Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. ágúst. 2006 01:32

Segir sveitarstjórn Dalabyggðar ekki hafa staðið við leigusamning

Framkvæmdastjóri Norðlenska á Akureyri vísar því á bug að félagið hafi ekki undirbúið slátrun í Búðardal. Hann segir Dalabyggð ekki hafa náð að skila húsinu með starfsleyfi. Heimamenn hafi ekki sýnt slátrun í Búðardal nægilegan áhuga og því hafi slátrun nú lagst af þar. Með því taki bændur ákveðna áhættu. Hann hafnar einnig að fákeppni ríki í sauðfjárslátrun. Þrír stærstu sláturleyfishafarnir nái ekki sömu markaðshlutdeild og þrjár stærstu verslunarkeðjurnar.

 

Eins og fram kom í fréttum á skessuhorn.is á föstudaginn var hefur Kaupfélag Skagfirðinga tekið við leigusamningi Norðlenska um sláturhúsið í Búðardal. Jafnframt hefur verið ákveðið að hætta slátrun í húsinu aðeins einu ári eftir að það var endurbætt fyrir 66 milljónir króna. Þess í stað hefur KS skuldbundið sig til þess að skapa fimm heilsárs störf í Búðardal. Sveitarstjóri Dalabyggðar sagði í samtali við Skessuhorn að Norðlenska hafi ekkert gert til að undirbúa slátrun og því hafi sveitarstjórn Dalabyggðar verið sett í afar erfiða stöðu.

 

Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska segir fyrirtækið hafa tekið sláturhúsið í Búðardal á leigu með það að markmiði að slátra þar enda húsið afar vel í sveit sett og í miðju þriggja mestu sauðfjársvæða landsins. Ljóst hafi hins vegar verið að slátra þyrfti 25-30 þúsund fjár til þess að starfsemin bæri sig. Því hafi starfsemin staðið og fallið með undirtektum bænda í næsta nágrenni. Þær undirtektir hafi því miður verið dræmar. Hann segir Norðlenska stóran kaupanda kjöts frá KS og þegar forráðamenn þess félags hafi viðrað þá hugmynd að yfirtaka leigusamninginn gegn því að selja Norðlenska kjöt af svæðinu hafi þeir talið hugmyndina umræðunnar virði. Á fundi sem forráðamenn félaganna áttu með forsvarsmönnum Dalabyggðar hafi komið fram skýr vilji sveitarstjórans að þeim litist mun betur á KS sem samstarfsaðila. Sveitarstjórn Dalabyggðar hafi því haft um tvo kosti að ræða og valið KS. Ákvörðunin um að hætta slátrun í Búðardal hafi verið tekin síðar.

 

Sigmundur vísar á bug fullyrðingum sveitarstjórnans í Búðardal þess efnis að Norðlenska hafi ekki undirbúið slátrun í Búðardal. Hann segir félagið hafi haldið undirbúnings- og kynningarfund í vor og þegar hafi verið ráðinn sláturhússtjóri og 12 starfsmenn. Hins vegar hafi sveitarstjórn Dalabyggðar ekki staðið við sinn hluta samningsins því húsið átti að afhenda með framleiðsluleyfi sem ekki hafi fengist því gerðar hafi verið kröfur um ákveðnar lagfæringar. Þær hafi ekki verið gerðar og því hefði að óbreyttu ekki verið hægt að slátra í húsinu.

 

Mikil hagræðing hefur átt sér stað í sauðfjárslátrun á undanförnum árum með fækkun sláturhúsa. Sigmundur segir að samt sem áður tryggi nálægðin við sláturhús ákveðið öryggi fyrir bændur með því tekur byggist á góðri flokkun fjárins. Með því að lengja vegalengdir til sláturhúsa séu bændur því að auka áhættuna í sínum rekstri og það eigi við um bændur á svæði sláturhússins í Búðardal sem nú hættir rekstri.

 

Eins og áður hefur komið fram í Skessuhorni hafa þær raddir heyrst að með þessum samningi séu fyrirtækin tvö að staðfesta ákveðna skiptingu landsins milli þriggja stærstu sláturleyfishafanna og í raun sé fákeppni á þessu sviði. Þessu hafnar Sigmundur alfarið. Hann bendir á sem dæmi að þrír stærstu sauðfjársláturleyfishafarnir hafi ekki jafn mikla markaðshlutdeild og þrjár stærstu smásölukeðjurnar í landinu. Á því sem kallað sé svæði Norðlenska séu til dæmis starfandi þrír aðrir öflugir sláturleyfishafar.  Á það hefur einnig verið bent, sem dæmi um fákeppni, að tilboð sláturleyfishafa til bænda séu mjög keimlík. Sigmundur segir að Landssamband sauðfjárbænda gefi út viðmiðunarverðskrá og sú verðskrá gefi ákveðinn tón í verðlagningu. Það sé ekki gert að beiðni sláturleyfishafa. Sigmundur vill ekki taka undir að Landssamband sauðfjárbænda sé því að halda niðri verði til bænda  með viðmiðunarverðskránni en bætir við að samtök bænda hafi ávallt viljað halda kjörum bænda á svipuðum slóðum.

 

Sigmundur ítrekar að Norðlenska hafi haft fullan vilja og getu til slátrunar sauðfjár í Búðardal. Heimamenn hafi hins vegar ekki staðið saman um þann möguleika að slátra í héraði og valið annan kost.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is