Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. september. 2006 01:51

Sauðfjárbændur geta vart búist við mikilli kjarabót í haust

Í fréttaskýringu Skessuhorns, sem birtist í prentútgáfu þess nú í vikunni, er fjallað um horfur á sölu kjöts, verðlagsmál lambakjöts, hugsanlegar fákeppnisaðstæður á sláturleyfismarkaði og afkomu sauðfjárbænda almennt. Þar kemur m.a. fram að útlit er fyrir að raunhækkun dilkakjöts milli ára dugi vart fyrir auknum kostnaði bænda við aðföng og verðbólgu undanfarinna 12 mánaða. Þetta gerist á sama tíma og söluhorfur kjötafurða er með besta móti og birgðastaða í sögulegu lágmarki. Niðurstaðan er í hnotskurn sú að sauðfjárbændur njóta ekki að sinni að minnsta kosti ávaxtanna af batnandi stöðu á kjötmörkuðum og hækkandi verði sem neytendur hafa verið að greiða.

 

Það er gjarnan sagt að uppskerutími sauðfjárbænda sé haustið; fé er sótt á fjall og rekið til rétta, bændur vega og meta dilka sína og senda til slátrunar og fá fljótlega úr því skorið hvað þeir bera úr bítum fyrir vinnu sína síðustu 12 mánuði. Sauðfjárbændur eru þannig sú stétt manna, líkt og t.d. skáld, sem vinnur lengi að ákveðnu verki án þess að vita með neinni vissu hver afraksturinn verður. Þeir eru jafnvel háðir mun fleiri breytum en skáldið sem semur bókina, mörgum síkvikulum þáttum svo sem breytingum á neyslumynstri almennings, stöðu vinnslufyrirtækja, veðri, verðbólgu og verðbreytingum á ýmsum aðföngum. Allt óvissuþættir sem ekki er séð fyrir um áður en borið var á tún í fyrravor, heyjað í fyrrasumar og hrútunum hleypt í krærnar á síðustu aðventu; sem sýnir hversu aðdragandinn er langur í vinnsluferlinu áður en kemur að því að dilkar verða lagðir inn nú í haust. Undanfarið ár hafa sterkar væntingar verið til þess að sauðfjárbændur gætu nú farið að eygja bjartari tíma í afkomulegu tilliti en eins og allir vita eru tekjur af sauðfjárbúum það litlar að fæstir bændur lifa eingöngu af sauðfjárrækt. Lambakjötsneysla hefur á nýliðnum árum verið að aukast og landinn kaupir afurðirnar í vaxandi mæli og reyndar hefur átt sér stað söluaukning í öllum tegundum kjöts, bæði rauðu og hvítu. Lambakjötsfjallið fræga heyrir nú sögunni til og minni birgðir leiða til þess að jafnvel er skortur á dilkakjöti á nýja markaði sem loksins virðast vera að opnast á erlendri grundu. Aukning hefur orðið á sölu lambakjöts sl. 12 mánuði þrátt fyrir lítið markaðsstarf og lélegt grillveður í sumar.

 

En miðað við bættar aðstæður á markaði geta bændur þá búist við verulegum hækkunum á innleggjum sínum í haust? Einn ágætur sauðfjárbóndi sem blaðamaður heyrði til á bændafundi í Húnavatnssýslu í liðinni viku sagði orðrétt: “Ef bændur nýta ekki rétt sinn til að bæta kjör sín nú í haust og mótmæla skammarlegri verðskrá sláturleyfishafa, þá gera þeir það aldrei. Aðstæður á kjötmarkaði hafa aldrei verið betri og því skyldi það ekki leiða til þess að við fáum meira fyrir afurðir okkar?”  Þó einstaka baráttuglaður bóndi, eins og sá húnvetnski láti heyra í sér, bendir þó margt til þess að bændur beri í krónutölu um 10% meira úr bítum í haust miðað við í fyrra, en raunhækkun verði mun minni eða jafnvel engin að teknu tilliti til aðfangahækkana og 4,8% hækkunar neysluverðsvísitölu undanfarna 12 mánuði.

