01. ágúst. 2006 06:32
Byggðaráð Dalabyggðar sat nýverið kynningarfund með fulltrúum Nýsis hf. þar sem þeir lýstu yfir áhuga sínum á að koma upp níu holu golfvelli að Laugum í Sælingsdal. Nýsir hefur gert samkomulag við sveitarfélagið um uppbyggingu sumarbústaða þar og leigir land af sveitarfélaginu í því skyni. Samkvæmt samningnum á uppbygging sumarhúsanna að hefjast í ár. Fundurinn var eingöngu kynningarfundur og engar ákvarðanir hafa verið teknar um málið. Það er hins vegar mikill áhugi hjá báðum aðilum um að koma verkefninu á fót og er sveitarfélagið jákvætt í garð þess.
Hugmyndirnar ganga út á að Dalabyggð útvegi land undir golfvöllinn en allar framkvæmdir og rekstur verði í höndum Nýsis. Sama fyrirkomulag hefur verið í Þorlákshöfn þar sem Nýsir hefur komið upp golfvelli. Völlurinn yrði öllum opinn þó hann yrði í tengslum við sumarhúsabyggðina. Samþykki byggðaráð Dalabyggðar hugmyndina gæti völlurinn verið kominn í gagnið 2009-2010.