjarskanum. Vonandi á það líka við um leik ÍA að framundan sé bjartviðri. Á því þurfa Akurnesingar sárlega að halda.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Grundarfjarðarbær

Matarklasi - stofnfundur 23. janúar

Grundarfjarðarbær

Sorphirða

Grundarfjarðarbær

Aðalskipulag Grundarfjarðar - tillaga

Grundarfjarðarbær

Hunda- og kattahreinsun

Dalabyggð

Sælingsdalslaug lokuð

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is