18. ágúst. 2006 08:52
Um þessar mundir eru 76 manns á biðlista eftir námi í Tónlistarskólanum á Akranesi. Þetta kemur fram í svari Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra við fyrirspurn frá Sveini Kristinssyni bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar. Í svari Gísla kemur fram að flestir bíða eftir námi í gítarleik eða 21 að tölu. Eftir námi í slagverksleik bíða 17 manns og 13 bíða eftir námi í rafgítar- eða rafbassaleik og 12 bíða eftir námi í píanóleik. Nemar í Tónlistarskólanum eru að jafnaði í kringum 300 talsins og biðlistinn því um fjórðungur nemendafjöldans.
Í samtali við Skessuhorn segir Gísli biðlista þennan með öllu óviðunandi í samfélagi sem vilji vera í fararbroddi í menntamálum enda hafi núverandi meirihluti bæjarstjórnar einsett sér að bæta þarna úr þannig að biðlistinn hverfi á næstu misserum. Eins og fram hefur komið í fréttum eru uppi hugmyndir um að tónlistarskólinn flytji í húsnæði það sem Akranesbær keypti í nýbyggingu á miðbæjarreit og var áður ætlað undir starfsemi bókasafnsins. Gísli segir leitt til þess að vita hversu víða biðlistar hafi myndast eftir þjónustu sveitarfélagsins í tíð fyrrverandi meirihluta og bæjaryfirvöld muni á næstunni beita öllum sínum kröftum til þess að þessir biðlistar hverfi.