 

Minna til útflutnings

Þrátt fyrir að verðbólga hafi undanfarna mánuði mælst þetta 8-9% miðað við eitt ár, gáfu Landssamtök sauðfjárbænda út viðmiðunarverð fyrir dilka- og ærkjöt fyrr í sumar sem verður að segjast eins og er að innihaldi, miðað við aðstæður á markaði, afskaplega hófstillta kröfu um hækkun kjöts svo ekki sé kveðið sterkar að.  Þannig hækkar verðskráin um 10% frá því á síðasta ári og gildir það um alla flokka kjöts nema um kjöt af fullorðnu fé sem hækkar um 17% milli ára. Rétt er að taka skýrt fram að verðskrá LS birtir lágmarks viðmiðunarverð sem samtök sauðfjárbænda vænta fyrir komandi sláturtíð en að sjálfsögðu geta sláturleyfishafar bætt um betur og hækkað meira. Raunin hefur hinsvegar verið sú, og undir það tekur m.a. framkvæmdastjóri Norðlenska, að sláturleyfishafar taka mið af viðmiðunarverði LS, þar er tónninn gefinn af bændunum sjálfum. Þá er gengið út frá því í haust að útflutningsverð dilkakjöts í haust nái 220 kr. á kg. en landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að útflutningsskylda haustið 2006 verði 4% til og með 9. september, hækki þá í 10-12% en lækki aftur í 4% 12. nóvember.

 

Mesta kjarabótin fyrir bændur í haust felst því e.t.v. í að minna af framleiðslunni verður eyrnamerkt til útflutnings miðað við 18% árið 2005 og 36% árið 2004, en fyrir kjöt til útflutnings hefur fengist verulega lægra verð en fyrir það sem ætlað er á innanlandsmarkað. Þó telur Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands að útflutningshlutfallið hefði mátt vera ívið hærra, eða 12% í stað 10% miðað við horfur á mörkuðum hér innanlands- og utan.

 

Skiptar skoðanir um ákvörðun LS

Sláturleyfishafar hafa á undanförnum dögum verið að gefa út verð sín til bænda og taka þau mið af kröfum Landssambands sauðfjárbænda, eins og við mátti búast. Hækkun á verði sláturleyfishafa er algeng þetta um 10-12% frá því á liðnu hausti og sumir þeirra ætla þar að auki að staðgreiða bændum sem þýðir einhverja kjarabót til viðbótar. Þar kemur þó á móti að fæstir þeirra ætla að greiða sérstaklega fyrir innmat og gærur og hafa fellt verð fyrir þær afurðir inn í kílóverð kjöts. Fyrir innmat og gærur hefur á undanförnum árum mjög lítið verið greitt en hér eftir alls ekkert. Sauðfjárbóndi á Vesturlandi sem Skessuhorn ræddi við fyrir vinnslu þessarar fréttar og sem ekki vill láta nafns síns getið, telur veigamikil rök gegn því að Landssamtök sauðfjárbænda leggðu fram kröfur um meiri hækkun kjöts í haust. Þau rök eru einfaldlega að hækki kjötið meira verður sterkari krafa t.d. á Alþingi nú á kosningaári um að felldir verði niður innflutningstollar á kjöti til landsins og gegn því vilja hagsmunasamtök bænda standa.

 

Annar bóndi sem býr í Borgarfirði og Skessuhorn ræddi við var á algjörlega öndverðu meiði við starfsfélaga sinn og taldi að sú litla hækkun sem boðuð hefur verið á kjöti í haust leiði til þess að hann taki ákvörðun um að hætta framleiðslu: “Fyrst ekki er hægt að hækka verð til okkar meira en þetta núna, jafnvel þó selja hefði mátt miklu meira af kjöti fyrir gott verð á erlenda markaði, þá ætla ég að hætta þessu – ég gefst upp! Ég tel útséð með að sauðfjárbændur nái nokkurntímann að standa saman um að bæta kjör sín fyrst þeir gera það ekki núna.”

Af framansögðu má ljóst vera að Landssamtök sauðfjárbænda bera mikla ábyrgð við verðmyndun lambakjöts með útgefnu viðmiðunarverði sínu fyrr í sumar. Einn viðmælandi blaðsins taldi auk þess mjög óeðlilegt að formaður Landssambands sauðfjárbænda væri á sama tíma formaður afurðastöðvar á NA landi og velti því fyrir sér hvort viðkomandi bóndi hefði meiri hagsmuni sem formaður stjórnar vinnslufyrirtækis, en sem sauðfjárbóndi sem þyrfti að fá hæsta mögulega verð fyrir afurðir sínar – frá sláturleyfishafanum.

