14. ágúst. 2006 04:58
Fyrir nokkru síðan tók til starfa starfshópur á vegum Akraneskaupstaðar sem vinna skal að húsnæðismálum Tónlistarskóla Akraness. Sem kunnugt er ákvað núverandi meirihluti bæjarstjórnar Akraness að hverfa frá þeirri stefnu að Bókasafn Akraness flytti í nýbyggingu á miðbæjarreit og þess í stað yrði skoðað hvort það húsnæði henti undir starfsemi Tónlistarskólans. Starfshópinn skipa auk bæjarstjóra, skólastjóri Tónlistarskólans og sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs bæjarins. Þetta kom fram í svari Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra við fyrirspurn minnhluta bæjarráðs.
Fram kemur að rýmisþörf byggist á mati skólastjóra og starfsmanna skólans en umrætt húsnæði er um 1.300 fermetrar að stærð. Þá hefur Elín G. Gunnlaugsdóttir arkitekt hjá Skapa og Skerpu arkitektum verið ráðin til að vinna að hönnun og undirbúningi framkvæmda á grundvelli þess sem starfshópurinn mun leggja til.
Minnihluti bæjarráðs óskaði eftir því að lögð verði fram kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna en bæjarstjóri sagði í svari sínu að sú áætlun lægi ekki fyrir þar sem hún sé í vinnslu.