01. ágúst. 2006 05:52
Hafnar eru framkvæmdir við gerð nýrrar stálþilsbryggju í Grundarfirði en hún mun leysa af hólmi litlu bryggjuna. Nýja bryggjan verður mun stærri en sú eldri um 65 metra löng annarsvegar og 85 metra löng hinsvegar og 20 m breið. Tæplega 50 metra löng jarðvegsfylling er út að nýju bryggjunni. Verktakafyrirtækið Berglín, sem var lægst í útboði verksins fyrr í vor með tilboð uppá tæpar 84 milljónir króna, sér um framkvæmdina. Til að minnka ónæði bæjarbúa vegna framkvæmdarinnar var lagður vegur í fjörunni milli hafnargarðs og Nesvegar og nota verktakar þá leið til að flytja efni til bryggjugerðarinnar úr námunni við iðnaðarsvæðið. Þessum hluta verksins verður lokið 1. desember í vetur. Þekja á nýju bryggjuna verður steypt á árinu 2007.