 

Fákeppnisaðstæður í slátrun

 

Á liðnum árum hefur það verið stefna stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands að fækka beri sláturhúsum hér á landi og stuðlað þannig að öflugri rekstri sláturleyfishafa sem eftir yrðu. Sum þeirra uppfylltu ekki kröfur um aðbúnað og þurftu af þeim sökum að hætta starfsemi. Rök fyrir fækkun sláturhúsa voru m.a. þau að sláturleyfishafar og kjötvinnslur þurftu að ná sterkari stöðu gagnvart kaupendum sinna vara, þ.e. verslanakeðjum á smásölumarkaði sem undanfarin ár hafa í krafti stærðar sinnar haft sterk tök á tiltölulega veikbyggðum fyrirtækjum í slátrun og vinnslu. Engu að síður hefur sú mikla fækkun sláturhúsa sem raun ber vitni orðið hraðari og meiri en flestum óraði fyrir og segja má að nú séu einungis þrjár blokkir fyrirtækja sem skipta með sér hátt í 90% af markaðinum hér á landi, þ.e. Norðlenska á NA- og Austurlandi, Kaupfélag Skagfirðinga sem einkum starfar á svæðinu vestan Tröllaskaga, Vestfjörðum og hluta Vesturland og hefur nú yfir að ráða sláturhúsunum á Króksfjarðarnesi og Búðardal og á helmingshlut í sláturhúsinu á Hvammstanga og þar af leiðandi hefur mikið samstarf við og loks er það Sláturfélag Suðurlands sem hefur yfirburðastöðu á Suðurlandi og teigir sig einnig að hluta inn í aðra landshluta eftir sláturfé. Auk þessara stóru sláturleyfishafa eru nokkur lítil hús á Vopnafirði, Kópaskeri og Blönduósi sem slátra litlu magni hvert af þeim 550 þúsund dilkum sem slátrað verður í haust.

 

Ráðagerð stjórnvalda hefur tekist hvað fækkun sláturhúsanna varðar en sennilega hefur þessi skyndilega fækkun orðið meiri en nokkurn óraði fyrir, því umhverfi þar sem þrjú fyrirtæki ráða nær öllum markaði kallast fákeppnismarkaður og slíkar aðstæður vilja menn forðast í lengstu lög. Íslendingar þekkja vel dæmin; við eigum þrjú olíufélög, þrjá til fjóra stóra viðskiptabanka, þrjú gildandi tryggingafélög og áfram mætti telja. Meint verðsamráð olíufélaganna er dæmi sem talar sínu máli um galla markaðar sem einkennist af fákeppni. Fyrirtæki í fákeppni liggja eðli málsins samkvæmt sífellt undir ámæli og grunsemdum um samráð sem er slæmt fyrir þau en um að ræða einn mesta óvin neytenda. Fákeppni er enda litla systir einokunar.

 

Þegar fyrirtækjum í þessari grein fækkar svo ört vaknar eðilega sú spurning hvort í sauðfjárslátrun hér á landi sé komin upp staða fákeppni og hvort slíkt sé ekki fjandsamleg staða t.d. fyrir bændur sem eiga allt sitt undir frjálsri verðmyndum kjöts. Hverjir eru t.d. kostir vestlenskra bænda í haust til að fá dilkum slátrað? Vart er það raunhæfur möguleiki að aka fénu til slátrunar á NA horn landsins og við það fækkar möguleikunum verulega. Einnig má segja að þessi staða sé uggvænleg fyrir afurðastöðvar sem ekki hafa sláturleyfi og nægir í því sambandi að nefna kjötvinnslufyrirtæki eins og t.d. það sem starfar í Borgarnesi og sl. sunnudag vígði nýtt, tæplega 2000 fermetra sérhæft kjötvinnsluhús. Staða þess fyrirtækis hvað varðar kaup á dilkakjöti til framleiðslunnar er erfið og búast má við að verð á aðföngum til þess verði hærra en samkeppnisaðilar þeirra fá, reki þeir einnig sláturhús. Á sama hátt og bændur í Dalabyggð eru uggandi yfir nýjustu fregnum af því að hætt er slátrun í Búðardal hljóta stjórnendur Borgarness kjötvara að íhuga af alvöru slátrun dilka í Borgarnesi á nýjan leik; eigi að vera hægt að tryggja vinnslunni nægjanlegt hráefni.

