07. ágúst. 2006 11:54
Undanfarið hefur nokkuð borið á því að ungir ökumenn sæki í framkvæmdasvæðið í gamla bæjarhlutanum í Borgarnesi og þenji bíla sína þar. Mikill hávaði og læti hafa fylgt þessu og oftar en ekki eru nokkur umferðarlög brotin á hverju kvöldi. Lögreglan í Borgarbyggð hefur haft í nógu að snúast með að eltast við ökuþórana ungu og hefur orðið nokkuð ágengt. Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Skessuhorn að árgangarnir sem fá bílpróf séu nokkuð misjafnir og nú hafi óvenju mikið farið fyrir nokkrum nýjum ökumönnum. Lögreglan hafi hert eftirlit með ákveðnum ökumönnum og hafi þá á skrá hjá sér. Þá hefur lögreglan rætt við foreldra ungra ökumanna sem ítrekað eru staddir að glannaakstri.
Theódór segir að slíkur akstur geti valdið hættu og tjóni á bifreiðunum auk þess sem ökumenn sem teknir eru safna sér punktum. “Þeir ættu að muna það að þeir eru með ökuskírteini til reynslu. Það er síðan sýslumanns að ákveða hvort þeir fái skírteini til frambúðar að tveimur árum liðnum. Sé til stór skrá um brot ökumanna og þeir hafi safnað sér mörgum punktum hefur það áhrif á þá ákvörðun,” segir Theódór.
Hann segir allt of algengt að lögreglan þurfi að taka að sér uppeldishlutverk. Sumir virðist fá að valsa áfram tiltölulega óáreittir af foreldrum og skólakerfinu þar til þeir lenda á þeim vegg sem lögreglan er. “Þá erum við stundum klagaðir fyrir mömmu og pabba. Sumir þurfa svo að reka sig nokkrum sinnum á áður en þeir trúa því að þeir þurfi á einhvern hátt að breyta hegðun sinni,” sagði Theodór að lokum.