23. ágúst. 2006 08:31
Samþykkt var á fundi skipulagsnefndar Stykkishólmsbæjar fyrir nokkru að rífa fyrrverandi húsnæði Slökkviliðs Stykkishólms á Aðalgötu 6a og er það gert í samræmi við miðbæjarskipulag. Húsið sem byggt var árið 1960 af Finni Sigurðssyni múrarameistara er hlaðið á steyptum grunni en húsið er það fyrsta á Íslandi sem byggt var sem slökkvistöð. Rými var í húsinu fyrir tvo slökkvibíla, fundaraðstaða fyrir slökkviliðsmenn, tvö salerni, ásamt afdrepi fyrir slökkviliðsstjóra. Þá var einnig gert ráð fyrir herbergi til hleðslu á slökkvitækjum.
Að sögn Þorbergs Bæringssonar slökkviliðsstjóra í Stykkishólmi er húsið orðið mjög illa farið. Þegar það var byggt var ekki grafið undan gólfplötu þess og hefur gólf því sigið undan bílunum ásamt því að þakið er orðið mjög lekt. Um tíma var hluti hússins nýttur vegna gæsluvallar sem var á svæðinu, kennsluhúsnæði fyrir Iðnskólann á sínum tíma, vöruafgreiðslu og til ýmissa annarra nota. Slökkvilið Stykkishólms flutti í nýtt húsnæði ásamt Björgunarsveitinni Berserkjum í lok árs 2002.