28. ágúst. 2006 06:48
Síðastliðinn föstudag var undirritaður samningur milli KB banka á Akranesi og Hvalfjarðarsveitar um bankaviðskipti sveitarfélagsins. Eins og Skessuhorn hefur greint frá óskaði hið nýja sveitarfélag eftir tilboði frá viðskiptabönkunum um bankaviðskipti og var tilboð KB banka hagstæðast. Að sögn stjórnenda útibúsins á Akranesi hefur KB banki um árabil haft góð tengsl við sveitarfélögin sunnar Skarðsheiðar og íbúa þeirra. “Því er mjög ánægjulegt fyrir Hvalfjarðarsveit og íbúa sveitarfélagsins að hafa náð hagstæðum samningi um bankaviðskipti og er það von stjórnenda KB banka að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið og sjái sér hag í því að bjóða út viðskipti sín,” sagði Haraldur Ingólfsson aðstoðarútibússtjóri í samtali við Skessuhorn.
Á myndinni sjást samningsaðilar handsala samninginn. Frá vinstri: Svanborg Frostadóttir, útibússtjóri, Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri, Hallfreður Vilhjálmsson, oddviti og Haraldur Ingólfsson, aðstoðarútibússtjóri.