25. ágúst. 2006 07:32
Næstkomandi sunnudag, 27. ágúst munu ný húsakynni Borgarness kjötvara ehf. að Vallarási 7-9 í Borgarnesi verða vígð við athöfn sem hefst klukkan 13:30. Af þessu tilefni býður fyrirtækið íbúum héraðsins og öðrum velunnurum að vera við vígsluna. Það verður Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins sem mun klippa á borða til marks um það að húsið sé tekið í notkun. Þá mun sönghópurinn Silfurrefirnir flytja nokkur lög, stjórnarformaður BK flytur ávarp og almenn kynning verður á byggingunni. Opið hús verður milli kl. 13:30 og 16 og geta áhugasamir skoðað húsið undir leiðsögn starfsmanna Borgarness kjötvara og Stjörnusalats.
Veitingar verða í formi framleiðsluvara félagsins auk þess sem boðið verður upp á tertu að hætti Geira bakara.
Nýja húsið stendur við Vallarás í nýju matvælavinnsluhverfi ofan Borgarness. Sólfell hf. var alverktaki við byggingu hússins sem alls er rúmir 1900 fermetrar að flatarmáli.
Að sögn Björns Bjarka Þorsteinssonar, markaðsstjóra BK verður strax eftir næstu helgi hafist handa við flutning starfseminnar frá Brákarey og í Vallarás. Hluti framleiðslutækja verður nýttur áfram. Stefnt er að því að flutningi verði að fullu lokið í annarri viku og að framleiðsla geti þá hafist af fullum krafti. Að sögn Björns Bjarka eru verkefni fyrirtækisins ærin um þessar mundir og því verður lögð áhersla á að flutingur taki eins skamman tíma og kostur er.