25. ágúst. 2006 03:07
Byggðaráð Borgarbyggðar hefur ákveðið með tveimur atkvæðum að ráða ekki að svo stöddu í starf markaðs- og menningarfulltrúa Borgarbyggðar. Starfið er nýtt af nálinni og var auglýst laust til umsóknar skömmu eftir að Borgarbyggð hin nýrri varð til. Um starfið sóttu átta manns og var sveitarstjóra falið að kynna umsækjendum þessa ákvörðun. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar segir að farið verði yfir þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar starfinu í upphafi og þær endurmetnar meðal annars með hliðsjón af því hvort rétt sé að deila þessum verkefnum á fleiri störf.