17. ágúst. 2006 02:49
Göngugarpurinn Jón Eggert Guðmundsson sem verið hefur á göngu hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélaginu var staddur í Hvalfjarðarsveit í gær í blíðskapar veðri. Er blaðamaður Skessuhorns hitti kappann var hann á göngu við Saurbæjarhlíð á Hvalfjarðarströnd. Jón Eggert stefnir að því að ljúka strandvegagöngunni nk. laugardag en þá er hann væntanlegur til Reykjavíkur. Að strandvegagöngunni lokinni á hann að baki 3446 kílómetra sem hann hefur gengið og til gamans má geta þess þá samsvarar sá fjöldi kílómetra um það bil 82 maraþonhlaupum.
Síðastliðið sumar hélt Jón af stað í gönguna og gekk hann þá frá Reykjavík til Egilsstaða og 6. maí í vor hélt hann þaðan af stað aftur.
Jóni Eggert þótti afar fagurt um að lítast í Hvalfirði enda sjórinn spegilsléttur, glampandi sólskin og fjöllin allt í kring skörtuðu sínu fegursta.