30. ágúst. 2006 02:45
Íbúar við Esjuvelli hafa sent bæjarstjórn Akraness undirskriftarlista þar sem þeir lýsa miklum áhyggjum sínum af „óábyrgum hraðakstri í hverfinu og slysahættu samfara því“ eins og segir í undirskriftarlistanum. Þeir segja þetta gerast á sama tíma og ungum börnum hefur fjölgað á svæðinu sem aftur dragi að sér enn fleiri börn, enda hafi hverfið verið einstaklega barnvænt.
„Þar hefur farið vaxandi að ofsaakstur fari fram í hverfinu á öllum tímum sólarhringsins og eiga þar hlut að máli nokkrir aðilar. Reynt hefur verið að kalla til lögreglu sem hefur brugðist við en fær engu um breytt“ segir í undirskriftarlistanum. Íbúar hafa rætt við starfsmenn bæjarins um hugsanlegar úrbætur og mætt þar miklum skilningi. Vænlegast hefur þótt að koma fyrir þrengingum á ákveðnum stöðum ásamt því að lækka hámarkshraða í hverfinu. Íbúarnir nefna einnig að mest sé slysahættan við blindhorn í götunni og gangstígur frá Kalmansvöllum inn á Esjuvelli endi á blindhorni. Þar megi bregðast við með einföldum og ódýrum hætti með uppsetningu á skærgulu handriði.
Bæjarráð Akraness þakkaði íbúum ábendinguna og vísaði erindinu til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd. Eins og fram hefur komið í Skessuhorni hefur nefndin haft til skoðunar tillögur til lækkunar umferðarhraða.