Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. ágúst. 2006 02:13

Tvöföldun Vesturlandsvegar orðið brýnt hagsmunamál

Í liðinni viku urðu nokkur mjög alvarleg umferðarslys á þjóðvegum landsins þar sem fólk lét lífið og aðrir slösuðust alvarlega. Ekki er ofsögum sagt að vikan hafi verið svört í umferðarlegu tilliti. Hraðakstur, vanræksla á bílbeltanotkun og þreyta við akstur, sem eru með algengustu orsökum alvarlegra umferðarslysa, virðast hvert með sínum hætti hafa átt þátt í þremur banaslysum sem urðu á þjóðvegum landsins sl. miðvikudag. Banaslys sl. laugardagskvöld mátti þó rekja til hrossa sem fældust flugelda menningarnætur og hlupu í veg fyrir bíl.

 

Í Morgunblaðinu sl. föstudag var rætt við Ágúst Mogensen, formann Rannsóknarnefndar umferðarslysa sem segir fyrrgreinda þrjá áhættuþætti, þ.e. hraða, vanrækslu á bílbeltanotkun og þreytu hafa komið í ljós við fyrstu skoðun á slysunum sl. miðvikudag. Telur Ágúst brýnt að gera vegbætur á Vesturlandsvegi líkt og gert hefur verið á Reykjanesbraut og í Svínahrauni. Í frétt blaðsins er haft eftir Ágústi: “Umferð á Vesturlandsveginum er ekki aðgreind úr gagnstæðum áttum en þar er um að ræða 1+1 veg. Nú höfum við séð að á þeim hluta Reykjanesbrautarinnar sem var tvöfaldaður hefur ekki orðið banaslys eða harður árekstur frá því vegbæturnar voru gerðar. Sama á við um Suðurlandsveginn þar sem kominn er 2+1 vegur með vír sem aðskilur umferð úr gagnstæðum áttum. Þessvegna veltir maður því fyrir sér hvort Vesturlandsvegurinn sé ekki næstur á dagskrá. Þetta er auðvitað mikill umferðarvegur og þar hafa í gegnum tíðina orðið harðir árekstrar og framanákeyrslur. Ég held því að það sé alveg kominn tími til að huga að því að aðgreina umferð úr gagnstæðum áttum,” sagði Ágúst.

 

Eins og margir muna höfðu áður en vinna hófst við tvöföldun Reykjanesbrautar með tveimur aðskildum akreinum til hvorrar áttar, orðið fjölmörg alvarleg slys á Reykjanesbrautinni og mörg banaslys. Aðstæður þar voru á margan hátt sambærilegar þeim sem nú eru t.d. á Vesturlandsvegi um Kjalarnes og þjóðveginum við Hafnarfjall, þ.e. nokkuð beinn en þröngur vegur, mikill hraði ökutækja á vegi sem einungis samanstendur af einni akrein til hvorrar áttar og ekkert sem skilur á milli þeirra. Alvarlegustu slysin við þessar aðstæður verða því við framúrakstur, hraðakstur, skort á bílbeltanotkun og þreytu ökumanna þegar litlu má muna þegar bílar mætast. Í Skessuhorni í dag er einnig sagt frá nýju gæðamati á vegum sem FÍB hefur haft forgöngu um. Þar kemur í ljós að á góðum vegum leynast hættulegir kaflar sem komnir eru til vegna sparnaðar í hönnun. Gera má því skóna hvort slíkur sparnaður sé í raun einhver sparnaður fyrir þjóðarbúið þegar upp er staðið, m.t.t. afleiðinga alvarlegra umferðarslysa?

Árin áður en stjórnvöld tóku loks ákvörðun um tvöföldun Reykjanesbrautar höfðu öflugir hagsmunahópar fólks af Reykjanesi barist fyrir því að vegabætur yrðu gerðar þannig að slysum fækkaði. Forystu í hópnum hafði Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík sem sýndi mikla þrautseigju sem skilaði sér að lokum í því að brátt sér fyrir endann á löngu tímabærri tvöföldun brautarinnar.

 

Tæplega verður því trúað að þeir sem nota þurfa Vesturlandsveg vilji búa við annmarka hans öllu lengur. Því skorar Skessuhorn hér með á þá aðila sem vilja beita sér fyrir auknu umferðaröryggi á og til Vesturlands að stofnaður verði hagsmunagæsluhópur íbúa í þessum landshluta líkt og Reyknesingar gerðu undir forystu Steinþórs Jónssonar. Hópur þessi hefði það markmið að bæta umferðarmenningu almennings, knýja stjórnvöld til aðgerða í vegabótum og verða málsvari þeirra sem vilja ferðast tiltölulega öruggt milli staða án þess að verða sjálfkrafa þátttakendur í svokallaðri rússneskri rúllettu. Slys síðastliðinnar viku segja í raun allt sem segja þarf um nauðsyn þessa.

MM

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is