30. ágúst. 2006 04:19
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, gerir alvarlegar athugasemdir við frásögn Kristins Jónassonar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar sem fram kom á vef Skessuhorns í dag. Þar kom fram að Ögmundur hafi hótað fjölmiðlaumfjöllun ef uppsagnir bæjarstarfsmanna yrðu ekki dregnar til baka. Á vef BSRB kemur fram að Ögmundur hafi hótað lögsókn ekki fjölmiðlaumfjöllun.
Á vef BSRB segir orðrétt: „Formaður BSRB gerir alvarlegar athugasemdir við frásögn bæjarstjórans. „Sannast sagna koma yfirlýsingar bæjarstjórans mér mjög á óvart. Ég átti ásamt lögfræðingi BSRB og formanni Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu ágætan fund með bæjarstjóra og samstarfsfólki hans 4. júlí þar sem farið var yfir stöðu mála.“ Sagði Ögmundur að af hálfu BSRB hefði verið gerð grein fyrir því að bandalagið teldi uppsagnirnar ekki standast lög og samninga og myndi málið enda fyrir dómstólum ef engin breyting yrði á.
„Við buðum hins vegar upp á samstarf um að leysa málið sem þar með yrði úr sögunni. Báðum við bæjarstjóra að íhuga málið þar til síðar í mánuðinum, áður en uppsagninrnar tækju gildi, og var ákveðinn fundur 26. júlí. Á þeim fundi kom hins vegar í ljós að bæjarstjórn myndi halda málinu til streitu og yrðu uppsagnirnar látnar standa. Ég sagði að við hörmuðum þessa niðurstöðu og í samræmi við fyrri yfirlýsingar myndum við nú fela lögmönnum að útbúa stefnu. Fram til þessa hafði ég litið svo á að málið væri í skoðun á milli BSRB og bæjaryfirvalda og vildi ég ekki að bæjarstjóri velktist í vafa um að þar sem bæjarstjórnin vildi ekki taka tillit til sjónarmiða BSRB færi málið fyrir dómstóla og yrði jafnframt gerð grein fyrir því opinberlega. Það var og gert á fréttavef BSRB eins og eðlilegt hlaut að teljast.“