22. ágúst. 2006 06:21
Veiðimaðurinn á þessari mynd er norðmaður sem nú um helgina var við fluguveiðar við annan mann á Seleyri, sunnan Borgarness. Veiðimönnum sem stunda fluguveiðar í fersku vatni hefur fjölgað með hverju árinu sem líður enda er um holla útivist og gott sport að ræða sem getur hentað öllum fjölskyldumeðlimum. Hinsvegar hefur ekki verið mikið um slíkar veiðar í söltu vatni en þó er þeim að fjölga sem reyna slíkt.
Tveir norðmenn sem hafa ferðast um landið gagngert til fluguveiða undanfarna 9 daga leist vel á aðstæður á Seleyrinni um helgina og reyndu fyrir sér í veiði á þessum fallega degi. Seleyrin hefur notið vinsælda veiðimanna um árabil og hafa margir Borgnesingar verið duglegir að nýta sér þessa veiðiparadís sumarlangt enda ekki langt að fara til að krækja sér í nýjan silung í soðið.