 

Ójöfn skipting

 

En hverjir eru raunverulegir möguleikar bænda nú í upphafi haustslátrunar 2006 til að ná hærra verði fyrir innlegg sín í haust? Það að innan við 1% verðmunur sé á algengum flokki dilkakjöts hjá þremur stærstu fyrirtækjunum í slátrun bendir til að þrátt fyrir að eftirspurn sé mikil eftir kjöti um þessar mundir þá muni sú eftirspurn ekki skila sér í hækkuðu verði til bænda. (Skv. verði á flokknum D-R3 hjá SS, KS og Norðlenska sl. föstudag, en í þennan flokk fóru í fyrrahaust um 26-28% kjötsins. KS ætlar að greiða kr. 339 fyrir kg, SS kr. 338 kg. og Norðlenska kr. 336 kg.). Að teknu tilliti til verðbólgu undanfarinna mánaða er boðuð hækkun á verði lambakjöts til bænda svo lítil að hún vegur vart upp hækkun á aðföngum sem bændur hafa þegar orðið fyrir á framleiðsluferlinu sem hófst sl. ár með kaupum á áburði, olíu á vélar, kjarnfóðri og öðrum rekstrarvörum til búanna. Lögmálið um framboð og eftirspurn virðist því að framansögðu ekki skila sér til þeirrar hækkunar sem bændur hefðu átt að geta vænst á kjöti í haust m.t.t. sögulega lítilla birgða lambakjöts.

 

Talið er að 18-26% hækkun hafi orðið á verði kjöts út úr búð til neytenda á liðnum 12 mánuðum og virðist því sem milliliðir og smásöluverslun sé að taka þá hækkun nær alla eða alla til sín, en bóndinn, sjálfur framleiðandinn, situr eftir. Allar tölur um hvernig vinnslufyrirtækin annarsvegar og smásöluverslunin hinsvegar skipta mismuninum á sínum hluta í heildarverði kjöts á milli sín er erfitt að nálgast. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands segir í samtali við Skessuhorn að hlutur bóndans af heildarverði lambakjöts sé um 40% sem þýðir að vinnslan og smásalan ásamt virðisaukaskatti sem ríkið tekur til sín taki 60%. Smásöluverslunin fær á að giska sama verð fyrir að selja kjötið og bóndinn sem vinnur að framleiðslu þess 12-16 mánuði á ári. Þó þarf verslunin ekki að sitja uppi með birgðir eða óselda vöru og er á engan hátt að leggja af mörkum viðlíka vinnu og bóndinn, sem þó fær ekkert meira í sinn hlut. Kökunni er þannig æði misskipt í hlutfalli við fjárfestingu og rekstrarkostnað.

 

Bændur taki höndum saman

 

Af framansögðu gætu aðstæður sauðfjárbænda nú í upphafi sláturtíðar 2006 um margt verið betri. Að líkindum hafa bændur litla möguleika úr þessu til að bæta kjör sín fyrir komandi sláturtíð. Einna helst gætu þó baráttuglaðir bændur á sömu landssvæðum tekið höndum saman. Áður en þeir undirrita sláturfjárloforð sín í haust gætu þeir boðið sláturleyfishöfum að bjóða í hjarðir sínar á fæti og knúið með því móti fram hærra verð í krafti stærðar sinnar. Ef rétt er að líkur séu á góðri sölu lambakjöts bæði innanlands- og utan á næsta ári ættu sláturleyfishafar að hafa bæði svigrúm og fjárhagslegt bolmagn til að greiða hærra verð fyrir kjötið í haust en það verð sem þeir hafa nú kynnt. Að öðrum kosti hljóta menn að spyrja hvert ávinningurinn og hagræðingin hafi lent sem stefnt var að með fækkun sláturhúsa?

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is