23. ágúst. 2006 10:03
Penninn hefur fest kaup á Bókabúð Andrésar á Akranesi. Fyrirtækin hafa verið í samstarfi um nokkra hríð, sem m.a. felst í því að bókabúðin hefur nýtt sér vörur og markaðsefni frá Pennanum. Fyrrum eigandi verslunarinnar, Steinunn Ólafsdóttir, flyst til Reykjavíkur og tekur við verslunarstjórastarfi hjá Pennanum í haust. Um leið tekur Jóhanna Elva Ragnarsdóttir við stjórnartaumunum þar sem hún hefur starfað hjá verslununni um árabil. Engar róttækar breytingar eru fyrirhugaðar, en verslunin á Skaganum mun njóta góðs af aukinni samvinnu við verslanir Pennans um land allt. Sama vöruúrval verður á boðstólum og í verslunum Pennans á höfuðborgarsvæðinu og á sama verði og er ætlunin að auka þjónustustigið.
Samningar milli Pennans og fyrri eigenda eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlits, sem hefur kaupin til skoðunar, en skylda er að tilkynna öll kaup af þessari stærðargráðu til eftirlitsins.