29. ágúst. 2006 02:36
Fregnir hafa borist af því á síðustu vikum að borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð nágrannasveitarfélaga borgarinnar hafi samþykkt að slökkva öll ljós í tengslum við Alþjóða kvikmyndahátíðina. Nú hefur hugmyndin verið útvíkkuð og forsvarsmenn hátíðarinnar hafa sent erindi á öll sveitarfélög í landinu. Hugmyndin er að öll ljós verði myrkvuð frá klukkan 22:00 til 22:30 fimmtudagskvöldið 28. september. Erindið hefur þegar verið tekið til umfjöllunar í bæjarráði Snæfellsbæjar og bæjarstjóra falið að kanna tæknilega útfærslu þess og það er á dagskrá bæjarráðsfundar Akraneskaupstaðar á eftir.
Atli Bollason hjá Alþjóða kvikmyndahátíðinni segir að eftir þau jákvæðu viðbrögð sem bárust frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið ávkeðið að víkka verkefnið út. Menn vonist því eftir því að hægt verði að myrkva landið allt í hálftíma á þessum degi. Aspurður hvort menn hafi hugsað fyrir því að það gæti orðið skýjað, segir Atli að lögreglan hafi gefið heimild fyrir frestun allt til 2. októbers ef veður verður óhagstætt. Það eigi við um höfuðborgarsvæðið og vonast aðstandendur til að sömu skilmálar gildi annarsstaðar. “Annars finnst mér þetta engu síðri viðburður þó það verði skýjað. Það að hægt sé að slökkva öll ljós í heilu landi er nokkuð magnað. Margir sem búa í þéttbýli vita ekki lengur hvað myrkur er, það er búið að gera út af við alla drauga með ljósunum,” segir Atli að lokum.
Hugmyndin er vissulega nýstárleg þó ekki sé þetta í fyrsta skipti sem hún hafi skotið upp kollinum. Listamaðurinn Vignir G. Jóhannsson var í viðræðum við bæjaryfirvöld á Akranesi og í Reykjavík í fyrra um að í kringum jól og áramót yrðu öll ljós í sveitarfélögunum myrkvuð. Ekkert varð hins vegar úr þeim hugmyndum, en nú virðast meiri líkur á því að hugmyndin verði að veruleika.