25. ágúst. 2006 09:13
Bæjarráð Grundarfjarðar hefur samþykkt að hækka niðurgreiðslur á dagvistargjöldum hjá dagforeldrum í bæjarfélaginu. Það voru fulltrúar D-lista Sjálfstæðisflokks sem lögðu fram tillögu um að niðurgreiðsla átta tíma vistunar hækki úr 12.400 krónum í 21.600 krónur á mánuði. Þá hækki niðurgreiðsla fyrir einstæða foreldra og námsmenn úr 16.000 krónum í 28.000 krónur. Þá hækkar viðbótargreiðsla vegna systkina úr 5.500 krónum í 6.400 krónur.
Fulltrúi L-listans í bæjarráði lagði til að niðurgreiðslan yrði 27.200 krónur og 35.200 krónur hjá einstæðum foreldrum og námsmönnum. Sú tillaga var felld. Í bókun sem L-listinn lagði fram segir að mikilvægt sé að styðja við ungt fjölskyldufólk og að tímabilið frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur og þar til barn fær vistun á leikskóla sé mjög erfitt að brúa fyrir foreldra í fullu starfi. Því leggi L-listinn til að niðurgreiðslan nemi 50% af gjaldskrá. Slíkur stuðningur sé mikilvægur og í anda fjölskyldustefnu Grundfirðinga.