25. ágúst. 2006 01:26
Afkoma HB Granda hf. var neikvæð um rúmlega 2,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Er það mikill viðsnúningur frá sama tíma í fyrra sem rekja má að stærstum hluta til gengismunar og verðbóta á lán félagsins. Veltufé frá rekstri var rúmlega 1,8 milljarður og jókst um tæpan milljarð á milli ára.
Fyrstu sex mánuði ársins voru sölutekjur félagsins 7.670 milljónir króna og kostnaðarverð sölu var 5.750 milljónir króna. Vergur hagnaður nam því 1.920 milljónir króna eða 25% af rekstrartekjum. Á sama tíma í fyrra var vergur hagnaður 1.179 milljónir króna eða 19.4% af rekstrartekjum. Útflutningskostnaður félagsins var 453 milljónir króna og sameiginlegur rekstrarkostnaður var 447 milljónir króna. Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 1.035 milljónir króna. Fjáreignatekjur og fjármagnsgjöld voru neikvæð um 4,123 milljónir króna og hafði því aukist um tæpa fjóra milljarða króna á milli ára.