20. ágúst. 2006 11:28
Skagamenn eru enn í næstneðsta sæti Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu eftir að 14. umferðin var leikin í kvöld. Mikið var skorað í leiknum og urðu lokatölur hans 3-3. Skagamenn réðu lögum og lofum á vellinum í fyrri háflleik og hefðu vel getað skorað fleiri mörk en þau tvö sem litu dagsins ljós. Guðjón H. Sveinsson skoraði fyrra markið í hálfleiknum eftir góða sendingu frá Arnari Gunnlaugssyni strax á sjöundu mínútu. Bjarni Guðjónsson bætti síðan öðru marki við með mögnuðu skoti beint úr aukaspyrnu.
Það var allt annað að sjá til Fylkis eftir hálfleik og liðið jafnaði metin eftir fimm mínútna leik. Þar var að verki Sævar Þór Gíslason. Fylkismenn sóttu meira eftir markið en Heimir Einarsson kom ÍA hins vegar í tveggja marka forystu þegar hann skoraði, að því er virtist, með hnakkanum. Skondugt mark en það taldi og Skagamenn í vænlegri stöðu.
Haukur Ingi Guðnason minnkaði hins vegar muninn innan við mínútu síðar. Skagamenn vildu fá dæmda aukaspyrnu á Hauk, enda virtist hann klifra upp á Igor Pesic til að komast í boltann. Örfáum mínútum síðar bætti Haukur svo öðru marki við og jafnaði metin fyrir Fylki og úrslit leiksins urðu 3-3.
Skagamenn eru sem fyrr segir í næstneðsta sæti deildarinnar með 14 stig, jafn mörg og ÍBV sem lagði Grindavík í kvöld. Grindavík og Breiðablik eru í 7. og 8. sæti með 17 stig og Fylkir og Víkingur með 20 stig þar fyrir ofan. Þrír leikir eru eftir af deildinni og á ÍA eftir að leika við Keflavík heima, Breiðablik úti og Víking úti. Það er því ljóst að liðsins bíður barátta upp á líf og dauða fyrir sæti sínu á meðal þeirra bestu.