23. ágúst. 2006 09:38
Eftir því sem lengra líður á ferðalag þremenninganna sem hófu áheitaakstur til styrktar Samtökum krabbameinssjúkra barna í Reykjavík á mánudagsmorgun aukast líkurnar á því að þeim takist ætlunarverk sitt, en það er að aka allan hringveginn á einum eldsneytistanki. Þau Stefán Ásgrímsson frá FÍB, sem er bílstjóri í þessari ferð, Óskar Örn Guðbrandsson frá Samtökum krabbameinssjúkra barna og Þuríður Arna, fjögurra ára gömul dóttir Óskars komu í gærkvöldi á Kirkjubæjarklaustur og eiga því aðeins eftir tæplega 260 kílómetra til að ljúka hringnum. Ef eldsneytið dugar gera þau ráð fyrir að ljúka ferðinni við aðalstöðvar Heklu við Laugaveg upp úr hádegi í dag, miðvikudag en þau lögðu upp í lokaáfangann frá Kirkjubæjarklaustri laust eftir klukkan átta í morgun.
Þau aka á nýjum Skoda Octavia með TDI® dísilvél frá Heklu sem er mjög sparneytinn á eldsneyti. Á fyrsta áfanga leiðarinnar frá Reykjavík til Akureyrar reyndist meðaleyðslan vera 3,6 lítrar á hverja hundrað kílómetra en í gær jókst eyðslan heldur og var að jafnaði 3,9 lítrar enda þá ekið um meiri fjallvegi. Þegar komið var á Kirkjubæjarklaustur í gærkvöldi sýndi eldsneytismælirinn að enn var talsvert eldsneyti eftir á geymi bílsins og því góð von til að ætlunarverkið takist og að samtökin fá nýjan Skoda frá HEKLU til afnota í heilt ár.
Að sögn Óskars Arnar hefur ferðin sóst hægt en örugglega og væsir ekki um þau í bílnum. „Þuríður Arna hefur staðið sig eins og hetja og virðist ekki kippa sér upp við það þótt þessi ökuferð sé orðin nokkuð löng, enda er hún alvön að ferðast í bíl” sagði Óskar Arnar þegar komið var á áfangastað í gærkvöldi.